Verkefnastyrkir til menningarstarfs

  Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli samnings menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV frá 1. maí 2007. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra.

 

Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2009, með umsóknarfrestum til og með 12. mars og 15. september.

 

Menningarráð skilgreinir verkefni í eftirtalda flokka:

a)      Stærra samstarfsverkefni. Stærra samstarfsverkefni þarf að fela í sér samstarf aðila úr þeim þremur sýslum sem eru á starfssvæði ráðsins. Heimilt er að veita allt að 3 milljónum króna til slíks verkefnis en styrkur getur þó aldrei verið hærri en 70% af heildarkostnaði verkefnisins.

b)      Minni samstarfsverkefni, svæðisbundin verkefni og verkefni einyrkja. Heimilt er að veita allt að 1,5 milljónum króna til hvers verkefnis en styrkur getur þó aldrei verið hærri en 50% af heildarkostnaði verkefnisins.

 

Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

·         Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista.

·         Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.

·         Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu.

·         Aukin þátttaka ungs fólks og eldri borgara í menningarstarfi.

·         Verkefni sem hafa unnið sér sess og viðurkenningu og eru vaxandi

 

Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag.

 

Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur 2009, menningarsamninginn og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð.

 

Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur.

 

Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2009 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545  Skagaströnd, eigi síðar en 12. mars 2009. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.

 

Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is