Vinadagur í Höfðaskóla 8. nóvember 2012

Þann 8. nóvember er í annað sinn, að frumkvæði verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti, haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti hér á landi.

Í tengslum við verkefnið ætlum við að hafa Vinadag í Höfðaskóla þar sem hefðbundin kennsla verður lögð til hliðar fram að hádegi og unnið að ýmsum verkefnum tengd vináttu. Kl. 11:15 ætlum við síðan í skrúðgöngu um bæinn og stoppa við fyrirtæki og jafnvel syngja. Lögreglan stefnir að því að vera í broddi fylkingar. Við hvetjum foreldra, afa ömmur, alla bæjarbúa og nærsveitarmenn til að koma og taka þátt í skrúðgöngunni með okkur og sýna samstöðu gegn einelti.
Kl. 13:00 mun skólabjallan hringja stanslaust í 7 mínútur og hvetjum við aðra til að hringja bjöllum, flautum, klukkum á sama tíma

Þá er þjóðin hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu og skólar, samtök og vinnustaðir eru hvattir til að beina sjónum að jákvæðum samskiptum, jákvæðum skólabrag og starfsanda.

Er fólk um allan heim hvatt til að sýna samstöðu í baráttunni gegn einelti og kynbundnu ofbeldi með því að hringja alls konar bjöllum kl. 13.00 að staðartíma hvers lands þann 8. nóvember samfellt í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar.

Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á heimasíðunni www.gegneinelti.is
Mörg verkefni sem tengjast baráttudeginum eiga sér langan aðdraganda, eru ólík en eiga það öll sammerkt að vera liður í að efla jákvæð samskipti í samfélaginu.

Markmiðið með baráttudeginum er því ekki það að efna til sérstakrar flugeldasýningar á þessum tiltekna degi, dagurinn er fremur tilefni til þess að gefa gaum og benda á margt það sem vel er gert í þessum efnum.

Baráttudagurinn er því ekki síður dagur til þessa að líta yfir farin veg, þétta raðirnar, ákveða næstu skerf og bretta upp ermarnar hver í sínum mikilvæga ranni.