Töluverðar framkvæmdir hjá Golfklúbbi Skagastrandar

 Það sem af er sumri má segja að aðstæður til golfiðkunar hafi verið mjög góðar, hlýindi og frekar lygnt.  Háagerðisvöllur kom þokkalega undan vetri þrátt fyrir að kal hafi verið með meira móti.

Síðustu vikurnar hefur verið unnið að endurbótum á Háagerðisvelli. Lagt var malarlag á planið við klúbbhúsið og áhaldageymsluna. Verið er að setja niður nýja rotþró og frárennslislagnir. Flötin á braut 5 var endurmótuð og nýtt gras lagt á hana, auk þess sem næsta umhverfi flatarinnar var endurbætt. Þökurnar koma frá Suðurlandi og er grasið sérstakt „golfvallargras“. Sorphreinsun Vilhelms hefur unnið að öllum þessum verkefnum . Félagar í golfklúbbnum hafa einnig unnið að þökulagningunni.

Þessa dagana er boðið upp á golfkennslu fyrir íbúa Skagastrandar. Kennari er Hulda Birna Baldursdóttir. Áhugasamir eru hvattir til að mæta á golfvöllinn og reyna sig við þessa skemmtilegu og áhugaverðu íþrótt.

Golfklúbbur Skagastrandar