Fréttir

Sveitarfélagið Skagaströnd/Höfðahreppur 80 ára

Í janúar 2019 eru 80 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög sem gerð var um áramótin 1938-1939 og var upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd. Þéttbýlið á Skagaströnd er auðvitað töluvert eldra og má í því sambandi benda á að íbúar á Skagaströnd voru um 60 um aldamótin 1900 og þá voru 15 hús á staðnum. Verslunarstaðurinn Skagaströnd er enn eldri því elstu heimildir benda til þess að verslun hafi verið hafin hér fyrir setningu einokunarverslunar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn af þeim illa þokkuðu einokunarverslunarstöðum danskra kaupmanna í þau 185 ár sem hún stóð fram til 1787. Vindhælishreppur hinn forni náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal. Það tók því að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir að það þótt langt að sækja fundi fyrir þá sem bjuggu næst endum hreppsins. Hugmyndir um að skipta gamla Vindhælishreppi ná þó enn lengra aftur og hægt að rekja heimildir um þær hugmyndir aftur til ársins 1806. Þá var aðallega talað um að skipta hreppnum í tvo hluta og nefna þá eftir kirkjusóknum Höskuldstaðahrepp og Hofshrepp. Þorpið á Skagaströnd fór svo að vaxa, einkum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Þá voru komnar vélar í bátana, búið að steypa fyrstu bryggjuna og raunverulegar hafnarframkvæmdir að hefjast þegar gerður var garður úr landi og út í Spákonufellsey, en vinna við það hófst 1935. Þegar þarna var komið sögu voru góðbændur í sveitarfélaginu sem voru helstu útsvarsgreiðendur orðnir mjög áhyggjufullir vegna vaxandi íbúafjölda í þorpinu sem þeir sáu ekki fram á að gætu framfleytt sér. Þá var einnig skollin á heimskreppa og ágreiningur milli sveitar og þorps fóru vaxandi. Í hreppsnefndarkosningum 1937 náðu þorpsbúar svo meirihluta í hreppsnefndinni og þá virðist flestum verða ljóst að nauðsynlegt væri að skipta hreppnum upp og eingöngu talað um þrjá hreppa. Meðal þeirra mála sem tekist var á um milli hreppshlutanna var ómagaframfærsla og hve mikið land ætti að fylgja þorpinu. Eftir allnokkur fundahöld í öllum nýju hreppshlutunum og störf skiptanefndar fékkst niðurstaða í landsstærðina sem enn gildir og að ómagaframfærslan skyldi vera sameiginlega í sjö ár eftir skiptingu. Auðvitað voru mörg fleiri úrlausnarmál en þeim var öllum fundinn nýr farvegur. Nýju sveitafélögin áttu að heita Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur.  Skipting hreppsins í þrjá hreppa var rædd á fundi hreppsnefndar á þorláksmessu 1938 og þá var ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939. Í þeirri ágætu bók Byggðin undir Borginni segir svo í niðurlagi umfjöllunar um hreppaskiptinguna: „Ekki munu allir íbúar hreppsins hafa fagnað þessari niðurstöðu; um það vitnar til dæmis vísa Vilhjálms Benediktssonar frá Brandaskarði:             Ekki prísa ég ykkar mennt sem að því verki stóðu að sundur flísa og saga í þrennt sveitina mína góðu.   Um áramót 1938-1939 gengu kauptúnsbúar til hvílu í Vindhælishreppi vitandi að þeir myndu vakna upp í nýju sveitarfélagi að morgni án þess að hreyfast úr stað. Er ekki að efa að með ýmsum hafa tilfinningar verið blendnar; hvernig myndi þessu fámenna og fátæka sveitarfélagi farnast? Framhjá því varð ekki litið að margir innbúar hins nýja Höfðahrepps lágu við sveit. En ýmis teikn voru á lofti um betri tíð. Skammt undan voru fengsæl fiskimið og silfur hafsins, síldin, óð á hverju sumri inn allan Húnaflóa.“ Nafni sveitarfélagsins var svo breytt úr „Höfðahreppur“ í „Sveitarfélagið Skagaströnd“ eftir atkvæðagreiðslu um nafnabreytinguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 2006. Skagaströnd í janúar 2019 Magnús B. Jónsson

Mynd vikunnar

Þórdísarganga 5. júlí 2008 var farin Þórdísarganga á Spákonfellsborg á vegum  Spákonuhofsins á Skagaströnd.  Leiðsögumaður var Ólafur Bernódusson en milli 60 og 70 manns  á aldrinum 6 til 74 ára kom með í gönguna í blíðu veðri.  Að fjallgöngunni lokinni beið göngufólksins kaffiveisla í golfskálanum  á vegum kvennanna í Spákonuhofinu.  Á myndinni eru þeir Stefán Jósefsson til vinstri og Magnús B. Jónsson  til hægri að njóta veðurblíðunnar uppi á Borgarhausnum.

