Tveir fyrirmyndarkennarar

Tveir kennarar af Norðurlandi vestra hlutu í dag viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf en þeir eru Sara Diljá Hjálmarsdóttir, kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd og Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Samkvæmt fréttatilkynningu tóku fimm kennarar í dag við viðurkenningum fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra. Viðurkenningarnar voru veittar í framhaldi af átakinu „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is

Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum. Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu. Í fyrsta sinn voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

(frétt af www.feykir.is )