Verðlaun í ljósmyndasamkeppni afhent

Verðlaunin fyrir ljósmyndasamkeppnina sem efnt var til vegna opnunar gönguleið á Spákonufellshöfða voru afhent í litlu kaffiboði í gær í Café Bjarmanesi. Ólafur Bernódusson hlaut fyrstu verðlaun og í öðru sæti var Marian Bijlenga, hollenskur listmaður sem dvelur á Skagaströnd á vegum Nes-listamiðstöðvar. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri afhenti þeim verðlaunin. Í máli hans kom meðal annars fram að tæplega fimmtíu myndir hafi borist í keppnina. Flestar komu frá Skagstrendingum en líka frá erlendum listamönnum.

Dómnefndinni hafði verið nokkur vandi á höndum en mynd Ólafs af lúpínu í kvöldsól þótti fanga vel kvöldstemmingu við sólsetur. Rauðir geislar sólarinnar mörkuðu fallega útlínur plöntunnar. Mynd Marian af geldingahnappi þótti nokkuð sérstök. Hún er tekin í fjöru og umhverfið allt er mjög harðneskjulegt og erfitt fyrir plöntur.

Fyrstu verðlaun var lítil stafræn myndavél af Pentax gerð og önnur verðlaunin var bókin Fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson. Að vísu er bókin á íslensku en Marian kvaðst án efa geta notið myndanna og ef til vill yrði bókin til þess að hún lærði eitthvað í íslensku.