Tvær nýjar bækur gefnar út á Skagaströnd.

 

Lárus Ægir Guðmundsson á Skagaströnd hefur kynnt tvær nýjar bækur sem hann hefur tekið saman, skráð og gefið út.

Hér er um að ræða bækurnar - Leiklist á Skagaströnd 1895 – 2015 og Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927 – 2013.

Kvenfélagið Eining var stofnað 1927 og hefur síðan stuðlað að framförum og þróun sam- félagsins og auðgað það með ýmsum menningarviðburðum og öðru starfi. Félagið stóð fyrir stofnun og rekstri sjúkrasjóðs, tók þátt í byggingu félagsheimilisins Fellsborgar og lagði fjármuni í byggingu Hólaneskirkju ásamt ýmsu öðru markverðu. Gjafir félagsins eru ótrúlega margar og flestar til ýmissa góðgerða- og framfaramála á Skagaströnd og nágrenni. Verðmæti þeirra skiptir mörgum tugum milljóna króna væru þær reiknaðar til núvirðis. Félagið hefur alla tíð ályktað um hugðarefni samtímans og lagt fram uppbyggilegar tillögur og barist fyrir framgangi þeirra.

Leikstarfsemi hefur í langan tíma verið töluverð á Skagaströnd og koma þar margir við sögu. Að því er best er vitað var fyrsta leikritið sett upp í kauptúninu árið 1895. Leikfélag Höfðakaupstaðar var stofnað 1945 og Leikklúbbur Skagastrandar 1975. Fjöldi leikrita lifnuðu við á fjölum þeirra sex húsa sem gegnt hafa hlutverki leikhúss. Sögurnar úr starfinu eru margar og einnig er til fjöldi skemmtilegra mynda. Hér er lögð áhersla á að varðveita söguna, nöfn og myndir af þeim sem þátt tóku í stórmerkilegu menningarstarfi.

Útgáfa bókanna var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Lárus Ægir hefur áður gefið út 4 bækur en það eru:  Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár sem kom út 2009, Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908 – 2010 útgefin 2011, Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 – 2012 og Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd 80 ára en báðar þessar bækur voru útgefnar árið 2012.