Frá sveitarstjóra vegna aðgerðaáætlunar

Kæru Skagstrendingar

Við erum sannarlega að ganga í gegnum einkennilegt tímabil nú á tímum veðra, verkfalla og veiru. Það er dásamlegt að finna fyrir því hversu samheldið samfélagið okkar er og mikilvægt að við höldum áfram að styðja og vera góð við hvort annað. Sólin er farin að hækka á lofti og það styttist óðum í síðasta snjóstorm þessa vetrar. 

Næstu vikur verða flóknar að mörgu leyti og þurfum við öll að standa saman í þeim verkefnum sem framundan eru, sýna hvort öðru þolinmæði og taka áskorunum af auðmýkt og skynsemi. 

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum í kvöld aðgerðaáætlun sem hefur verið virkjuð. Í áætluninni eru lagðar línurnar fyrir næstu vikur á meðan á samkomubanni stendur. Nálgast má áætlunina hér.  Ég tek fram að eðli máls samkvæmt tekur áætlunin breytingum í takt við ástandið í þjóðfélaginu og verður tilkynnt um allar meiriháttar breytingar með fyrirvara. 

Áherslupunktar úr áætlun eru eftirfarandi:

  • Starfsdagur verður í skólum á morgun þann 16. mars.
  • Grunn- og leikskólar verða starfræktir frá þriðjudeginum 17. mars en með breyttu sniði. Skólastjórnendur munu tilkynna foreldrum og forráðamönnum um fyrirkomulag á morgun. 
  • Engin kennsla verður í tónlistarskóla vikuna 16-20. mars.
  • Nemendur fara ekki í heimsóknir í aðrar stofnanir en notaðar eru til skólastarfs um óákveðinn tíma. Gildir þó ekki um útiveru.
  • Íþróttir, sund og frístund falla niður á meðan á samkomubanni stendur.
  • Engar heimsóknir utanaðkomandi aðila eru leyfðar.
  • Skólamötuneyti verður lokað á meðan á samkomubanni stendur. Þá verður ekki hafragrautur né ávaxtastund fyrir nemendur.
  • Íþróttahús, sundlaug, bókasafn verður lokað á meðan á samkomubanni stendur. 
  • Heimsóknir á Dvalarheimilið Sæborg eru óheimilar með öllu.
  • Félagsstarf aldraðra verður fellt niður á meðan á samkomubanni stendur.  
  • Skrifstofa sveitarfélagsins verður opin en þó með einhverjum takmörkunum. Eru íbúar beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum og reyna eftir fremsta megni að takmarka samskipti við tölvupósta eða símtöl.
  • Skagastrandarhöfn verður opin fyrir landanir. 

Ég biðla til íbúa að þeir kynni sér efni bæði viðbragðs- og aðgerðaáætlana sveitarfélagsins og fara í einu og öllu að fyrirmælum yfirvalda og fagfólks. Tökumst á við þessa áskorun af yfirvegun og jákvæðni og stöndum þétt saman sem fyrr. Stjórnendur munu kappkosta við að halda íbúum upplýstum eins og hægt er. 

Viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar

Aðgerðaáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar

Sveitarstjóri