Vinur Skagastrandar fær barnabókaverðlaunin

Þorgrímur Þráinsson hlaut í gær barnabókarverðlaunin fyrir bókina Ertu guð afi? Þorgrímur er vel þekktur hér á Skagaströnd og hefur sýnt staðnum og íbúum hans margvíslegan heiður. Nokkrum sinnum hefur hann dvalið í Nesi listamiðstöð og unnið að ritstörfum. 

Fyrir tveimur árum gaf hann eitt eintak af bókinni Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama inn á hvert heimili á Skagaströnd. Ekki er dregið í efa að hamingjan hefur síðan aukist á Skagaströnd, ekki aðeins meðal kvenna heldur líka karla, og á bókin efalaust þátt í því. 

Þorgrímur hefur margsinnis í fjölmiðlum sagt frá dvöl sinni á Skagaströnd. Í grein sinni á vef World Class í september 2008 segir hann meðal annars.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja á Skagaströnd í júní, þar af í þrjár vikur með fjóra krakka. Hvílík lífsgæði. Fámennt samfélag, enginn asi, allir kurteisir, heimilislegt andrúmsloft, kaffihús, íþróttaviðburðir, sundlaug, golfvöllur, listamiðstöð og svo mætti lengi telja, í þessu rúmlega 500 manna samfélagi. Allt þorpið var leikvangur barnanna og það gerist af sjálfu sér að allir eru einhvern veginn að passa alla

Eftirfarandi er frétt Morgunblaðsins frá því í dag 29. september,  um barnabókaverðlaunin og Þorgrím Þráinsson. Fréttin er birt með góðfúslegu leyfi Barkar Gunnarssonar, blaðamanns Morgunblaðsins:

Í gær vann Þorgrímur Þráinsson Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Ertu guð afi? Þorgrímur er meðal þekktari rithöfunda þjóðarinnar og hafa barna- og unglingabækur hans notið fádæma vinsælda í tvo áratugi. 

Þorgrímur hóf rithöfundarferilinn með stæl og varð fyrsta bókin hans, Með fiðring í tánum, að metsölubók árið 1989. Tuttugu og einu ári síðar hefur Þorgrímur gefið út á þriðja tug bóka. Þorgrímur vann þessi sömu verðlaun árið 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu. Auk Íslensku barnabókaverðlaunanna hefur Þorgrímur hlotið Barna- og unglingabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkurborgar og Bókaverðlaun barnanna fyrir síðustu bók sína Núll, núll 9.

Bókin speglar lífsviðhorf hans

Þorgrímur segir að þessi nýjasta bók, Ertu guð afi?, fjalli um leyndarmál lífsins. Hún er um 77 ára gamlan mann sem er kallaður afi Afríka og samskipti hans við sonardóttur sína, Emmu Soffíu (11 ára) en þau eru að hittast í fyrsta skipti. Hún veit að hann býr yfir risa leyndarmáli sem hann segir hana ekki vera tilbúna til að heyra strax.

„Sagan á sér stað við Landakotstúnið,“ segir Þorgrímur. „Hún fjallar um samskipti þeirra tveggja. Afi Afríka er að kenna barnabarninu sínu sitthvað um lífið, þetta eru samskipti gömlu kynslóðarinnar við þessa nýjustu, í sinni fegurstu mynd.“
Þorgrímur segist hafa séð auglýsinguna um verðlaunin og flett þá upp í minnisbókinni sinni og fundið þetta efni. Það tók hann ekki langan tíma að átta sig á því að hann hafði í raun verið að skrifa þessa sögu alla ævina. Þar af leiðandi gengu skrifin mjög vel og hann kláraði hana á skömmum tíma. „Þessi bók endurspeglar viðhorf mín til lífsins,“ segir hann.

Næsta haust kemur framhald bókarinnar Núll núll 9 út hjá Forlaginu en hún nefnist Þokan. En þessi verðlaunabók kemur sjálfkrafa út hjá bókaforlaginu Vaka-Helgafell.

Verðlaun þegar nafnleynd er

Það er alkunna að þrátt fyrir að vera margverðlaunaður höfundur og átt metsölubækur á sölulistanum hefur Þorgrímur Þráinsson aðeins einu sinni fengið úthlutað úr Launasjóði rithöfunda. „Já, það er rétt,“ segir Þorgrímur. „Það er alltaf gaman að fá verðlaun fyrir verk sín en ég hefði örugglega ekki átt möguleika á að vinna þau nema vegna þess að keppnin var haldin í nafnleynd. Ég hef fimm sinnum sent verk í svona samkeppni þar sem er nafnleynd og fjórum sinnum unnið.“

Aðspurður hvort hann geti lifað af skrifunum einum saman þegar launasjóðurinn horfir alltaf framhjá honum segir hann það af og frá. „Skriftirnar eru ástríða sem maður sinnir en ég fæ tekjurnar aðallega frá hliðarverkefnum eins og fyrir Íþrótta- og ólympíusambandið, ég skrifa skýrslur fyrir breskt fyrirtæki um leiki sem fara fram hérlendis og var fenginn í að skrifa sögu Vals, það er á því sem ég lifi. Það þótt ég sé iðulega á topp tíu sölulista bóka, en það er bara ekki mikið úr þessu að fá þegar launasjóðurinn sér bara um sína.“

Sagan 
» Íslensku barnabókaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986. 
» Margir af okkar dáðustu barnabókahöfundum hafa unnið til þeirra. Af þeim má nefna Iðunni Steinsdóttur, Brynhildi Þórarinsdóttur og Friðrik Erlingsson. 
» Þátttakan í ár var afar góð og bárust á fjórða tug handrita í keppnina. Verðlaunaféð nemur 500.000 krónum.
---

Bækur Þorgríms Þráinssonar eru þessar samkvæmt bókmenntavefnum 100.bokmenntir.is:

Barnabækur
 • Amó Amas
 • Bak við bláu augun
 • Hjálp, Keikó! Hjálp!
 • Hlæjandi refur: sagan um Úlfhildi og indíánastrákinn sem flúði til Íslands
 • Kvöldsögur
 • Kýrin sem hvarf
 • Lalli ljósastaur
 • Litla skrímslið
 • Margt býr í myrkrinu
 • Með fiðring í tánum
 • Mitt er þitt
 • Nóttin lifnar við
 • Sex augnablik
 • Spor í myrkri
 • Svalasta 7an
 • Tár, bros og takkaskór
 • Undir 4 augu
Kennslubækur
 • Fjögur í rusli
 • Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama
Skáldsögur
 • Allt hold er hey
Ævisögur
 • Meistari Jón: predikari af Guðs náð
Hljóðbækur
 • Margt býr í myrkrinu