Veðrið í júlí á Skagaströnd

Veður var almennt gott í júlí á Skagaströnd rétt eins og hina ellefu mánuði ársins. Meðalhitinn var 10,5 gráður, vindgangur var einungis 4 metrar á sekúndu (m/s) og af uppruna vindsins má það segja að hann var frekar vestlægur en annars sitt lítið af hverju.

Þeir sem flust hafa á Skagaströnd frá höfuðborgarsvæðinu finna mikinn mun á veðurfari á þessum tveimur stöðum. Á þeim síðarnefnda rignir talsvert, stundum mikið, og fylgir úrkomunni iðulega talsverður vindgangur. Slík slagveðursrigning er afar sjaldgæf á Skagaströnd. Gera því heimamenn minna af því að svekkja sig út af veðrinu en ræða þess í stað þjóðþrifamál. Á móti kemur sú staðreynd að norðaustanáttin er leiðinleg á Skagaströnd. Hún er iðulega köld sérstaklega ef hreyfiþörf vindsins er mikil. Fer þá oftast allt fjör úr heimamönnum og þeir loka sig inni og spjalla lítt.

Hitatölurnar
Fyrstu tíu daga júlímánaðar voru lítið eitt svalari en seinni hlutinn. Raunar byrjaði mánuðurinn svo vel að þann 1. júlí var meðalhiti dagsins 10,5 gráður og þar með var línan gefin, meðalhiti hans var nebbnilega 10,5 gráður eins og áður sagði.

Lægst fór meðalhitinn þann miðvikudaginn 6. júlí í 7,1 gráðu, en hæst fór hann í 13,9 gráður miðvikudaginn 27. júlí. Meðalhitinn segir nú aðeins einfalda sögu. Sú flóknari fjallar um hitann án meðaltalsins. Það er hins vegar löng saga en hér verður aðeins tíundaður lægsti og hæsti hiti. 

Þó furðulegt megi teljast fór hitinn lægst í 3,5 gráðu sunnudaginn 10. júlí kl. 05:10. Ansi kalt var alla þessa nótt og hjakkaði hitinn þarna í kringum fjórar gráðurnar. Merkilegt er þó að þetta er sú dagsetning sem áður var nefnd og upp frá því tók að hlýna á Skagaströnd. Að vísu féll hitinn allhressilega viku síðar, þann 17. júli, og mældist þá 3,6 gráður um 01:40 en tók þó umsvifalaust að stíga á ný.

Sannarlega var oft napurt fyrstu tíu daga mánaðarins eins og áður sagði, en hins vegar voru þar margir fínir dagar í júlí. Hæst fór meðalhitinn í 18,2 gráður laugardaginn 23. júlí kl. 17:50. Sá dagur var ansans ári hlýr og sérstaklega var kvöldið gott, var lengi í 16 gráðum og þar fyrir ofan.

Vindgangurinn
Fátt er að segja um vindinn á Skagaströnd. Meðalvindhraðinn var 4,0 m/s og það þýðir næstum því logn. Best náði hann sér upp fimmtudaginn 28. júlí, 7,8 m/s. Ótal sinnum mældist engin hreyfing á vindi og oft aðeins einn m/s. Hvassast mældist síðla dags föstudaginn 15. og sunnudaginn 31, 14 m/s. Þetta var nú bara smávægilegur viðrekstur því hann lægði aftur.

Vindátt
Upprunin vindisins í júlí er fjölbreyttari en fyrri mánuði. Hin ömurlega norðaustanátt lét lítt á sér kræla, mældist aðeins í 5,5% tilvika. Ráðandi áttir voru norðlægar og suðlægar. Skagstrendingar hefðu getað þegið meira af austanátt eða suðaustan. Þær eru ansi auðugar og vítamínríkar af sól og hita.

Vænta má þess að veður verði áfram á Skagaströnd um ókomin ár þó hér verði ekki frekar um það fjallað.