Tvær nýjar bækur tengdar Skagaströnd.

Um þessi jól koma út margar bækur að vanda. Ein þessara bóka er “Minningar og lífssýn” eftir Björgvin Brynjólfsson. Björgvin er löngu landskunnur fyrir störf sín að stjórnmálum og verkalýðsmálum. Húnvetningar þekkja hann einnig m.a sem frumkvöðul að stofnun Sparisjóðs Skagastrandar. Saga Björgvins Brynjólfssonar er miklu meira en saga hans sjálfs. Hún er jafnframt saga síðustu aldar í hnotskurn. Björgvin segir frá ýmsum kímnilegum atvikum, svo sem því, að sá kunni framsóknarmaður, Björn á Löngumýri, taldi það engu fyrirstöðu að ganga í Alþýðuflokkinn-ef það mætti verða til að hann kæmist á þing. Auk æviminninganna, stjórnmálasögunnar og sögu verkalýðsbaráttunnar, er hér að finna flestar blaðagreinar Björgvins, ferðaþætti og fleira, þannig að segja má að þessi bók sé í raun heildaarritsafn hans. Höfundur gefur út og dreifir bókinni sjálfur. Út er komin ný heimildarskáldsaga eftir Björn Th. Björnsson sem ber nafnið “Glóið þið gullturnar”. Í kynningu með bókinni segir” Einn þeirra dönsku kaupmanna sem störfuðu hér fyrr á öldum var Fritz Hendrik Berndsen sem kom til Skagastrandar upp úr miðri 19.öld. Lífshlaup hans var hins vegar um margt óvenjulegt og skrautlegt, en afkomendur hans eru margir og hafa ýmsir þeirra sett mikinn svip á samfélagið á Skagaströnd. Björn Th. Björnsson hefur nú ritað heimildaskáldsögu um Fritz Hendrik sem byggir m.a. á endurminningum hans sjálfs”. Útgefandi er Mál og menning.