Sveitarfélagið Skagaströnd /Höfðahreppur 80 ára

Í janúar 2019 eru 80 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög sem gerð var um áramótin 1938-1939 og var upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd.

Álagning fasteignagjalda á Skagaströnd 2019

Álagning fasteignagjalda 2019 er lokið. Álagningarreglur fasteignagjalda 2019 eru aðgengilegar á heimasíðunni undir „gjaldskrár“.   Greiðslur fasteignagjalda: Eins og undanfarin ár verða ekki sendir greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda nema til þeirra sem þess hafa óskað sérstaklega og gildir skráning þeirra sem þess óskuðu á síðasta ári nema nýjar upplýsingar komi fram. Gjalddagar fasteignagjalda eru frá 1. febrúar til 1. júlí, en á smærri upphæðum eru gjalddagar 1 eða 2. (Gjalddagar á 0-5.000 kr. er 1.apríl og 5.001-10.000 skiptist í tvo gjalddaga 1. apríl og 1. maí).   Sorphirðugjald /sorpeyðingargjald Vakin er athygli á að sorphirðugjald er lagt á íbúðir með fastri búsetu en einungis sorpeyðingargjald á sumarhús og íbúðir þar sem ekki er regluleg búseta. Það táknar að sorphirða fer ekki fram þar sem einungis er greitt sorpeyðingargjald. Sama gildir um þær eignir sem ekkert sorphirðu- eða sorpeyðingargjald er lagt á eins og t.d. ferðaþjónustueignir (C-flokkur). Þeir aðilar leysa sjálfir sorphirðu/sorpeyðingu fyrir sína starfsemi með samningum við þjónustuaðila eða öðrum hætti.   Álagningaseðlar: Álagningarseðlar verða ekki sendir út nema þess sé sérstaklega óskað. Hver og einn getur nálgast sína álagningarseðla á vefsíðunni www.island.is undir reitnum „mínar síður“  Innskráning er með kennitölu viðkomandi og íslykli eða rafrænum skilríkjum.   Skrifstofa sveitarfélagsins veitir fúslega upplýsingar og aðstoð til þeirra sem þess óska.   Skagaströnd 24. janúar 2019   Sveitarstjóri

Aukin þjónusta á Skagaströnd

Eygló snyrtistofa hefur aftur hafið starfsemi á Skagaströnd eftir nokkur hlé. Þar er boðið upp á alhliða snyrtingu  sem hefur ekki verið í boði hér að undanförnu. Það er Eygló Amelía Valdimarsdóttir sem á og rekur snyrtistofuna en stofan er í húsnæði Vivu hársnyrtistofunnar. Ekki þarf að efast um að margir fagni þessari auknu þjónustu enda eru einkunnarorð snyrtistofunnar, Geislandi fegurð & vellíðan, lýsandi fyrir það sem fólk sækir á stofuna hjá Eygló. Opnunartími þessa nýja fyrirtækis er eftir samkomulagi en hægt er að hafa samband og panta tíma á facebooksíðunni: www.facebook.com/Eyglósnyrtistofa/  eða í síma 8684482.

Mynd vikunnar

Sorg á Skagaströnd 1961 Um þessar mundir (2019) eru rúm 58 ár síðan óhugur og sorg ríkti meðal fólks á Skagaströnd.  Ástæðan var að bræðurnir Hjörtur Hjartarson,  sem er til vinstri á myndinni, og Sveinn Hjartarson frá Vík fórust í sjóróðri  á Húnaflóa á bát sínum Skíði Hu 8 22. nóvember 1961.  Í dagblaðinu Vísi birtist eftirfarandi frétt af málinu hinn 23. nóvember 1961: "Óttast að tveir bræður hafi farizt. Norður á Skagaströnd óttast menn mjög að tveir bræður hafi farizt í róðri í gærdag. Bræðurnir sem eru Hjörtur og Sveinn Hjartarsynir eiga heima á Skagaströnd  og eru menn einhleypir. í gærdag hófst leitin, og hefur henni verið haldið látlaust  áfram þrátt fyrir stórsjó og hríð á Húnaflóa. Laust fyrir hádegið átti blaðið tal við  Skagaströnd. Var þá tíðindalaust af leitinni, sem varðskipið Óðinn hefur haldið uppi  í alla nótt. Var flokkur manns farinn á fjörur. Lítilsháttar frost var, hvasst og hríð.  Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru synir Hjartar Klemenzsonar sem er maður við aldur  og sjálfur stundaði sjómennsku. Um klukkan 1,30 í gærdag voru bræðurnir undan Skallarifi.  Þeir voru þá að draga línuna, en höfðu slitið hana og voru að leita. Var þá orðið hvasst.  Var ákveðið að þeir skyldu láta til sín heyra um klukkan 3. Er um 2 og 1/2—3 tíma  sigling frá Skagaströnd á þessi mið. Vélskipið Húni var í róðri. Kl. 3 er ekkert heyrðist  frá bræðrunum hélt Húni þegar á vettvang og leitaði hann á allri leiðinni frá Skallarifi  og inn, en árangurslaust. Í gærkvöldi voru 10 vindstig á Skagaströnd og mikill sjór  og hríð. Varðskipið Óðinn kom á vettvang og hóf að leita, og leitaði enn í morgun  en hafði einskis orðið var. Óttast sjómenn á Skagaströnd, að brot hafi komið á bátinn,  en sjólag er mjög slæmt undan Skallarifi.  Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru menn á fertugsaldri og hafa stundað sjóinn  í sameiningu á bát sínum, en hann var 8 tonn dekkbyggður". Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar.  Gefandi: Birgir Árnason Straumnesi á Skagaströnd.

