Veitingahúsakvöld á Borginni sl. fimmtudag

 

Nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla héldu veitingahúsakvöld á Borginni sem fjáröflun fimmtudagskvöldið 29. janúar s.l.  Verkefnið var unnið í samstarfi við Þórarinn Ingvarsson (Tóta) vert á Borginni og Markús Inga Guðnason kokk á Borginni. Hugmyndin kviknaði í kolli Tóta, en hann hafði unnið svipað verkefni á Mývatni. Erum við honum afar þakklát fyrir að leyfa okkur að framkvæma þessa hugmynd.

Til að byrja með þurfti að skipuleggja þetta verkefni, haldinn var fundur með Tóta þar sem matseðill var útbúinn og verkefnum skipti milli nemenda. Ákveðið var að láta veitingastaðinn heita Borgin besta.  Helmingur hópsins ætlaði að sjá um eldhúsvinnuna og helmingur um salinn. Matseðillinn var þannig uppbyggður að í boði voru 2 forréttir, 2 aðalréttir og 2 eftirréttir. Útbúin var auglýsing sem dreift var á Skagaströnd og í Skagabyggð.  Áhugasamir þurftu síðan að panta veitingar fyrirfram.  Daginn fyrir veitingahúsakvöldið var farið í Borgina, maturinn undirbúinn, salurinn teiknaður upp og raðað í sæti og hnífapör og glös pússuð. 

Á stóra deginum mættu nemendur kl. 14.30 og hófust handa við sín verkefni. Fólk fór að streyma að uppúr 18.30 og kl. 19. 00 byrjaði samkoman.  Nemendur stormuðu fram og sungu kynningu á matseðlinum við mikinn fögnuð gesta:


Humarsúpa og grafin gæs í forrétt.
Færir gleðibros á mey og svein.
Lambið litla kætir alltaf einhvern
líkt og kjúklingur á grænni grein.
Eftirrétturinn
eplakaka er,
eða pannacotta sæt.
Setjumst hér að borðum
kætumst svo með orðum,
um eilífð vakir fögur minningin

(Lag: Hafið bláa hafið, texti: Trostan Agnarsson)

Því næst var þriggja rétta máltíðin borin fram með tilþrifum og stóðu kokkar og þjónar sig með stökustu prýði.  Fólk var almennt ánægt með veitingarnar og þjónustuna en alls komu 75 gestir til okkar og var það fram úr okkar björtustu vonum. Við erum gestum okkar afar þakklát fyrir komuna.  Öll innkoma kvöldsins rennur óskipt í ferðasjóð skólafélagsins Ránar, en Þórarinn gaf okkur allt hráefni, vinnuframlag sitt og Markúsar og leyfði okkur að stjórna Borginni eitt kvöld. Takk kærlega fyrir okkur.

 

Fyrir hönd nemenda, Páll 10. bekk, Elín Ósk og Valgerður Guðný 9. bekk.