Veðrið á Skagaströnd í júní

Meðalhitinn á Skagaströnd í júní var 5,9 gráður en á sama tíma var 9,2 gráðu meðalhiti í Reykjavík og 6,2 gráður á Akureyri. Skýringin er eflaust sú að köld norðan- og norðaustanáttin á sér auðveldar uppdráttar á Skagströnd en á hinum tveimur stöðunum. Raunar var norðaustanáttin ráðandi í mánuðinum og því létu bæði vor og sumar á sér standa - í bili. Engu að síður er júní hlýjasti mánuðurinn ársins hingað til en litlu munar á honum og maí.
 
Hitafar
Sé litið á meðalhita hvers sólarhrings í maí var kaldast frá 7. til 9. júní fór þá hitinn niður í 4,7 gráður, síðan upp í 4,1 og aftur niður í 3,1. Eftir það hlýnaði og fór hitinn ekki aftur niður fyrir 4,6 gráður í mánuðinum. 

Meðalhitinn seguir þó ekki allt. Um nóttina þann 7. júní var ansans ári kalt. Fór þá hitinn kl. 3:20  niður fyurir frostamark og rokkaði þar allt niður í -0,8 gráður á næsta klukkutímanum en síðan hefur hitatigið haldið sig réttu megin við núllið.

Vindgangur
Meðalvindhraði í júní var 6,4 metrar á sekúndu (m/s) en hviðurnar voru 9,7 m/s. Þetta er í raun afar svipað og í maí og auðvitað miklu betra en í öllum liðnum mánuðum ársins Þó var lygnara í nóvember á síðasta ári en þá mældist meðalvindhraðinn 5,7 m/s.

Með sanni má segja að aldrei hafi verið verulega hvasst í júní. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi línuriti. Rauða línan nær þar sárasjaldan upp í tíu metrana og hvíðurnar voru slappar. Í orðsins fyllstu merkinu má fullyrða um vindganginn að ekki sé hægt að gera neitt veður út af honum.

Vindáttir
Kuldinn í júní er auðvitað ekki af mannlegum völdum þó svo mann gruni nú ríkisstjórnina um græsku. Þá má sjá á meðfylgjandi vindrós að vindurinn lá að langmestu leyti í norðri, norðaustri eða austri. Það þýðir að 80% tímans blés’ann úr þessum áttum, samviskulaus og hundleiðinlegur. 

Hver?

Hver, hvað?

Nú hver blés?

Það veit ég ekkert um. Kannski Kári, kannski vindurinn … Mér kemur það ekkert við, ég túlka bara veðurupplýsingar og svona tekur maður til orða.

Þú ert ekki nógu skýr í framsetningu …

Æi, farðu út og leiktu þér  - það er ef hundi er út sigandi.

Hundi, hvað?