Viðburðaríkur laugardagur í Nes-listamiðstöð

 

 

Óhætt er að segja að laugardagurinn verði viðburðaríkur í Nes- listamiðstöðinn á Skagaströnd. Þá verður opið hús hjá listamönnunum sem þar vinna um þessar mundir. Boðið verður upp á ljóðalestur, frásagnir, myndlistarsýningu og fyrirlestur. 


Húsið verður opnað kl. 15 á laugardaginn.

  • Listamennirnir Timo Rytkönen frá Finnlandi, Kate Dambach frá Bandaríkjunum og Ben Taffinder frá Bretlandi munu segja frá verkum sínum og Carola Luther rithöfundur frá Suður Afríku les nokkur ljóð.
  • Hrafnhildur Sigurðardóttir mun opna myndlistasýningu sína í Frystinum, sýningarsalnum, en Hrafnhildur er verkefnisstjóri listamiðstöðvarinnar.
  • Rithöfundurinn Sverrir Sveinn Sigurðarson verður með fyrirlestur kl. 17 í Kántríbæ. í honum mun hann fjalla um Þorfinn Karlsefni, Guðríði og skrælingja. Sverrir notar fjölda mynda við flutning sinn, sýnir ferðir norrænna mann til Grænlands og til Vesturheims. Hann hefur safnað gríðarlegum upplýsingum um „skrælingja“ sem bjuggu á þeim slóðum sem talið er að Íslendingar hafi heimsótt. Óhætt er að segja að Sverrir búi yfir einna mestri þekkingu á ferðum Íslendinga á þessum slóðum. Hluta fyrirlestursins hefur hann flutt í Höfðaskóla og einnig heimsótti hann eldri borgara í Sæborg.

 

Að sjálfsögðu eru allir boðnir velkomnir í Nes-listamiðstöðina en sérstaklega eru Húnvetningar og Skagfirðingar hvattir til að leggja nú land undir fót og sjá hvað er að gerast á Skagaströnd.