Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 2. október 2007 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: Verkefni Héraðsnefndar A-Hún. a. Félagsþjónusta A-Hún. b. Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa c. Brunavarnir – rekstur slökkviliðs Drög að reglugerð um lögreglusamþykktir. Samþykkt um kattahald. Umsóknir um styrki til Menningarráðs Norðurlands vestra Bréf: a) Landsskrifstofa Staðardagskrár 21, dags. 25. september 2007. b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 24. september 2007. c) Umhverfisráðuneytisins, dags. 20. september 2007. d) Áskorun um sundlaugarbyggingu Fundargerðir: a) Skipulags- og byggingarnefndar, 13.09.2007. b) Hagsmunaaðila í úrgangsmálum, 16.08.2007. c) Stjórnar Norðurár bs., 4.09.07. d) Menningarráðs Norðurlands vestra, 21.09.2007. e) Stjórnar SSNV, 23.08.2007. f) Stjórnar SSNV, 19.09.2007. g) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 28.08.2007 h) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 30.08.2007. Önnur mál Sveitarstjóri

Opnun skrifstofu Menningarráðs Norðurlands vestra

Skrifstofa Menningarráðs Norðurlands vestra, að Bjarmanesi á Skagaströnd, var formlega opnuð föstudaginn 21. september sl. Guðrún Helgadóttir, formaður ráðsins, bauð gesti velkomna. Í ræðu hennar kom fram að á þessu ári hafi fjórir nýir menningarfulltrúar verið ráðnir og með því hringnum lokað í samningum ríkis og sveitarfélaga um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni. Formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Adolf H. Berndsen, óskaði íbúum svæðisins til hamingju með nýgerðan samning ríkis og SSNV en samningurinn er forsenda fyrir þeim nýju verkefnastyrkjum á sviði menningarmála sem auglýstir hafa verið. Við opnunina söng Alexandra Chernyshova sópransöngkona nokkur lög en hún er búsett á Hofsósi og kennir m.a. við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, lýsti þeirri von sinni að opnun skrifstofu og nýjar styrkveitingar myndu efla og auðga menningarstarf á Norðurlandi vestra. Þá sagði hann stuttlega frá sögu Bjarmaness, hússins þar sem skrifstofan er staðsett. Menningarráð Norðurlands vestra auglýsti fyrstu úthlutun verkefnastyrkja í byrjun september en umsóknarfresturinn rennur út 1. október nk. Það eru því síðustu forvöð að sækja um. Myndir: Ljósmyndari er Jón Sigurðsson Alexandra Chernyshova sópransöngkona. Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi og Guðrún Helgadóttir, formaður Menningarráðs Norðurlands vestra, við opnun skrifstofunnar.

Menningarstyrkur 2007 - umsóknarfrestur

Með menningarsamningi gefst hugmyndaríku og fólki færi á að sækja um styrki til menningarstarfs og menningaratburða. Nú er lag til að láta til skara skríða í menningarmálum. Minnt er á að umsóknarfrestur til að skila inn umsóknum um verkefnastyrki í Menningarráð Norðurlands vestra rennur út 1. október nk. Verkefnastyrkjunum er úthlutað á grundvelli menningarsamnings ríkisins og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og til úthlutunar eru 30 mkr. á árinu 2007. Allar nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð eru að finna á heimasíðu SSNV: www.ssnv.is Nánari upplýsingar veitir einnig Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra s. 892 3080 , netfang menning@ssnv.is

GANGNASEÐILL 2007

Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 15. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag. Göngurnar verða unnar af hestamannafélaginu Snarfara. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson. Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir og hrossarétt Rögnvaldur Ottósson. 1. Göngur: Menn frá Hestamannafélaginu Snarfara smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs. Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 15. september og réttað samdægurs. Bæði fjárrétt og hrossarétt verður þann dag. Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið. 2. Eftirleit fer fram laugardaginn 22. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag. Í eftirleit leggi þessir til menn: Ásgeir Axelsson 2 menn Rögnvaldur Ottósson 2 menn Eðvarð Ingvason 1 mann Rúnar Jósefsson 1 mann Gangnaforingi verði Rögnvaldur Ottósson 3. Fjárskil verða sunnudaginn 30. september á Sölvabakka á þau mæti Ásgeir Axelsson fyrir fjallskiladeild Skagastrandar 4. Útréttir: Í fyrri Fossárrétt hirðir Gunnlaugur Sigmarsson Í seinni Fossárrétt hirðir Rögnvaldur Ottósson Í seinni Kjalarlandsrétt hirðir Eðvarð Ingvason 5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar. Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu. Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra. Skagaströnd 12. september 2007 _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.

