Vígsla listaverksins Sólúrs

 

Vígsla listaverksins Sólúrs

Í dag laugardaginn 20. september kl 14.00 verður listaverkið Sólúr sem reist hefur verið á torgi í miðju Skagastrandar formlega vígt.

Listaverkið er eftir hinn þjóðkunna listamann Magnús Pálsson og er tilvísun í samspil tímans og sólargangsins þar sem gömul eyktarmörk eru í heiðri höfð. Verkið samanstendur af fjórum stuðlabergsstöplum sem eru sniðnir þannig til að rauf á milli þeirra getur varpað geislum sólar niður á eyktarmörk. Geisli sólar í hásuðri fellur t.d. á „hádegi“ sem er markað í stétt í kringum verkið. Á stuðlabergsdrangana er rist stórum stöfum: „Tíminn er eins og vatnið og vatnið er djúpt og kalt“.

Listskreytingasjóður ríkisins leggur verkið til og mun afhenda það formlega en verkið verður vígt með afhjúpun á skildi með nafni verksins og listamannsins.

Magnús Pálsson hefur verið einn helsti þátttakandi í nýrri skilgreiningu á hugtakinu list í íslenskri myndlist, sem hugmyndasmiður og lærimeistari. Hugmyndaleg listsköpun hans hefur alltaf verið afar persónuleg. Hann hættir aldrei að koma á óvart með verkum sínum.

Magnús fór að láta að sér kveða í íslensku listalífi á árunum milli 1960 og 1970 eftir að hafa verið í listaskólum í Reykjavík og Austurríki og lært að búa til leikmyndir í Englandi. Á þessum árum urðu miklar breytingar í íslensku listalífi. Hann og aðrir listamenn sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið litu öðrum augum á myndlistina en áður hafði verið gert og fóru allt aðrar leiðir. Þeir voru kallaðir nýlistamenn. Magnús Pálsson er einn af þeim listamönnum sem hefur notið meiri og meiri viðurkenningar, bæði innan lands og utan eftir því sem hann hefur lagt listinni til fleiri verk.