Opið hús í Nes listamiðstöð

Opið hús í Nes listamiðstöð laugardaginn 28.jan frá kl. 15:00-17:00 Allir velkomnir!

Gatnagerðagjald fellt niður á ákveðnum lóðum.

Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 26. janúar 2017 var svohljóðandi samþykkt gerð:   Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkir að auglýsa sérstaklega byggingarlóðir við þegar tilbúnar götur þannig að veittur verði afsláttur allra gatnagerðagjalda vegna bygginga á lóðunum.   Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að eftirfarandi ákvæði gildi um úthlutun allt að fjögurra íbúðarhúsalóða sem afslátturinn muni ná til: ·        Lóðirnar sem um ræðir eru skilgreindar á meðfylgjandi lista. ·        Umsóknir um lóðirnar skulu berast eigi síðar en 1. maí 2018 en umsóknir sem berast á umsóknarfresti verða afgreiddar af hafnar – og skipulagsnefnd eftir því sem efni standa til og gildir röð umsókna um nýtingu fyrrgreinds afsláttar. ·        Við úthlutun lóðanna skulu gilda ákvæði um að byggingarframkvæmdir skuli vera hafnar innan árs frá úthlutun og að byggingar skuli hafa hlotið fokheldisvottorð innan tveggja ára, að öðrum kosti fellur niður ákvæði um afslátt gatnagerðagjalda.   Lóðir sem falla undir framangreint ákvæði um afslátt eru: ·        Bogabraut – ein lóð norðan götu nr: 25. ·        Suðurvegur – þrjár lóðir austan götu nr: 5,7 og 11 ·        Sunnuvegur – tvær lóðir vestan götu nr: 10 og 12 ·        Ránarbraut – ein lóð norðan götu nr: 3 og fimm lóðir sunnan götu nr: 2, 4, 6, 8 og 10. ·        Oddagata – ein lóð austan götu nr: 3. ·        Hólanesvegur – ein lóð vestan götu nr: 6. ·        Skagavegur – tvær lóðir austan götu, nr: 4 og parhúsalóð nr: 6-8. ·        Bankastræti – ein lóð sunnan götu nr. 5. Samtals eru í boði 17 lausar lóðir við þegar tilbúnar götur.   Sveitarstjóri

Húsnæðisstuðningur vegna 15-17 ára námsmanna .

Foreldrar eða forsjáraðilar námsmanna yngri en 18 ára, sem leigja húsnæði vegna náms fjarri lögheimili, eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi vegna barna sinna samkvæmt reglum um sérstakar húsnæðisbætur sem sveitarstjórn hefur samþykkt. Þar segir m.a. um húsnæðisstuðning til 15-17 ára barna: Foreldrar/forsjáraðilar geta sótt um stuðninginn á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastandar. Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja húsnæði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Með húsnæði er átt við herbergi á heimavist eða námsgörðum eða sambærilega aðstöðu á almennum markaði. Þegar fleiri en einn nemandi leigja saman íbúð getur húsnæðisstuðningur náð til þeirrar leigu enda sé gerður leigusamningur við hvern og einn. Um leigu á almennum markaði er gerð krafa um að hvorki umræddur nemandi né aðrir sem leigja húsnæðið séu náskyldir eða mikið tengdir leigusala. Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna nemenda skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 50% af leigufjárhæð. Húsnæðisstuðningur vegna nemenda getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 45.000 kr./mánuði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Reglurnar í heild má finna á heimasíðunni undir "Samþykktir" Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Kvenfélagskonur Þessar prúðbúnu kvenfélagskonur gengu um beina á þorrablóti Einingar í gömlu Tunnunni. Myndin var tekin af þeim á sviðinu og myndin á bakvið þær er hluti leiktjalda sem Sveinbjörn Blöndal (d. 7.4.2010) hafði málað. Ekki er vitað hvenæar myndin var tekin en það hefur sennilega verið einhverntíma á sjöunda áratugnum. Á myndinni eru frá vinstri: Elísabet Árnadóttir (Bebbý), Jóhanna Gunnlaugsdóttir (d. 18.4.2012), Sigríður Ásgeirsdóttir (d. 11.12.2006), Gestheiður Jónsdóttir (d. 6.11.2010), Anna H. Aspar (d. 1.9.1999), Helga Berndsen og Karla Helgadóttir (d. 25.9.1986). Á þessum tíma útbjuggu kvenfélagskonurnar sjálfar allan matinn sem í boði var á blótinu nema harðfiskinn og hákarlinn. Þær sáu samt um að það góðgæti væri í boði með því að fá valinkunna menn til að herða fisk fyrir sig og annan til að verka hákarlinn.