Dregur til stórtíðinda á Ströndinni

Lárus Ægir Guðmundsson hefur fjárfest í nýjum bíl, svörtum eðalvagni af Toyotu gerð. Eftir 550.000 kílómetra akstur á gömlu Toyotunni í samfellt 16 ár hefur Lárus loksins keypt sér nýjan bíl. Gamla gráa Toyotan er því til sölu, fæst fyrir lítið að sögn fróðra manna.

Nýtt sóknarfæri í sjávarútvegi

Háskólinn á Akureyri og BioPol ehf, nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, skrifuðu í dag undir samning um samstarf á sviði sjávarlíftækni. Jákvæð áhrif á byggðarþróun á Skagaströnd. Styrkum stoðum rennt undir nýtt rannsóknarfyrirtæki í sjávarútvegi. Rannsóknir á lífríki Húnaflóa eru meðal þess sem ráðist verður í samkvæmt nýjum samningi á milli BioPol ehf. og Háskólans á Akureyri. BioPol ehf. er nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd sem er ætlað að standa að margvíslegum rannsóknum m.a. á lífríki Húnaflóa, líftækni og nýsköpun. „Ætlun okkar er að stuðla að nýjum áherslum í atvinnumálum á Skagaströnd,“ segir Adolf Berndsen, oddviti Skagastrandar og stjórnarformaður BioPol. „Í kjölfar þeirra breytinga sem hafa orðið á sjávarútvegi Íslendinga er gríðarlega mikilvægt að atvinnulífið sé vakandi fyrir tækifærum í sjávarútvegi. Okkar von er að þetta fyrirtæki komi til með að vera brautryðjandi í rannsóknum á lífríki hafsins og skapa fjölmörg störf í sjávarbyggðum allt í kringum Ísland, þegar fram líða stundir. Þess má til dæmis geta að talið er að aðeins um 1% lífvera sjávar hafi verið kannaðar að einhverju marki og því eru viðfangsefnin nær óþrjótandi.“ Jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun Bæði forsvarsmenn BioPol og Háskólans á Akureyri eru bjartsýnir á að stofnun fyrirtækisins og samningurinn muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu. Þá mun samstarfið ótvírætt stuðla að aukinni þekkingu á helstu auðlind Íslendinga, hafinu sem umlykur landið. Þessu til viðbótar mun samningurinn efla hagnýtar rannsóknir á sviði sjávarlíftækni, sem getur haft í för með sér umtalsverða verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag. Eins og áður sagði mun kjarnastarfsemi BioPol ehf. byggja á rannsóknum á lífríki Húnaflóa, rannsóknum á vettvangi líftækni, nýsköpunar og markaðsetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum. Auk þess verður fræðsla á háskólastigi í tengslum við fyrrgreindar rannsóknir ásamt varðveislu lífsýna úr sjávarlífríki við Ísland. Þá er ætlunin að BioPol ehf. og Háskólinn standi árlega saman að málstofu um sjávarlíftækni þar sem farið verður yfir stöðu verkefna sem samstarfið hefur leitt af sér og ávinning af samstarfinu. Auk þess skal stefnt að því að opna netsvæði þar sem