Fréttir

Lokar kl. 12 í dag.

Skrifstofa sveitarfélagsins verður lokuð frá kl. 12 í dag vegna sumarleyfa.

Vantar stuðningsfulltrúa !

Við Höfðaskóla er laus staða stuðningsfulltrúa. Vinnutími er frá 7:30 til 15:30. Nánari upplýsingar um starfið veitir skólastjóri í síma 8624950. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is . Umsóknarfrestur er til og með 26. júlí n.k. Vera Ósk Valgarðsdóttir, skólastjóri.

Tvær nýjar bækur gefnar út á Skagaströnd.

Lárus Ægir Guðmundsson á Skagaströnd hefur kynnt tvær nýjar bækur sem hann hefur tekið saman, skráð og gefið út. Hér er um að ræða bækurnar - Leiklist á Skagaströnd 1895 – 2015 og Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927 – 2013. Kvenfélagið Eining var stofnað 1927 og hefur síðan stuðlað að framförum og þróun sam- félagsins og auðgað það með ýmsum menningarviðburðum og öðru starfi. Félagið stóð fyrir stofnun og rekstri sjúkrasjóðs, tók þátt í byggingu félagsheimilisins Fellsborgar og lagði fjármuni í byggingu Hólaneskirkju ásamt ýmsu öðru markverðu. Gjafir félagsins eru ótrúlega margar og flestar til ýmissa góðgerða- og framfaramála á Skagaströnd og nágrenni. Verðmæti þeirra skiptir mörgum tugum milljóna króna væru þær reiknaðar til núvirðis. Félagið hefur alla tíð ályktað um hugðarefni samtímans og lagt fram uppbyggilegar tillögur og barist fyrir framgangi þeirra. Leikstarfsemi hefur í langan tíma verið töluverð á Skagaströnd og koma þar margir við sögu. Að því er best er vitað var fyrsta leikritið sett upp í kauptúninu árið 1895. Leikfélag Höfðakaupstaðar var stofnað 1945 og Leikklúbbur Skagastrandar 1975. Fjöldi leikrita lifnuðu við á fjölum þeirra sex húsa sem gegnt hafa hlutverki leikhúss. Sögurnar úr starfinu eru margar og einnig er til fjöldi skemmtilegra mynda. Hér er lögð áhersla á að varðveita söguna, nöfn og myndir af þeim sem þátt tóku í stórmerkilegu menningarstarfi. Útgáfa bókanna var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Lárus Ægir hefur áður gefið út 4 bækur en það eru: Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár sem kom út 2009, Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908 – 2010 útgefin 2011, Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 – 2012 og Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd 80 ára en báðar þessar bækur voru útgefnar árið 2012.

Bókasafnið lokað 01.07.2015

Ágætu bókaunnendur, Bókasafn Skagastrandar verður lokað miðvikudaginn 01.07.2015 vegna tæknilegra örðugleika Sjáumst í næstu viku Bókavörður

35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands

Þann 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Skógræktarfélögin og sveitarfélög um land allt, með stuðningi Skógræktarfélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Yrkjusjóði og Landgræðslusjóði munu því standa saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní. Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað og verður um að ræða stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-2,0 m á hæð. Á Skagaströnd fer gróðursetningin fram laugardaginn 27.júní kl. 11:00 sunnan við Spákonuhof.

Íbúafundur um atvinnumál í A-Hún

Opinn íbúafundur í Austur Húnavatnssýslu Haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi Boðað er til opins fundar fyrir íbúa í Austur-Húnavatnssýslu í Félagsheimilinu á Blönduósi til að ræða atvinnumál í sýslunni og kynna Greinargerð um atvinnuuppbyggingu í Austur - Húnavatnssýslu. Fundurinn verður haldinn mánudaginn 29. júní kl. 17:30. Dagskrá: „Atvinnuuppbygging í Austur – Húnavatnssýslu.“ Greinargerð verkefnisstjórnar A –Hún. – Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar Staða byggðaþróunar í Austur-Húnavatnssýslu – Snorri Björn Sigurðsson, forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar Álver á Hafursstöðum – Ingvar Skúlason frá Klöppum Umræður og tillögur Skýrslan er aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna. (hér)

Þau giftu sig á Skagaströnd!

