Auglýsing um deiliskipulag Skagaströnd

Tillaga að deiliskipulagi Ægisgrund, Skagaströnd; lóðir opinberra bygginga. Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og bygg­ingar­laga nr. 73/1997 með síðari breytingum, tillögu að deiliskipulagi Ægisgrund Skagaströnd, lóðir opinberra bygginga. Á lóð Ægisgrundar 2-12 hafa verið íbúðir aldraðra og verður þar engin breyting á. Á lóð Ægisgrundar 14 hefur verið starfrækt dvalarheimili aldraðra og verður áfram, en að auki mun heilsugæslustöð flytja starfsemi sína í viðbygginu sem fyrirhuguð er. Í tillögunni er markaður byggingarreitur fyrir viðbyggingu, lóðarmörk dregin, grein gerð fyrir bílastæðum og byggingarskilmálar settir fram. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í skrifstofum Höfðahrepps, Túnbraut 1-3 á Skagaströnd til miðvikudagsins 10. ágúst 2005. Athugasemdum skal skila á skrifstofu Höfðahrepps fyrir kl. 16.00 miðvikudaginn 24. ágúst 2005 og skulu þær vera skriflegar. Þeir sem ekki gera athugasemd inn­an þessa frests teljast samþykkir tillögunni.

Annasamri íþróttahelgi lokið

Hér eru loksins myndir frá Goggamóti í frjálsum íþróttum í Mosfellsbæ, KB bankamóti í knattspyrnu í Borgarnesi og Bikarkeppni FRÍ 2 deild í frjálsum á Sauðárkróki. Skagstrendingar áttu þar fulltrúa helgina 24/6 – 26/6 sem allir stóðu sig með miklum sóma. Stefán Velemir tók þátt í Goggamótinu í Mosfellsbæ sem haldið var í 15 sinn. Því miður fannst ekki mynd af Stefáni en á myndinni sjáum við aðra keppendur frá USAH og þjálfarann Steinunni Huldu Magnúsdóttur við keppni í spjótkasti. Sæþór, Alex Már, Elías Kristinn og Guðjón Páll kepptu sem Hvöt í 5 flokki í Borgarnesi. Með þeim voru tveir strákar frá Blönduósi og einn úr sveitinni og Ólafur Benediktsson þjálfari Hvatar. Glöggir menn sjá hins vegar að strákarnir eru í búningum Umf. Fram. Þessir strákar gerðu sér lítið fyrir og gerðu eitt jafntefli en unnu 5 leiki og þar með sinn flokk í mótinu. Á myndinni frá mótinu á Sauðárkróki má sjá Sigurrós Ósk, Elna, Laufey Inga, og Kristján Heiðmar með Sunnu Gestsdóttur. Sunna keppti fyrir USAH í nokkrum greinum en okkar fólk fór til að læra og þau voru starfsmenn við ýmsar greinar á mótinu. Skagstrendingar geta verið stoltir af þessum ungu fulltrúum sínum á íþróttavellinum. Íþróttafulltrúi Höfðahrepps

Námsstofan á Skagaströnd

Í Námsstofunni er ekkert sumarfrí. Í gær 6. júlí var kynning á kjarasamningi sjúkraliða í fjarfundabúnaði Námsstofunnar. Þar mættu 6 sjúkraliðar. Þessa dagana er Þóra Ágústsdóttir í Álaborg í Danmörku að vinna að lokaverkefni sínu við háskólann þar. Verkefnið er á sviði Evrópufræði og fjallar um hvers vegna Ísland hefur ekki sótt um aðild að ESB. Síðan er hún væntanleg aftur hingað í Námsstofuna í áframhaldandi vinnu við verkefnið. Karen Lind Gunnarsdóttir er í B.A. námi við Háskólann á Akureyri í sálfræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Hún notar aðstöðuna í Námsstofunni til að vinna úr rannsókn sem kallast “Félagslegt umhverfi Evrópubúa”. Hún tekur viðtöl á Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga og vinnur síðan úr sínum gögnum í Námsstofunni. Hildur Inga Rúnarsdóttir er að ljúka cand.theol við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hún er að skrifa kandidatsritgerð í Nýja testamenntisfræðum til 10 eininga sem er rannsókn á frumheimild: Rómverjabréfið 12:9-13 út frá félags- og menningarsögulegri aðferðafræði. Guðlaug Grétarsdóttir er í sumarönn við Háskólann á Akureyri í “Vísindasmiðju” og “Margmiðlun”. Hún er að vinna verkefnavinnu í þessum áföngum ásamt því að undirbúa B.Ed. ritgerð sína. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Júlí 2005 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985