safnað verður saman upplýsingum um rannsóknarverkefni samstarfsaðila á sviði sjávarlíftækni. Í eigu Skagastrandar Undanfarna mánuði hefur Sveitarfélagið Skagaströnd unnið að stofnun setursins í samvinnu við ýmsa aðila. Sveitarfélagið er nú eigandi setursins en ætlunin er að fjölga hluthöfum og samstarfsaðilum á næstu misserum. Í stjórn BioPol ehf. sitja fimm manns og mun Háskólinn á Akureyri skipa einn þeirra án tillits til eignarhalds eða eignaraðildar. Dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor í viðskipta og raunvísindadeild HA verður fulltrúi skólans í stjórninni. Meginmarkmið samningsins við Háskólann á Akureyri er að efla samstarf varðandi rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknarverkefni og liggur helsti styrkleiki samstarfsins í samlegð ólíkrar sérfræðiþekkingar og þar með meiri líkum á árangri stærri rannsókna- og þróunarverkefna. Fyrir á Skagaströnd er líftæknifyrirtækið Zero ehf. sem vinnur að framleiðslu bragðefna með sérþróuðum aðferðum sem gerir fyrirtækið einstak í sinni röð í heiminum. Samnýting fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar Einnig er stefnt að aukinni samnýtingu fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar til þess að stuðla að framgangi hagnýtra rannsókna á sviði sjávarlíftækni og þar með hugsanlega verðmætasköpun. Ætlunin er að Háskólinn á Akureyri hafi aðgang að húsakynnum, búnaði og gögnum BioPol ehf. til kennslu og rannsókna á sviði sjávarlíftækni og annarra þeirra verkefna sem tengjast starfseminni. Verkefnisstjóri, með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpunar og atvinnuþróunar, mun koma frá Háskólanum. Hlutverk hans verður fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og umsjón rannsóknarverkefna. BioPol ehf. leggur til aðgengi að sérfræðiþekkingu og aðstoð við mótun rannsóknarverkefna og útfærslu þeirra. Skipuð verður sameiginleg stýrinefnd sem hefur það hlutverk að sjá um framkvæmd samningsins og undirsamninga sem honum tengjast. Árangur samstarfsins verður metinn af nefndinni, en í henni munu eiga sæti tveir fulltrúar frá hvorum aðila og mun hún funda a.m.k. á sex mánaða fresti. Formleg undirskrift samningsins var miðvikudaginn 5. september kl. 11.00 í anddyri Borga, Háskólanum á Akureyri. Samninginn undirrituðu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans og Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. og oddviti Skagastrandar. Frekari upplýsingar gefa: Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol ehf. Sími 8570443 Dr. Hjörleifur Einarsson Prófessor við Háskólann á Akureyri Sími: 8969611 Magnús B. Jónsson sveitarstjóri Skagastrandar Sími 455 2700

