Vísindaveisla á Skagaströnd fyrir alla

Vísindaveisla fyrir alla aldurshópa verður á Skagaströnd dagana 20. og 21. maí næstkomandi þegar Háskólalestin kemur í heimsókn.

Ferð Háskólalestarinnar vítt og breitt um landið er þáttur í hátíðarhöldum Háskóla Íslands vegna aldarafmælis skólans. 

Föstudaginn 20.maí sækja nemendur í  5. -10. bekk Höfðaskóla og 8. – 10.bekk grunnskóla Blönduóss valin námskeið úr hinum vinsæla Háskóla unga fólksins. Þar kynnast nemendur  stjörnufræði, latínu, fornaldarsögu,  japönsku, nýsköpunar – og frumkvöðlafræðum, íslensku táknmáli, eðlisfræði og fornleifafræði.

Laugardaginn 21. maí býðst gestum og gangandi á öllum aldri að taka þátt í dagskrá Háskólalestarinnar á Skagaströnd sem fer fram víða á svæðinu. 

Í félagsheimilinu Fellsborg verður m.a. sýning félaga úr Sprengjugenginu landsfræga, eldorgelið mun óma, gestir kynnast sýntilraunum, teiknirólu, syngjandi skál, japanskri menninguog fornleifafræði, svo eitthvað sé nefnt.

Í kaffihúsinu Bjarmanesi verða í boði stutt fræðsluerindi. Þar fræðir Sævar Helgi Bragason gesti um leyndardóma stjörnufræðinnar, Soffía Auður Birgisdóttir flytur erindið „Endurvinnsla bókmenntaarfsins“, Þorvarður Árnason fjallar um samfélagsgildi kórastarfs, Þór Hjaltalín flytur erindi um Ásbirningaríkið og Albína Hulda Þorsteinsdóttir greinir frá leyndardómum fornleifafræðinnar – nota fornleifafræðingar í alvöru tannbursta og teskeiðar við störf sín?

Vísindaveisla Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar um Háskólalestina og Háskóla unga fólksins eru á á www.ung.hi.is.