Nýtt fyrirtæki hefur starfsemi

Erla Jónsdóttir opnaði bókhalds- og rekstrarráðgjafafyrirtæki sitt, Lausnamið, formlega 10. janúar 2019. Í tilefni af því bauð hún gestum og gangandi í heimsókn í Gamla kaupfélagið til að skoða fyrirtækið og þiggja léttar veitingar. Rúmlega 70 manns þáðu boðið og fögnuðu með þeim Erlu og Sigríði Gestsdóttur þessum spennandi tímamótum.  Það er alltaf mikið gleðiefni þegar ný fyrirtæki verða til á Skagaströnd. Það sýnir að fólk hefur trú á bænum okkar og er til í að grípa þau tækifæri sem bjóðast til að fjölga stoðunum undir atvinnulífið á staðnum. Um leið og við óskum Erlu allra heilla með Lausnamið vonum við að fyrirtækið eigi eftir að vaxa og dafna í framtíðinni.

Mynd vikunnar

Reyklaus framtíð Tóbaksvarnaráð Íslands hélt samkeppni í nokkur ár meðal 8. bekkinga  á landinu um besta áróðurefnið gegn tóbaksreykingum.   8. bekkir Höfðaskóla sigruðu tvisvar í þessari keppni en verðlaunin voru vikuferð til Danmerkur.  Þessir nemendur sigruðu árið 2001 með áróðursspjöldum og bæklingi sem borinn var í hús  á Skagaströnd. Krakkarnir fóru síðan í skemmtilega ferð til Danmerkur í framhaldinu.  Krakkarnir eru, frá vinstri: Ásdís Adda Ólafsdóttir, Hanna Rúna Gestsdóttir,  Rósa Björk Blöndal Einarsdóttir, Katrín Inga Hólmsteinsdóttir, Albert Ingi Haraldsson,  Jóna Gréta Guðmundsdóttir, Friðvin Ingi Ernstsson, Eyþór Kári Egilsson,  Björn Viðar Jóhannsson, Sindri Njáll Hafþórsson og Kristinn Andri Hjálmtýsson.

Tilkynning frá Heilbrigiðsstofnun Norðurlands á Blönduósi.

Vegna framkvæmda í biðsofu og móttöku heilsugæslunnar þarf að loka A inngangi um tíma, frá og með 10/1 2019. Inngangur í Lyfju verðu þó óbreyttur. Þeir sem koma á heilsugæsluna á dagvinnutíma ganga inn um innganginn sem snýr að Svínvetningabraut, SV á byggingunni við hliðina á sjúkrabílainnkeyrslunni. Þeir sem leita til heilsugæslunnar utan dagvinnutíma koma inn í samráði við vaktlækni. Þeim sem koma í sjúkraþjálfun er bent á að nota B inngang og taka lyftuna þar niður í kjallara. Heimsóknargestir og aðrir sem erindi eiga í húsið noti B inngang. Beðist er afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kanna að valda en vonum að þau verði sem minnst.

Félagsstarfið

  Byrjum aftur eftir jólafrí fimmtudaginn 10. jan. Starfið er frá kl. 14:00- 17:00   Allir öryrkjar og 60 ára og eldri eru velkomnir, gaman væri nú ef fleiri vildu koma og taka þátt í starfinu með okkur.   Það sem við gerum okkur til skemmtunar er prjónaskapur, saumum bæði út og á ssaumavélar, málum á keramik, gler/krukkur, mosaik,spilum og síðast en ekki síst þá spjöllum við og höfum gaman.  Við höfum farið í smá ferðalag á vorin og jafnvel yfir veturinn.   Það er líka hægt að kíkja í kaffisopa og spjall.   Vonumst til að fleiri komi og njóti samverunnar með okkur.   Kveðja Obba og Ásthildur