Upplestrarkeppnin 2007

Fimmtudaginn 22. mars var lokahátíð Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi. Keppnin er hluti af Stóru upplestrarkeppninni sem haldin er um allt land og á sér nokkuð langa sögu eða frá árinu 1996. Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi hefur hins vegar verið haldin frá árinu 2004 og er tilorðin vegna sjóðsstofnunnar nokkurra ættingja og vina Gríms Gíslasonar í tilefni af 90 ára afmæli hans. Sjóðurinn gaf verðlaunagrip sem afhentur er sigurvegara keppninnar hverju sinni til varðveislu. Allir keppendur fengu bókagjöf frá Eddu útgáfu, þrír bestu lesararnir fengu að auki gjafabréf frá Sparisjóði Húnaþings og Stranda.

Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn.

Forkeppnir höfðu farið fram í öllum 7. bekkjum skólanna og þrír fulltrúar valdir frá hverjum skóla.

Keppendur stóðu sig allir með sóma og geta allir skólarnir verið stoltir af sínum fulltrúum. Sigurvegarar að þessu sinni voru:

1. Daníel Ingi Sigþórsson Grunnskóla Húnaþings vestra

2. Stefán Logi Grímsson Húnavallaskóla

3. Sandra Haraldsdóttir Húnavallaskóla

Dómarar keppninnar voru þeir Þórður Helgason, Sigrún Grímsdóttir, Jófríður Jónsdóttir og Valgarður Hilmarsson.