Verður 16 gráðu hiti á laugardaginn?

Óvanaleg veðursæld hefur verið á Skagaströnd undanfarnar vikur miðað við árstíma. Sumum kann að þykja það undur mikil því frá lokum síðustu verslunamannahelgar hafa fjölmiðlar verið ósparir á að minna landsmenn á að haustið sé að koma. Þeir hafa rætt um haustlægðir og hryllt sig uppúr og niður við tilhugsunina um föl í fjöll. Það kann vel að vera að haustið sé komið á suðvesturhorni landsins en hér á Skagaströnd og raunar á öllu Norðurlandi vestra kvartar enginn - hér er enn hásumar.

Suðaustanáttin hefur verið ríkjandi og það þekkja kunnugir að þegar hún andar verða hitar mestir í landshlutanum. Þá verður eiginlega til hnúkaþeyr, hlýr og þurr vindur en nokkuð hvass. 

Staðhættir á Skagströnd eru þó þannig að fjöllin veita nokkuð skjól og því verður hér lygnara en víða annars staðar. Þegar sólin skín við slíkar aðstæður má reikna með því að hitastigið hækki verulega. Sem kunnugt er segja opinberar hitatölur oft ekki mikið um raunverulegan hita. Á veðurathugunarstöðinni Blönduós, sem er á stór Skagstrandarsvæðinu, hefur mestur hiti verið í kringum 13° en á heimilismælum og víðar um Skagaströnd reiknast mönnum til að hitinn hafi verið minnst þremur til fjórum gráðum hærri.

Þeir sem fylgjast best með grassprettu að hausti eru fyrst og fremst golfarar. Með nef sitt og glyrnur ofan í snöggsleggnum flötum golfvallar Skagastrandar hafa þeir fundið út að grasið vex meira en góðu hófi gegnir. Um síðstu helgi voru því sláttuvélar teknar fram og nokkrar flatir slegnar og raunar einnig brautir. Rúllar nú boltinn „eðlilega“ og golfarar hafa tekið gleði sína á ný. Raunar hafa þeir lítið getað kvartað því nú hafa þeir fengið rúma fimm mánuði til að iðka leik sinn og hefur golfvertíðin sjaldan verið veðurbetri.

Þó svo að nú leggist vindar í norðanátt næstu tvo daga má búast við áframhaldandi hlýindum. Aftur mun suðrið sæla anda vindum þýðum. Veðurstofa Íslands spáir sunnan- og suðaustanáttum frá og með fimmtudegi. Á laugardaginn er til dæmist spáð 16 gráðu hita og þá er víst að fleiri kætast en golfarar.

Og hvaða tal var þetta um haustlægðir ...