Næsti fundur sveitarstjórnar

  FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 26. janúar 2017 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins.   Dagskrá:   1.   Ísland ljóstengt 2017 2.   Reglur sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning 3.   Umsóknir um rekstrarleyfi v/sölu gistingar 4.   Samningur við Golfklúbb Skagastrandar 5.   Tillaga að aðgerðaáætlun um dekkjakurl 6.   Lífeyrisskuldbinding hjúkrunarheimila 7.   Tillaga um gatnagerðagjald 8.   Álagning fasteignagjalda 9.   Bréf a.    Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. desember 2016 b.    Hólaneskirkju dags. 12. desember 2016   10.               Fundargerðir: a.    Hafnar- og skipulagsnefndar, 14.12.2016 b.    Stjórnar SSNV, 6.12.2016 c.    Þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, 7.12.2017 d.    Aðalfundar Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, 9.12.2016 e.    Skólanefndar FNV, 15.12.2016 f.     Stjórnar Róta bs, 19.12.2016 g.    Stjórnar Sambands ísl sveitarfélaga, 16.12.2016   11.               Önnur mál                                          Sveitarstjóri  

Mynd vikunnar

Báturinn Skíði HU-8 fórst 22. nóvember 1961. Mynd vikunnar er af bræðrunum Hirti Hjartarsyni og Sveini Hjartarsyni frá Vík á Skagaströnd sem fórust með bát sínum Skíða HU-8. Í dagblaðinu Vísi birtist eftirfarandi frétt 23.nóvember 1961: "Óttast að tveir bræður hafi farizt. Norður á Skagaströnd óttast menn mjög að tveir bræður hafi farizt í róðri í gærdag. — Bræðurnir sem eru Hjörtur og Sveinn Hjartarsynir eiga heima á Skagaströnd og eru menn einhleypir. í gærdag hófst leitin, og hefur henni verið haldið látlaust áfram þrátt fyrir stórsjó og hríð á Húnaflóa. Laust fyrir hádegið átti blaðið tal við Skagaströnd. Var þá tíðindalaust af leitinni, sem varðskipið Óðinn hefur haldið uppi í alla nótt. Var flokkur manns farinn á fjörur. Lítilsháttar frost var, hvasst og hríð. Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru synir Hjartar Klemenzsonar sem er maður við aldur og sjálfur stundaði sjómennsku. Um klukkan 1,30 í gærdag voru bræðurnir undan Skallarifi. Þeir voru þá að draga línuna, en höfðu slitið hana og voru að leita. Var þá orðið hvasst. Var ákveðið að þeir skyldu láta til sín heyra um klukkan 3. Er um 2 og 1/2—3 tíma sigling frá Skagaströnd á þessi mið. Vélskipið Húni var í róðri. Kl. 3 er ekkert heyrðist frá bræðrunum hélt Húni þegar á vettvang og leitaði hann á allri leiðinni frá Skallarifi og inn, en árangurslaust. Í gærkvöldi voru 10 vindstig á Skagaströnd og mikill sjór og hríð. Varðskipið Óðinn kom á vettvang og hóf að leita, og leitaði enn í morgun en hafði einskis orðið var. Óttast sjómenn á Skagaströnd, að brot hafi komið á bátinn, en sjólag er mjög slæmt undan Skallarifi. Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru menn á fertugsaldri og hafa stundað sjóinn í sameiningu á bát sínum, en hann var 8 tonn dekkbyggður". Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar. Gefandi: Birgir Árnason Straumnesi á Skagaströnd.