Umsóknir um menningarstyrki

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á sviði menningarmála vegna ársins 2007. Um verkefnastyrki á grundvelli menningarsaming ríkisins og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur og sérstakar áherslur ársins 2007, menningarsamninginn og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að árið 2007 hafi þau verkefni forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað. Nýsköpun á sviði lista, menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu. Umsókn ásamt greinargóðri lýsingu á verkefninu með verk- og fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur og ábyrgðaraðila skal send Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Bjarmanesi, 545 Skagaströnd eigi síðar en 1. október 2007. Nánari upplýsingar veita Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra s. 892 3080, netfang menning@ssnv.is og Guðrún Helgadóttir formaður Menningarráðs Norðurlands vestra, s. 453 6585, netfang gudr@holar.is.

Laust starf

Starfsmaður óskast sem leiðbeinandi í félagsstarfi eldri borgara. Um er að ræða 50% starfshlutfall í afleysingu fram að áramótum vegna veikinda starfsmanns. Félagsstarfið er í Fellsborg mánudaga og fimmtudaga kl 13-17. Umsóknarfrestur er til 11. september nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Sveitarstjóri

Fréttabréf

Kæru Skagstrendingar Í ljósi þess að ýmislegt hefur verið til meðferðar og umfjöllunar sem ástæða er til að skýra og kynna er ykkur nú sent þetta fréttabréf. Nýtt nafn Nafni sveitarfélagsins hefur verið breytt og heitir það nú Sveitarfélagið Skagaströnd frá 1. september 2007. Nafnabreytingin er gerð í framhaldi af ákvörðun hreppsnefndar Höfðahrepps 12. júní sl. og byggðist m.a. á skoðanakönnun á meðal íbúanna. Skólamáltíðir Á fundi sínum 27. ágúst sl. ákvað sveitarstjórn að taka upp skólamáltíðir við Höfðaskóla. Í framhaldi af þeirri ákvörðun hefur verið samið við Kántrýbæ um að taka að sér matreiðslu og sjá fyrir aðstöðu. Hefjast skólamáltíðir þar mánudaginn 17. september nk. Nemendur þurfa að skrá sig í máltíðir þrjá eða fjóra daga vikunnar, mánudaga til fimmtudaga. Hver máltíð kostar 250 krónur og er þar einungis rukkað fyrir áætluðum hráefniskostnaði. Skólastjóri hefur þegar sent forráðamönnum skólabarna kynningarbréf og eyðublað til skráningar. Frístundakort Á síðasta fundi hreppsnefndar Höfðahrepps 27. ágúst sl. var samþykkt að gefa út frístundakort fyrir alla einstaklinga í sveitarfélaginu á grunnskólaaldri. Fyrirkomulag frístundakortsins verður þannig: · Að það nýtist til skipulegs íþrótta- og æskulýðsstarfs á Skagaströnd. · Að það sé til greiðslu fyrir allt að 15.000 króna þátttökugjöldum á tímabilinu 1. september 2007 til 31. ágúst 2008. · Að það nái til starfsemi íþróttafélaga og skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur 6 vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjöldum. Kortið getur náð til allrar frístundaiðkunar, þ.m.t. tónlistar- og listnáms. · Að sú starfsemi sem frístundakortið getur náð til sé viðurkennd af sveitarstjórn. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarstjórnar. Framkvæmd notkunar frístundakortsins verður þannig að foreldrar greiða fyrir námskeiðið og koma með kvittun á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem þeir fá endurgreitt allt að 15.000 kr. fyrir frístundastarf barna sinna. Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf. Á vegum sveitarfélagsins hefur frá því í apríl á þessu ári verið unnið að stofnun sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd í samstarfi við dr. Hjörleif Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi af undirbúnings- og stefnumótunarvinnu stofnaði sveitarfélagið Sjávarlíftæknisetrið Bio Pol ehf. Stofnfé þess er 7 milljónir króna. Markmið eigenda og stjórnenda BioPol ehf er að koma upp rannsóknar- og vísindasetri sem geti skapað þekkingu, störf og verðmæti í framtíðinni. Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri BioPol ehf. Þegar hafa verið lögð drög að samstarfi við Háskólann á Akureyri með samstarfssamningi sem undirritaður verður 5. september nk. Einnig hefur verið stofnað til sambands við Scottish Association for Marine Science í Skotlandi. Meginstarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna geta m.a. beinst að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig gæti rannsóknarstarfið beinst að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum. Á vettvangi lífríkisrannsókna er stefnt að því að byggja upp samstarf við sambærilegar rannsóknarstofur bæði innan lands og utan. Við rannsóknir á vettvangi sjávarlíftækni verður lögð áhersla á að kortleggja þau verðmæti sem þekkt eru ásamt því að leita nýrra verðmæta og nýsköpunar, t.d á vettvangi fæðubótaefna, snyrtivara, sem og íblöndunarvara fyrir matvæla- og fóðuriðnað. Skrifstofa BioPol ehf er að Bjarmanesi á Skagaströnd. Menningarfulltrúi Menningarráð Norðurlands vestra hefur ráðið Ingiberg Guðmundsson til starfa sem menningarfulltrúa. Forsendur ráðningarinnar eru gerð menningarsamnings milli ráðuneyta mennta- og samgöngumála annars vegar og SSNV hins vegar um eflingu mennigarstarfs á svæðinu. Starfssvið menningarfulltrúa er m.a. dagleg umsýsla fyrir menningarráðið, fagleg ráðgjöf og efling samstarfs að menningarmálum. Ingibergur hóf störf 1. september sl. og hefur skrifstofu að Bjarmanesi á Skagaströnd. Með góðri kveðju Magnús B. Jónsson sveitarstjóri