Tré gróðursett víða um Skagaströnd

Þegar Pétur Eggertsson, íbúi á Skagaströnd, var að grisja trjágróður í garði sínum datt honum í hug að gefa sveitarfélaginu 20 viðjuplöntur. Þær voru þegnar með þökkum og gróðursettar á milli Suðurvegs og Suðurvegs B.

Skógræktarfélag Skagastrandar fékk fyrir stuttu gefins um 300 birkiplöntur og aspir, hvort tveggja um 40 til 50 cm háar og hefur gróðursett þær víðs vegar um bæinn. 

Skógræktarfélagið hefur einnig keypt um 40 aspir af kvæmi sem nefnist keisari. Það er tegund sem á að henta vel fyrir norðlægar slóðir og hafa reynst einstaklega vel. Þessar pöntur hafa verið gróðursettar við íþróttahúsið og neðst á Fellsbraut til móts við kirkjuna.

Einnig hefur Skógræktarfélagið ákveð að setja niður bakkaplöntur, reynivið og sitkagreni, í skógræktarsvæði fyrir ofan tjaldsvæðið. Þar voru í fyrra gróðursetttar um 1200 birkiplöntur. Fyrirhugað er að plönturnar verði gróðursettar næsta mánudagskvöld, þann 18. júlí kl. 20. Allir sem áhuga hafa eru endilega hvattir til að koma, njóta útiverunnar og jafnvel gætu sumir lært eitthvað hagnýtt um gróðursetningu.