Vorið er komið og golfvöllurinn opinn

Golfvöllurinn hefur verið opnaður. Um það er vitnað. Hrossagaukurinn hlakkar ofan brauta, lóan stendur móð og másandi á þriðju braut, gæsir hægja sér við grínið á annarri braut, rjúpur spóka sig og korra í jólafötunum og hettumáfar deila. 

Kliður er í lofti enda farfuglarnir nýkomnir. Líklega fer betur á því að kalla þá komfugla á vorin og farfugla á haustin, en það er annað mál. 

Utan girðingar á þriðju braut stendur brúnt hross og horfir á þegar maður nokkur mundar sig líklegan við teiginn. Það færir sig nær þegar hann tíar, reisir makka er hann sveiflar drævernum fagmannlega en hristir svo höfuðið er hann slær í jörð og kúlan skoppar fáeina metra. Lágvær hnegg, greinilega með neikvæðum tón, heyrist um leið og það skokkar að nærstöddum hryssum sem rökræða um vorið, folöld og fugla og grasneyslu.

Já, grasið er óðum að lifna við. Víða er enn frostlyfting á brautum, en smám saman losnar um og vatnið sitrar hægt út í skurði.  Sami maður og hrossið hló að fann samt örlítið fyrir sjóveiki er hann gekk yfir öldótta áttundu braut og kerran valt og úr henni allt …

Vorið er kraftaverk á  Háagerðisvelli. Þá verða breytingar sem gera golfvöllinn að perlu. 

Og allir eru sammála manninum sem sagði: „Golfvöllurinn á Skagaströnd er líklega best geymda leyndarmálið á meðal kylfinga á Íslandi.“ Samt var hann ekki sá er hesturinn hló að.