03.12.2004
Fimmtudagskvöldið 2. des. sl. var aðventustemming í
Viðvíkurkaffi. Boðið var upp á upplestur og lifandi
tónlist. Guðný, Steindór og Árdís lásu upp úr
áhugaverðustu bókunum og Hrafnhildur söng nokkur
jólalög við undirleik Elíasar. Allt þetta fólk skilaði sínu
með miklum ágætum. Steindór gat auðvitað ekki stillt
sig um að fleyta nokkrum skemmtisögum frá eigin
brjósti með upplestrinum og var í sínum besta ham.
Hrafnhildur skilaði jólalögunum á einstaklega
skemmtilegan hátt. Húsfyllir var á kaffihúsinu og
stemningin notaleg. Í kjallara kaffihússins var opið
jólahús þar sem handverksfólks á Skagaströnd hafði
muni sína til sölu. Þar gat m.a. að líta listmuni úr gleri
og járni, silfursmíð, trémuni, kort úr þangi, ýmis plögg
úr flóka og fjörusteina með jólaandlitum svo eitthvað sé
nefnt. Í Viðvíkurkaffi stendur einnig yfir málverkasýning
Jóns Ívarssonar sem sýnir olíumyndir á striga.
Kaffihúsið og markaðurinn verða opin laugardaginn 4.
des. kl 18-22 og sunnudaginn 5. des. kl 14-19. Einnig
verður opið þriðudaginn 7. des. og fimmtudaginn 9.
des. kl 20-22. Á þriðjudagskvöldinu verður upplestur.
Heimsókn í Viðvíkurkaffi og jólahús góð tilbreyting í
amstri jólaundirbúnings og sjón sögur ríkari.
02.12.2004
Nú fer að hefjast innritun á vorönn hjá þeim skólum
sem eru með fjarnám. Því ættu þeir sem hafa verið að
hugsa um að fara í fjarnám að taka sig til og kynna sér
hvað þeim stendur til boða.
Í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám,
nokkrar tölvur og lestofa. Nú er verið að tengja
fjarfundabúnað sem þýðir að eftir áramót er hægt að
sitja kennslustundir í Námsstofunni.
Fyrri hluta desember standa yfir þau próf sem
fjarnámsnemendur fá leyfi til að taka í Námsstofunni.
Þetta eru 32 próf sem 16 fjarnámsnemendur taka við 4
skóla. Síðan eru nokkrir fjarnámsnemendur sem taka
sín próf í sínum skóla. En alls eru 23 með samning um
að nýta aðstöðuna í Námsstofunni.
Hér eru nokkrir skólar sem bjóða upp á fjarnám:
Kennaraháskóli Íslands
Háskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólinn á Akureyri
Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra
Fjölbrautarskólinn við Ármúla
Háskóli Íslands
Háskólinn á Hólum
Háskólinn í Reykjavík
Tækniháskóli Íslands
Viðskiptaháskólinn á Bifröst
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri
Menntafélag byggingariðnaðarins
Rafiðnaðarskólinn
Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins
Hótel- og matvælaskólinn
Borgarholtsskólinn
Iðnskólinn í Reykjavík
Þessi listi er ekki tæmandi og skólarnir bjóða ekki upp
á alla sína námsskrá í fjarnámi. Auk skólanna bjóða
ýmsir aðilar alls konar áhugaverð námskeið í fjarnámi.
Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í
Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa
samband við undirritaðan.
Desember 2004
Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd
Hjálmur Sigurðsson
S: 8440985
02.12.2004
Landsbanki Íslands Skagaströnd bauð bæjarbúum í
aðventukaffi 1. desember þegar kveikt var á jólatré
bankans.
Allan daginn var boðið var uppá kakó og kaffi,
jólasmákökur og súkkulaðimola.
Frá kl. 14.00 lék svo Elías Björn Árnason jólalög á
hljómborð á meðan kakóið og smákökurnar runnu
ljúflega niður við þýða óma tónlistarinnar.
Bæjarbúar kunnu vel að meta góðgerðirnar og var
bekkurinn oft þétt setinn.
Mættust þar meðal annars yngstu bæjarbúarnir úr
leikskólanum Barnabóli og þeir elstu frá Dvalarheimilinu
Sæborg.
Almenn ánægja var með daginn, jafnt hjá gestum og
starfsfólki og ekki ólíklegt að þarna hafi verið búin til
hefð sem ekki verður rofin.