Yndislegur staður, sögðu Þjóðverjarnir

Þau litu inn í kaffihúsið í Bjarmanesi rétt eins og hundruðir annarra, dvöldu þar kannski ívið lengur og spurðu margs. Daginn eftir komu þau aftur og kölluðu vertinn, hana Steinunni Ósk, til sín.

Þetta er yndislegur staður, sögðu þessir Þjóðverjar og vildu þau gefa Steinunni listaverk úr tré vegna þess að Café Bjarmanes er sá veitingastaður á Íslandi sem þau kunnu best við, var þó úr mörgum góðum að velja.

Með listaverkinu fylgdi bréf með þessum orðum, í lauslegri íslenskri þýðingu:

Kæri listamaður,
Þetta listaverk bjó vinur okkar til en hann býr í Rejensburg í Þýskalandi. Hann kallar það Walle (Veggur/Múr).
Hann lét okkur fá það þegar við sögðum honum frá því að við ætluðum að ferðast um hið yndislega Ísland með vinum okkar.
Listaverkinu er ætlað að hvetja til skilnings milli þjóða heimsins. Það er myndað úr dökkrauðum hjörtum.
Vonandi fellur þér það vel í geð - það er gjöf til þessa fallega veitingahúss þar sem svo gott er að heimsækja. Ef til vill finnur þú stað fyrir það þar sem það getur minnt þig á okkur.
Með kveðju,
Julia Jochwirtt og finir, Gabriel, Kathi og Jörg frá Þýskalandi.