Fréttir af framkvæmdum á vegum Höfðahrepps 2003.

Talsverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum Höfðahrepps á árinu og er áætlaður kostnaður við þær er um 25 milljónir króna. Frágangur á kirkjulóð er stærsta einstaka framkvæmd ársins. Ákveðið hefur verið að helluleggja bílastæði ofan við kirkjuna og þarf samhliða því að koma minnismerki um drukknaða sjómenn fyrir innar í lóðinni og útbúa hellulagt torg í kringum það. Skipulag svæðisins liggur frammi á skrifstofu hreppsins og eru íbúar hvattir til þess að kynna sér það. Framkvæmdir hefjast seinni hluta aprílmánaðar og er stefnt að því að ljúka þeim að mestu fyrir mánaðarmótin maí/júní. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 7,5 milljónir króna. Lagfæra á gangstéttir á nokkrum stöðum þar sem þær hafa skemmst og framlengja gangstéttir á nokkrum stöðum. Settir verða ljósastaurar við Höfðastrætið. Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 3,0 milljónir króna. Ljúka á við utanhússlagfæringar á Bjarmanesi og færa húsið nær upprunalegu útliti. Þannig verður skýlið fjarlægt og komið fyrir gluggum þar sem þeir voru áður. Segja má með þessu að húsinu sé sýndur einstakur sómi enda er það eitt elsta húsið í sveitarfélaginu. Áætlaður kostnaður á árinu er um 5,0 milljónir króna en heildarkostnaður við að endurgera húsið er áætlaður um 18 milljónir. Ákveðið hefur verið að ráðast í utanhússmálun á stórum hluta af íbúðum sveitarfélagsins. Um er að ræða raðhúsin við Suðurveg, raðhús við Mánabraut og parhús við Skagaveg. Áætlaður kostnaður er um 4,0 milljónir. Á vegum vatnsveitunnar verða endurnýjaðir 2. brunahanar og komið upp viðvörunarkerfi og eftirlitskerfi ef um bilanir er að ræða í dælingu eða miðlun á vatninu. Áætlaður kostnaður er um 0,5 milljónir. Gengið verður frá Fjörubrautinni frá gatnamótum Hólanesvegar að Hólaneshúsunum. Um er að ræða jarðvegsskipti, lagnir og klæðningu á götu. Sjóvörn sunnan við Hólanes verður styrkt á 200 m kafla og færð fjær götunni. Áætlaður kostnaður við sjóvörnina er 3,5 milljónir kr. Auk áðurtaldra verkefna verður unnið að minniháttar viðgerðum og viðhaldi.