Úrslit úr Stærðfræðikeppni FNV, MTR og 9. bekkjar


Föstudaginn 2. maí fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í 17 ár. Í fyrsta sæti var Björn Vilhelm Ólafsson, Grunnskóla Fjallabyggðar, í öðru sæti var Páll Halldórsson, Höfðaskóla og í þriðja sæti var Guðjón Alex Flosason, Grunnskólanum á Hólmavík.

Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í mars og tóku 170 nemendur frá Norðurlandi vestra, Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 15 nemendur í úrslitakeppnina.

Af þeim voru tveir frá Árskóla, tveir frá Varmahlíðarskóla, einn frá Grunnskólanum austan Vatna, einn frá Grunnskólanum á Hólmavík, einn frá Húnavallaskóla, tveir frá Höfðaskóla, einn frá Blönduskóla, þrír frá Grunnskóla Fjallabyggðar og tveir frá Dalvíkurskóla.

Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við FNV báru hitann og þungann af samningu og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni. Heimild: FNV