Mynd vikunnar

Á skátamóti Þessi mynd var tekin á einhverju móti skáta frá Skagaströnd og Blönduósi kringum 1960. Eins og sjá má á fjölda skáta á myndinni var skátastarfið afar vinsælt meðal ungmenna á stöðunum tveimur. Standandi á myndinni eru, frá vinstri: Jón Ísberg (d. 24.6.2009) félagsforingi á Blönduósi, þrír óþekktir, Árni Ólafur Sigurðsson í köflóttri skyrtu, fimm óþekktir, Jóhann Björn Þórarinsson, Kristinn Lúðvíksson (d.15.6.2016), Pétur Jóhannsson, Birgir Júlíusson, Hallbjörn Björnsson, Jóhann Ingibjörnsson, Hrafnhildur Jóhannsdóttir, óþekkt, Brynja Axelsdóttir, Frímann Lúðvíksson, Jóhanna Valdimarsdóttir, Sigríður Pálsdóttir, óþekkt og Þórður Jónsson (d. 25.12.2010) félagsforingi Sigurfara á Skagaströnd. Krjúpandi frá vinstri: Stefán Ingólfsson (d.21.10.2004), Örn Berg Guðmundsson, þrír óþekktir, Helgi Bjarnason (d.1.3.2007), Sigurjón Ástmarsson, fjórir óþekktir, ?Sigurður Hjálmarsson?, óþekktur, Steindór Haraldsson (nær), óþekktur (fjær), sjö óþekktir skátar, Margrét Valdimarsdóttir, Kolbrún Jónsdóttir, óþekkt, Fjóla Jónsdóttir og Jóhanna Hallgrímsdóttir. Ef þú þekkir einhvern af óþekktu skátunum vinsamlega sendu okkur þá athugasemd annað hvort með myndinni eða á netfangið: myndasafn@skagastrond.is.

KÖNNUN Á ÁFORMUM MARKAÐSAÐILA VARÐANDI UPPBYGGINGU FJARSKIPTAINNVIÐA

Fyrirhuguð er lagning ljósleiðara í Sveitarfélaginu Skagaströnd, sem veita á öruggt þráðbundið netsamband í dreifbýli sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að tengja öll lögheimili í sveitarfélaginu sem ekki hafa þegar verið tengd. Einnig standi eigendum frístundahúsa og fyrirtækja, sem staðsett eru í dreifbýli Skagastrandar, til boða að tengjast ljósleiðaranum. Gert er ráð fyrir að öllum þjónustuveitum verði heimilað að bjóða þjónustu sína á ljósleiðarakerfinu gegn gjaldi. Auglýst er eftir:  A. Aðila, eða aðilum, sem sannanlega ætla að koma á ljósleiðaratengingu eða annarri a.m.k. 100Mb/s þráðbundinni netþjónustu á Skagaströnd utan þéttbýlis á árinu 2017 á markaðslegum forsendum. B. Hæfum aðila, eða aðilum, til að taka að sér að byggja upp ljósleiðarakerfi með stuðningi frá opinberum aðilum og e.t.v. reka til framtíðar, komi til þess að enginn aðili svari lið A. hér að ofan. Aðilar sem óska eftir stuðningi skulu uppfylla tilteknar kröfur um fjarskiptaleyfi, fjárhagslegan styrk, reynslu af uppbyggingu og rekstri sambærilegra kerfa, raunhæfa verkáætlun o. fl. C. Eiganda mögulegra fyrirliggjandi fjarskiptainnviða á Skagaströnd sem er tilbúinn að leggja þá til við uppbygginguna gegn endurgjaldi sem bjóðist öllum sem lýsa yfir áhuga á uppbyggingu samkvæmt B. hér að ofan á jafnræðisgrundvelli. Áhugasamir skulu senda tilkynningu til skrifstofu sveitarfélagsins á netfangið skagastrond@skagastrond.is fyrir kl. 12:00 þann 10. janúar 2017. Í tilkynningunni skal koma fram nafn og kennitala aðila, auk upplýsinga um ofangreint eftir því sem við á. Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum og skýringum og skulu slíkar fyrirspurnir sendar á netfangið: skagastrond@skagastrond.is Áhugakönnun þessi er ekki skuldbindandi, hvorki fyrir sveitarfélagið né þá sem sýna verkefninu áhuga.   Sveitarfélagið Skagaströnd Magnús B. Jónsson sveitarstjóri  

Mynd vikunnar

Skagaströnd Mynd af Skagaströnd, líklega tekin rétt fyrir 1950. Hafnarhúsið er komið á sinn stað en það var upphaflega byggt á hafnarsvæðinu þar sem síldarverksmiðjan reis seinna. Framan við það (vestan við það) er "Dokkin", sem átti að verða lífhöfn fyrir litla báta en var aldrei notuð sem slík. Hún var svo fyllt upp með sanddælingu þegar verið var að dýpka höfnina. Uppfylling er komin fyrir Skúffugarðinn en ekki er búið eð reka niður stálþilið sem þar er. Mörg húsanna á myndinni eru nú horfin en önnur komin í staðin.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Erlingur Hugi Kristvinsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi föstudaginn 6. janúar 2017. Tímapantanir í síma 455-4100 milli kl 08:00 og 16:00.