Vel heppnaður hátíðisdagur Fræðaseturs á Skagaströnd

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók formlega til starfa á föstudaginn með opinni athöfn á loftinu í Kaupfélagshúsinu. 

Fjöldi manns kom á opnunina, sem Lárus Ægir Guðmundsson stjórnaði af röggsemi. 

Á samkomuna voru mættir ýmsir aðilar sem Fræðasetrið hefur hug á samstarfi við og má þar nefna fólk frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Tónlistarsafni Íslands, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvari  ehf. á Hvammstanga. Sömuleiðis mættu til leiks stjórnarmenn Fræðasetursins ásamt fólki frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ýmsum öðrum. Það er mikill stuðningur við starf og framtíðarsýn hins nýja Fræðaseturs að allt þetta fólk skuli hafa komið til að fagna þessum merka degi.
 
Ræðumenn sem tóku til máls í tilefni opnunar Fræðasetursins voru Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Lára Magnúsardóttir forstöðumaður setursins. 

Fram kom í máli Láru að Elín Hannesdóttir hefur boðið Fræðasetrinu að þiggja að gjöf bókasafn eiginmanns hennar, Halldórs Bjarnasonar sagnfræðings sem lést í haust. Safnið telur um 3000 titla og vonar Lára að hægt verði að gera safninu sóma á Skagaströnd, enda myndi það bæta stöðu Fræðasetursins stórkostlega, þar sem vinnutæki sagnfræðinga eru bækur. 

Hún kynnti að lokum Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur íslenskufræðing til leiks, en hún hefur verið ráðin verkefnisstjóri hjá Fræðasetrinu næstu þrjá mánuðina til að sinna sérstökum málum. 

Síðan færðu Anna Agnarsdóttir, prófessor og forseti Sögufélags, og Eggert Þór Bernharðsson, deildarforseti sagnfræði- og heimspekideildar, setrinu bókagjafir frá Sögufélagi og Sagnfræðistofnun HÍ.
 
Gestum var síðan sýnd Nes listamiðstöðin og Árnes og heimamenn dönsuðu línudans við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir móttöku í Bjarmanesi var gengið til snæðings í Kántrýbæ, þar sem þriggja rétta, vel útilátin og afar bragðgóð máltíð var til sölu á góðu verði.
 
Á laugardeginum fór  fyrsta málþing Fræðasetursins fram en þar var fjallað um samskipti Íslands við erlend ríki og spurt hvernig sagnfræðin getur lagt sitt af mörkum við að taka afstöðu til spurninga eins og þeirrar hvort það sé Íslandi í hag að ganga í Evrópusambandið.  

Tilefni þingsins, sem sveitarfélagið Skagaströnd skipulagði ásamt Fræðasetrinu með aðstoð frá SSNV, var meðal annars að í ár eru liðin 150 ár frá því Valtýr Guðmundsson fæddist á Skagaströnd. 

Málþingið var opið öllum og það var nánast fullt hús í hinum fallegu húsakynnum í Bjarmanesi. Í lokin stýrði Ármann Jakobsson lektor í íslenskum bókmenntum umræðum. 

Loks var ekið í rútu norður eftir Skaganum undir styrkri og skemmtilegri leiðsögn Magnúsar B. Jónssonar sveitarstjóra. Veðrið lék við gesti og heimamenn og þegar lagt var úr hlaði kl. 16:30 virtust gestir jafnánægðir með allan framgang mála og skipuleggjendur.