Vorið kom í morgun

Vorið kom til Skagastrandar í morgun kl. 11:43. Er það þremur klukkustundum síðar en í fyrra en fjórum dögum og átta klukkustundum fyrr en árið þar áður. Skýringin er rakin til háloftavinda og æseif umræðunnar.

Í einkaviðtali við komuna í morgun sagðist vorið ekki ætla að hverfa á braut fyrr en sumarið kæmi enda er það venja sem skapast hefur síðustu áratugum. Hér áður fyrr var þó talsverður ruglingur á brottför vorsins því stundum kom sumarið ekki og haustið lét ekki heldur sjá sig rétt eins og gerðist árið 1882 er veturinn ríkti svo að segja allt árið. Þá dólaði sumarið sér í rólegheitum einhvers staðar suður í höfum og gleymdi sér landsmönnum öllum til mikilla óþæginda.

Í dag er sólskinsdagur mikill á Skagaströnd eins og sjá má á meðfylgjandi gerfihnattarmynd frá veðurskipinu Bravó. Greina má brunahanann sem leikur við hvern sinn fingur og snertir varla jörð. Og grasflötin hefur þegar tekið til við að grænka en það sést því miður ekki sökum útfjólublárra geisla sem takmarka rými fyrir grænu endurkasti frá jurtum. Þannig gerast nú aðstæður oft á vorin.

Hiti er 7 gráður í forsælu og sólarhiti greinilegur í lopti. Og suðrið sæla andar vindum þýðum á 6 m/s og þykir það ekki mikill vindgangur. „Ég bið að heilsa,“ mælti vorið er það breiddi sig út um strönd og fjöll og var ekki til frekari viðræði eftir það.