Úthlutun Vaxtarsamnings

Stjórn Vaxtassamnings Norðurlands vestra úthlutaði í síðustu viku 20.4 milljónum króna til nokkurra verkefna sem byggðar eru á umsóknum.Sótt var um tæpar 62 milljónir króna í 27 umsóknum.


Stjórnin ákvað að úthluta samtals kr. 20.400.000, og skiptist sú upphæð í kr. 15.000.000 í peningum og andvirði kr. 5.400.000 í sérfræðiaðstoð sem bakhjarlar VNV leggja fram (sjá vef VNV).

 

Skagafjörður

Árlega sækja tugþúsundir ferðamanna Byggðasafnið í Glaumbæ heim og þar er orðið verulega aðkallandi að skipuleggja, endurbæta og stækka aðstöðuna. Til að svo megi verða þarf að ljúka tilteknum áföngum í fornleifarannsóknum á safnssvæðinu í Glaumbæ. Fornleifadeild Byggðsafns Skagfirðinga og samstarfsaðilar hennar hljóta til þess styrk að upphæð kr. 1.000.000.

 

Félag  ferðaþjónustunnar í Skagafirði, ásamt allnokkrum ferðaþjónustuaðilum í sama héraði, hefur uppi áform um stofnun  ferðamiðstöðvar með það að markmiði að koma á framfæri þeim vörum og  þjónustu sem í boði eru á svæðinu og vera um leið n. k. bókunarmiðstöð. Verkefnið hlýtur styrk að upphæð kr. 1.500.000, auk fyrirheits um sérfræðiaðstoð að andvirði allt að kr. 500.000.

 

Nú er mikil vakning á meðal sláturleyfishafa og margra annarra um að bæta nýtingu og auka verðmæti ýmiss konar hliðarafurða úr slátrun og kjötvinnslu. Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga og MATÍS (sem nýverið opnaði starfsstöð á Sauðárkróki) fá kr. 2.000.000. til rannsókna og vöruþróunar á þessu sviði.

 

Blönduós

Handverkshús á Blönduósi er verkefni, sem fyrirtækin Sigurberg  og Blanda vinna að í sameiningu. Stjórn VNV leggur þessum fyrirtækjum til sérfræðiaðstoð að andvirði allt að kr. 500.000, til frekari þróunar á hugmyndinni.

 

Laxasetur á Blönduósi er verkefni, sem Alva Kristín Ævarsdóttir hefur forgöngu um, og nýtur hún m. a.  fulltingis  Landssambands veiðifélaga og Blönduóssbæjar. Verkefnið hlýtur kr.  500.000 í peningum og kr. 400.000 á formi sérfræðiaðstoðar.

 

Húnaþing vestra

Hýruspor er vinnuheiti verkefnis, sem unnið hefur verið að um allnokkurt skeið. Markmiðið er að efla samstöðu og samvinnu þeirra sem búa og starfa á Norðurlandi vestra og byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á íslenska hestinum. Ætlunin er að stofna formleg samtök sem skulu starfa í anda svokallaðrar „samstarfskeppni“ og er gert ráð fyrir kynningar- og stofnfundum í upphafi ársins 2009. Aðild verður opin öllum þeim, sem falla undir áðurnefnda skilgreiningu og eru tilbúnir að starfa undir þessum formerkjum. Meðal forgönguaðila eru Krossaneshestar, Sveitasetrið á Gauksmýri, Íslenskar hestasýningar og Sögusetur íslenska hestsins, auk Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Verkefnið hlýtur styrk að upphæð kr. 2.000.000, auk allt að kr. 1.000.000 á formi sérfræðiaðstoðar.

 

Skagaströnd

Á Skagaströnd hefur um árabil verið unnið að vöruþróun á sviði bragð- og íblöndunarefna. Meðal annars er þar komin á nokkurn rekspöl þróun á bragðkjörnum byggðum á þangi. Fyrirtækin H-59 og MarinAgra hljóta styrk að upphæð kr. 2.500.000 til frekari þróunar og áætlanagerðar.

 

Möguleikar til kræklingaeldis í Húnaflóa eru til skoðunar hjá áhugasömum hópi einstaklinga og fyrirtækja á Skagaströnd. Fyrir þessum hópi fer fiskeldisfræðingurinn Jón Örn  Stefánsson. VNV leggur fram kr. 1.000.000 til að afla nauðsynlegra gagna til þess að leggja mat á  hvort kræklingarækt getur verið fýsilegur kostur til atvinnuuppbyggingar við Húnaflóa.  Til viðbótar getur komið sérfræðiaðstoð frá bakhjörlum VNV, að andvirði allt að kr. 1.500.000.

 

Fyrir allt svæðið

Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi vinnur að kynningarmyndbandi (DVD) um Norðurland  allt. VNV leggur verkefninu til kr. 500.000.


Hveravellir  eru áningarstaður á fjölfarinni leið og nokkurs konar hlið að Norðurlandi vestra, ef komið er sunnan Kjöl. Undanfarin sumur hafa á milli 40 og 50 þúsund manns lagt leið sína á Hveravelli yfir sumarið  og þar bráðliggur orðið á að taka til hendinni, bæði með tilliti til bættrar aðstöðu og þjónustu, sem og  til verndar  hinni stórbrotnu náttúru og sögulegra minja á staðnum. Stjórn VNV hefur ákveðið að leggja Hveravallafélaginu og samstarfsaðilum þess til framlag að upphæð kr. 1.500.000 í peningum, og sérfræðiaðstoð fyrir allt að kr. 1.000.000.

 

Wild North er fjölþjóðlegt verkefni og eru helstu markmið þess uppbygging sjálfbærrar, náttúrutengdrar ferðaþjónustu á Norðurslóðum, og að treysta með því undirstöður greinarinnar, afkomu þeirra sem í henni vinna og notkun auðlindarinnar til langs tíma. Ferðaþjónustuaðilar og vísindamenn leggjast á eitt um að kanna áhrif ferðamennsku á atferli villtra dýra, með það fyrir augum að ferðamennskan hafi sem minnst áhrif á atferli dýranna og þannig á lífríkið allt. Þátttakendur af Norðurlandi vestra eru m. a. Náttúrustofa Norðurlands vestra, Æðarvarp ehf. á Illugastöðum  og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, auk Selaseturs Íslands sem er leiðandi í verkefninu. Meðal annarra íslenskra þátttakenda má nefna Melrakkasetur á Súðavík, Fræðasetur Háskóla Íslands á Húsavík og ferðaþjónustufyrirtækið Norðursigling í sama bæ. Auk þess koma grænlenskir, færeyskir, norskir og skoskir þátttakendur að verkefninu, sem lesa má nánar um á vefnum http://www.thewildnorth.org/ . VNV leggur verkefninu til kr.2.500.000 í peningum, auk sérfræðiaðstoðar allt að andvirði kr. 500.000.