Úrslit í samkeppninni ,,Reyklaus bekkur

8. bekkur Höfðaskóla á Skagaströnd vann fyrstu verðlaun í evrópusamkeppni meðal reyklausra 7. og 8. bekkja, hlutu þau að launum Danmerkurferð fyrir bekkinn.

Þetta er áttunda árið sem Lýðheilsustöð tekur þátt í þessu evrópuverkefni.

Í ár voru 320 bekkir skráðir til leiks. Á skólaárinu voru dregnir út vinningar og það sem bekkirnir þurftu að gera til að vera með í útdrættinum var að staðfesta reykleysi sitt. Vinningar voru bakpokar og geisladiskar. Allir þátttakendur fengu senda litla gjöf sem í ár var pennaveski.

Til að eiga möguleika á að vinna til fyrstu verðlauna þurftu bekkirnir að senda inn áhugavert efni tengt tóbaksvörnum. Nánari útfærsla var ekki tilgreind til að þrengja ekki hugmyndir að verkefnum. Í ár, eins og áður, bárust mjög mörg vel unnin verkefni og var þriggja manna dómnefnd vandi á höndum að velja sigurvegara. Alls bárust 90 lokaverkefni og voru mörg frábærlega unnin, bæði hvað varðar hugmyndir og útfærslu.

Verkefni 8. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd var mjög viðamikið og er greinilegt að bæði var lagður mikill metnaður og heilmikið starf í alla þætti þess.  Nánar um verðlaunaverkefnið er að finna á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.

http://www.lydheilsustod.is/reyklausbekkur/frettir/nr/2093

Gaman er að geta þess að Höfðaskóli hefur áður hlotið fyrstu verðlaun í þessari samkeppni, en það var fyrir 6 árum síðan.

Heimild Lýðheilsustöð