Elizabeth Layton og Sidney Blevins voru gefin saman af séra Bryndísi Valbjarnardóttur úti á Spákonufellshöfða hér á Skagaströnd föstudaginn 19. júní sl. Þau komu í nokkurra daga heimsókn frá Bandaríkjunum með 2ja ára soninn Strummer til að kynna honum land og þjóð og til að gifta sig. Liz og Sid eins og þau eru kölluð eru fyrrum Nes listamenn og voru bæði hér í febrúar 2012 en Liz kom síðan aftur í maí sama ár. Þeim er staðurinn hjartfólginn og segja að hann sé þeirra uppáhalds. Stundin var ljúf, veðurguðirnir sáttir og Höfðinn og Spákonufellið voru fallegur bakgrunnur athafnarinnar. Svo er spurning hvort það fari nokkuð að vaxa hrísgrjón á Höfðanum!”

Hreinni Skagaströnd - átak

Hreinni Skagaströnd Í samvinnu við Sveitarfélagið Skagaströnd mun Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra standa fyrir hreinsunarátaki í júlí, þar sem markmiðið verður að fjarlægja af lóðum járnarusl, bílhræ og annað drasl sem getur talist lýti á umhverfinu. Óskað er eftir að íbúar og fyrirtæki taki þátt í átakinu með því að hirða um það sem kann að vera nýtilegt og raði því snyrtilega upp, en komi öðru til förgunar. Hægt er að óska eftir aðstoð áhaldahúss við hreinsunarstarfið. Í byrjun júlí mun Heilbrigðiseftirlitið ef þurfa þykir, líma viðvörunarorð á þá lausamuni og númerslausu bifreiðar sem enn eru til lýta og þeir fjarlægðir í framhaldinu. Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 25. júní 2015 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Rekstur fyrstu 4 mánuði Jafnréttisáætlun Framkvæmdir 2015 Samningur um slátt á opnum svæðum Bréf: Tónlistarskólans á Akureyri, 11. júní 2015 Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, 9. júní 2015 Eignarhaldsfélags BÍ, 4. júní 2015 Varasjóðs húsnæðismála, 21. maí 2015 Sjónvarpsfélags Skagastrandar 15. júní 2015 Fundargerðir: Fræðslunefndar, 11.06.2015 Héraðsfundar, 3.06.2015 Skólanefndar FNV, 9.06.2015 Stjórnar Róta bs, 28.05.2015 Stjórnar Róta bs, 8.06.2015 Stjórnar Norðurár bs, 15.04.2015 Stjórnar Norðurár bs. 22.04.2015 Stjórnar Norðurár bs. 27.04.2015. Stjórnar Norðurár bs. 29.04.2015 Stjórnar Norðurár bs. 7.05.2015 Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 17.04.2015 Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 27.04.2015 Stjórnar SSNV, 13.05.2015 Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 29.05.2015 Önnur mál Sveitarstjóri

