23.06.2015
Opna Fiskmarkaðsmótið í golfi, sem jafnframt er minningarmót um Karl Berndsen, var haldið á Háagerðisvelli á Skagaströnd, laugardaginn 20. júní sl. Mótið er einnig fyrsti hluti svokallaðar Norðvesturþrennu golfklúbbanna á Skagaströnd, Blönduósi og Sauðárkróki. Alls tóku 26 keppendur þátt í mótinu. Leiknar voru 18 holur. Úrslit urðu sem hér segir:
Kvennaflokkur – höggleikur án forgjafar
Sigríður Elín Þórðardóttir GSS 90 högg
Guðrún Ásgerður Jónsdóttir GÓS 94 högg
Ragnheiður Matthíasdóttir GSS 95 högg
Karlaflokkur – höggleikur án forgjafar
Arnar Geir Hjartarson GSS 76 högg
Elvar Ingi Hjartarson GSS 83 högg
Halldór Halldórsson GSS 83 högg
Blandaður flokkur - Punktakeppni með forgjöf
Hafþór Smári Gylfason GSK 36 punktar
Halldór Halldórsson GSS 33 punktar
Arnar Geir Hjartarson GSS 33 punktar
22.06.2015
Vegna bilunar í vatnsveitu verður lokað fyrir kalt vatn á svæðinu sunnan Fellsbrauta og þeim hluta af Hólanesi sem er sunnan Hólanesvegar. Bilun er í Túnbraut og verður gatan lokuð eða seinfarin á meðan á viðgerð stendur. Vonast er til að viðgerð verði lokið um hádegisbil.
Sveitarstjóri
16.06.2015
Vinnumálastofnun
Atvinnuráðgjafi
á Norðurlandi vestra
Vinnumálastofnun óskar eftir að ráða atvinnuráðgjafa fyrir þjónustuskrifstofu sína á Norðurlandi vestra sem staðsett er á Skagaströnd
Atvinnuráðgjafi veitir ráðgjöf, aðstoðar einstaklinga í atvinnuleit og
atvinnurekendur í leit að starfsfólki. Atvinnuráðgjafi annast ýmis samskipti við hagsmunaaðila á svæðinu.
Helsta markmið starfsins er að vinna gegn atvinnuleysi á Norðurlandi vestra
Viðkomandi starfsmaður þarf að vera tilbúinn að takast á við krefjandi verkefni og búa yfir ríkri samskipta og skipulagshæfni.
Honum ber að tileinka sér gildi Vinnumálastofnunnar sem eru: Fyrirmyndarþjónusta;Virðing; Áreiðanleiki.
Næsti yfirmaður er forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra.
Helstu verkefni:
• Vinnumiðlun og almenn ráðgjöf
• Móttaka umsókna og gagna
• Skráningar og upplýsingamiðlun
• Kynningar, starfsleitarfundir og námskeið
• Koma á og viðhalda tengslum við fyrirtæki
• Koma á og viðhalda tengslum við ólíka
samstarfs og hagsmunaaðila
Menntunar- og hæfnikröfur:
• Háskólapróf sem nýtist í starfi
• Reynsla af ráðgjöf og vinnumiðlun
• Samskipta- og skipulagshæfni
• Þekking af atvinnulífi svæðisins er æskileg
Umsóknarfrestur er til og með 30. júní 2015.
Athygli er vakin á því að umsóknir munu gilda í 6
mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
Sækja skal um starfið á Starfatorgi:
www.starfatorg.is/serfraedistorf/nr/19606.
Umsókn um starfið skal fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf
þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar
og rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra
og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Nánari upplýsingar veitir:
Jensína Lýðsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar
á Norðurlandi vestra í síma 515 4800 eða með
fyrirspurn netfangið jensina.lydsdottir@vmst.is
.
12.06.2015
Útgefin hefur verið greinargerð nefndar um atvinnumál í A-Hún.
Greinargerð þessi um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu byggist á þingsályktun Alþingis frá 15. janúar 2014 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Þingsályktunin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.“
Á grundvelli ályktunarinnar var skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnsýslu og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis. Verkefnisstjórnin er þannig skipuð:
Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, formaður verkefnisstjórnar,
Adolf H. Berndsen, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar,
Dagný Rósa Úlfarsdóttir, varaoddviti Skagabyggðar,
Sigrún Hauksdóttir, varaoddviti Húnavatnshrepps,
Sveinn Þorgrímsson, yfirverkfræðingur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Greinargerðin er unnin af verkefnisstjórninni í samvinnu við Snorra Björn Sigurðsson, starfsmann Byggðastofnunar og Ingiberg Guðmundsson, starfsmann Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Tilgangur greinargerðarinnar er að gefa yfirlit um stöðu atvinnumála og mannlífs í Austur-Húnavatnssýslu, tengsl þess við raforkuframleiðslu í héraðinu og draga ályktanir sem nýst geta til að efla atvinnu og styrkja byggðina. Greinargerðin gegnir einnig því hlutverki að hafa tiltækar grunnupplýsingar sem nýst geta við gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta og aðra þá sem stofna vilja til atvinnureksturs í héraðinu.
Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að fyrirhuguð stækkun Blönduvirkjunar skapar góðar forsendur fyrir nýtingu orku frá virkjuninni í þágu atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Hagnýting orku í heimahéraði hefur verið viðurkennd meginregla í samskiptum heimamanna og virkjunaraðila seinasta aldarfjórðung. Því verður að telja eðlilegt að öll orka Blönduvirkjunar nýtist í þágu heimamanna.
Austur-Húnavatnssýsla er vel í sveit sett og getur boðið fjárfestum kjöraðstæður fyrir atvinnustarfsemi í góðu umhverfi utan virka eldfjallasvæðisins í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og Akureyri.
Greinargerðina má finna hér
05.06.2015
Guðmundur Jóhannesson kafar.
Guðmundur Jóhannesson við köfunarstörf 1961.
Á bátnum Ægi eru hjálparmenn hans þeir Kristófer Árnason
slöngumaður og Þórbjörn Jónsson í talstöðinni.
Guðmundur vann lengi sem kafari, aðallega við hafnargerð,
víða um land.
Ef grannt er skoðað sést í stórt hjól lengst til vinstri á myndinni.
Þessu hjóli var snúið stanslaust meðan Guðmundur var í kafi
og með því dælt lofti niður til hans eftir loftslöngunni sem
Kristófer var ábyrgur fyrir að ekki flæktist eða á hana kæmi gat.
Mikið ábyrgðarstarf var líka að vera á talstöðinni og þurfti að ríkja
mikið traust milli kafarans og talstöðvarmannsins.
Bátinn Ægi áttu þeir Guðmundur og Þórbjörn saman um tíma.
04.06.2015
Aðalfundur Skógrætarfélags Skagastrandar
verður haldinn þriðjudaginn 9. júní 2015, kl.20:00
á Borgin Restaurant-Gyllta sal.
Venjuleg aðalfundarstörf
Verkefni sumarsins
Önnur mál
Nýir félagar velkomnir, heitt á könnunni
stjórnin
01.06.2015
Opinn fundur
Sóknaráætlun Norðurlands vestra
Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, miðvikudaginn 10. júní kl. 17:00.
Þann 10. febrúar sl. var skrifað undir samning milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og ríkisins um Sóknaráætlun 2015-2019. Markmið Sóknaráætlunar er m.a. að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls.
Samkvæmt samningi um Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2015-2019 skal marka stefnu landshlutans í menningarmálum, nýsköpun og atvinnuþróun, uppbyggingu mannauðs og lýðfræðilegri þróun svæðisins.
Á fundinum í Menningarhúsinu Miðgarði verður fjallað um stöðu Norðurlands vestra í þessum málaflokkum og síðan unnið í hópum.
Fundurinn er öllum opinn og eru íbúar hvattir til að mæta og taka þátt í að móta stefnu og áherslur landshlutans.
Á heimasíðu SSNV www.ssnv.is er að finna Samning um sóknaráætlun Norðurlands vestra 2015-2019.
Verið velkomin.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
01.06.2015
Íbúafundur um umhverfismál
verður haldinn mánudaginn 1. júní nk.
kl. 17.30 í félagsheimilinu Fellsborg.
Efni fundarins er umhverfismál bæði almennt og með tilliti til Skagastrandar sérstaklega.
Kynningar- og umræðuefni á fundinum:
Plastmengun í hafi
James Kennedy, sérfræðingur hjá BioPol/Hafró
Flokkun og endurvinnsla úrgangs
Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar ehf
Umhverfis- og úrgangsmál á Skagaströnd
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.
Sveitarstjóri
29.05.2015
Sumar.
Verðlaunamynd úr ljósmyndakeppni 2010 tekin af
Guðlaugu Grétarsdóttur.
Myndin sýnir börn að sulla í sjónum í víkinni neðan við
Lækjarbakka á góðum sumardegi.
Vissan fyrir því að sumarið mun koma, hjálpar okkur að þrauka
leiðinlegt tíðarfar í maí og gerir okkur enn ákveðnari í að njóta
sumarsins - þegar það loksins kemur.
28.05.2015
Ágætu Skagstrendingar!
Nú vorar sem óðast og senn líður að sjómannadegi. Það er því kominn tími til að taka til hendinni og þrífa eftir veturinn.
Laugardaginn 30. maí er skorað á íbúa að taka sig til og hreinsa bæði hjá sér og í sínu nánasta umhverfi.
Endurvinnslustöðin verður opin kl 13.00 -17.00 og ekkert gjald tekið fyrir þann úrgang sem berst þennan dag.
Fulltrúar í sveitarstjórn munu taka á móti þeim sem koma á endurvinnslustöðina kl 15.00-17.00 og bjóða upp á grillaðar pylsur eða annað góðgæti.
Þeir sem ekki hafa búnað til flutninga geta óskað eftir kerruþjónustu hjá áhaldahúsi í síma 774 5427.
Mánudaginn 1. júní verður haldinn íbúafundur um umhverfismál – Hann verður auglýstur sérstaklega.
Sveitarstjóri