Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

 

Verður að þessu sinni haldin í Austur Húnavatnssýlsu. Síðasta ár var uppskeruhátíðin við Mývatn og nú er komið að Húnvetningum að bjóða til sín ferðaþjónustuaðilum af öllu Norðurlandi. Hátíðin verður haldin fimmtudaginn 9. nóvember. Gestir mæta við Upplýsingamiðstöð ferðamála í Brautarhvammi á Blönduósi kl. 11:00. Þar verða rútur sem fara með hópinn í sýnisferð um héraðið. Fróðir heimamenn kynna áhugaverða ferðamannastaði fyrir þátttakendum. Austur Húnavatnssýsla hefur margt að bjóða gestum sínum, bæði í náttúru og menningu. Vonast er til að ferðaþjónustuaðilar af öllu Norðurlandi mæti til leiks og ekki síst að heimamenn taki þátt. Það er mjög gagnlegt og skemmtilegt fyrir fólk í greininni að bera saman bækur sínar og eyða deginum saman. Hádegisverður verður snæddur í nýju hóteli á landnámsbænum Hofi í Vatnsdal. Þór Hjaltalín minjavörður mun kynna verkefnið “Á slóð vatnsdælasögu”. Komið verður við í Blöndustöð, Þingeyrakirkju og á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi þar sem Jóna Fanney Friðriksdóttir bæjarstýra á Blönduósi og Elín Sigurðardóttir safnstýra taka á móti gestum.  Eftir skemmtilega skoðunarferð verða gestir boðnir velkomnir til Skagastrandar í hinu glæsilega kaffihúsi, Kaffi Viðvík.  Matarveisla og skemmtun verður í  Kántrýbæ, þar sem Magnús B. Jónsson sveitastjóri sér um veislustjórn í Villta vestrinu.  Skoðunarferð og veitingar eru gestum að kostnaðarlausu, en gistingu verður hver að sjá um fyrir sig. Gist verður á Blönduósi . Gistimöguleikar eru á Hóteli, Gistihúsi og í sumarhúsum. Bókanir í gistingu: Glaðheimar s. 898 1832 og Gistiheimilið Blönduból s. 892 3455. Sértilboð verður á gistingu í tilefni uppskeruhátíðarinnar.

Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi tekur við skráningum og veitir upplýsingar  á heimasíðunni www.nordurland.is eða í netfangingu nordurland@nordurland.is , einnig Haukur Suska-Garðarsson starfsmaður SSNV Atvinnuþróunar í síma 455 4300 eða haukur@ssnv.is . Helst þarf að skrá þátttöku fyrir 2. nóvember.

Hátíðin í fyrra heppnaðist mjög vel og verður þessi ekki síðri.  Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að taka þátt. Mætum hress í Húnvatnssýsluna og njótum skemmtunar og fróðleiks með öðrum ferðaþjónustuaðilum á Norðurlandi.