Barokkhátíðin á Hólum að hefjast

Sjöunda Barokkhátíðin á Hólum að hefjast Halla Steinunn Stefánsdóttir barokkfiðluleikari leiðir Barokksveit Hólastiftis Á Barokkhátíðinni á Hólum dagana 25.-28. júní leiðir Halla Steinunn Stefánsdóttir barokk­fiðluleikari Barokksveit Hólastiftis. Jón Þorsteinsson kennir söng og Ingibjörg Björnsdóttir barokkdans. Fjallað verður um viola d‘Amore, tónskáldið Dieterich Buxtehude og lækningar á miðöldum, haldnir tvennir hádegistónleikar, kvartett ungra gítarleikara kemur fram og hápunkturinn er hátíðartónleikar Barokksveitar Hólastiftis í Hóladómkirkju kl. 14 á sunnu­dag. Aðgangur að öllum viðburðum hátíðarinnar er ókeypis en tekið er við frjálsum fram­lögum til stuðnings hátíðinni. Dans- og hljómsveitaræfingar hefjast eftir hádegi fimmtudaginn 25. júní ásamt söng­námskeiði en upphafsatriði Barokkhátíðarinnar á Hólum 2015 verður kl. 17 þegar hinn norsk-íslenski Björgvin gítarkvartett heldur tónleika í Hóladómkirkju. Kvartettinn skipa þeir Öystein Magnús Gjerde, Thomas Schoofs Melheim, Morten Andre Larsen og Dag Håheim. Þeir eru allir á þrítugsaldri og hafa stundað nám við Grieg-akademíuna í Ósló. Þeir leika einleiksverk og kvartetta eftir Telemann, Bach, Soler, Haussmann og Vivaldi. Klukkan átta um kvöldið flytja þeir Eyþór Ingi Jónsson og Pétur Halldórsson erindi um líf og verk dansk-þýska barokktónskáldsins Dieterichs Buxtehude í Auðunarstofu. Á eftir verður kvöld­ganga í Gvendarskál ef veður leyfir. Föstudaginn 26. júní kl. 12.15 leikur Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari ásamt Judy Þor­bergs­son Tobin orgelleikara á hádegistónleikum í Hóladómkirkju. Þær flytja barokkverk fyrir selló eftir Duport og Magito en einnig gullfallega óþekkt sellósónötu eftir Antonio Vivaldi. Klukkan sautján verður mjög forvitnilegur fyrirlestur í Auðunarstofu þar sem Þórarinn Arnar Ólafsson læknir fjallar um heilsufar og lækningar á miðöldum. Um kvöldið koma þátttakendur saman á veitingastaðnum Undir Byrðunni þar sem barinn verður opinn og tækifæri fyrir fólk að troða upp með tónlistaratriði eða aðra skemmtun. Hádegistónleikar laugardagsins hefjast einnig klukkan 12.15 og þar er á ferðinni Duo Borealis, skipað víóluleikurunum Önnu Hugadóttur og Annegret Mayer-Lindenberg. Þær flytja sjaldheyrða dúetta fyrir tvær víólur eftir Michel Corrette, Pietro Nardini og Jean-Marie LeClair. Annegret er jafnframt fiðlusmiður og klukkan sautján á laugardag fjallar hún um hið merka hljóðfæri viola d‘Amore sem er af fjölskyldu strengjahljóðfæra eins og fiðlan og víólan og var mikið notað á barokktímanum. Um kvöldið er hátíðarkvöldverður í sal Hólaskóla þar sem verður stiginn barokkdans , leikið á hljóðfæri og jafnvel sungið. Sunnudaginn 28. júní lýkur Barokkhátíðinni á Hólum með hátíðarmessu í Hóladómkirkju kl. 11 og hátíðartónleikum Barokksveitar Hólastiftis kl. 14. Sr. Solveig Lára Guðmunds­dóttir, vígslubiskup á Hólum, prédikar og Sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup þjónar fyrir altari. Þátttakendur á Barokkhátíðinni á Hólum sjá um tónlistarflutning og organisti verður Eyþór Ingi Jónsson. Á hátíðartónleikunum leiðir Halla Steinunn Stefáns­dóttir hljómsveitina sem flytur vel valdar barokkperlur sem sveitin hefur æft meðan á hátíðinni stóð. Barokkhátíðin á Hólum er nú haldin í sjöunda sinn. Nánari upplýsingar veitir Pétur Halldórsson í síma 663-1842 eða á netfangið barokksmidjan@holar.is