Vígsla sparkvallar.

 

Nýr sparkvöllur var vígður á skólalóðinni á Skagaströnd fimmtudaginn 8. september. Eyjólfur Sverrisson fótboltakappi mætti sem fulltrúi KSÍ og hann ásamt Adolf H. Berndsen oddvita klipptu á borða sem táknrænt merki um að völlurinn væri formlega tekin í notkun. Við þetta tækifæri afhenti Eyjólfur bæði skólanum og ungmennafélaginu Fram fótbolta að gjöf til notkunar á sparkvellinum. Eftir formlegar athafnir var vígsluleikur þar sem Calle Jakobsen íþróttakennari stjórnaði yngstu nemendum skólans í líflegum sparkvallarleik. Fjöldi bæjarbúa kom og tók þátt í og fylgdist með vígslunni og einnig voru fulltrúar styrktaraðila viðstaddir en átakið er styrkt af KSÍ, Kb-Banka, VÍS og Eimskip. Hreppsnefnd Höfðahrepps bauð öllum viðstöddum upp á grillaðar pylsur og sáu hreppsnefndarmenn um grillun og afgreiðslu þeirra. Vígslan fór fram í blíðskaparveðri sem var skemmtileg tilbreyting frá ríkjandi köldum, votum og vindasömum síðsumardögum.

Grunneining sparkvallarins er gerfigras sem fyllt er með svokölluðum gúmmísandi og gefur undirlaginu mýkt. Utan um völlinn er timburveggur 120 sm hár nema til endana þar sem veggir eru hafðir hærri við mörkin. Undir vellinum er síðan snjóbræðslukerfi sem ætlað er að tryggja notkun hans allt árið. KSÍ og styrktaraðilar lögðu til gerfigrasið og útlagningu þess en sveitarfélagið stendur straum af öðrum kostnaði. Umsjón með byggingu vallarins var á höndum Ágústs Þórs Bragasonar umhverfisstjóra sveitarfélagsins og sáu starfsmenn sveitarfélagsins um hluta verksins en um byggingu undirstöðu og tréverks sá Trésmiðja Helga Gunnarssonar.

Kostnaður við byggingu vallarins liggur ekki endanlega fyrir en reiknað er með að hann verði á bilinu 8-10 milljónir króna.