Vigtarskúrinn léttari

„Betri helmingurinn varð eftir,“ sagði Rúnar Kristjánsson, tvíræður á svip, þar sem hann stóð ásamt fleirum og horfði á þann helming gamla vigtarskúrsins við Skagastrandarhöfn sem eftir stendur. Inni í honum sinnir Þórey Jónsdóttir, hafnarvörður áfram störfum sínum, en vörubíll undir stjórn eignmans hennar, Sigurbjörns Björgvinssonar, flutti hinn á burt. Upphafsorðin hefðu allt eins getað verið botninn í góðri vísu eftir Skagastrandarskáldið.

Gamli vigtunarskúrinn má muna sína daga fegurri og hans tími er liðinn. Nú er ætlunin að flytja nýtt hús á sama stað.

Á vegum Trésmíðaverkstæðis Helga Gunnarssonar er verið að byggja nýtt vigtunarhús, stærra rúmbetra og í alla staði þægilegra. Gert er ráð fyrir að það verði komið í notkun í byrjun nóvember. Þangað til segist Þórey hafnarvörður verða að þola dvölina í fimmtíu prósentunum. Segist láta sig dreyma um leðursófasett, flatskjá, heitan pott og annað sem léttir vinnuna ...