Kynningarfundur

Boðað er til kynningarfundar um niðurstöður á eftirfarandi rannsóknaverkefnum sem voru unnin á árinu 2013: Þarfagreining á námsframboði á Norðurlandi vestra Tilraunaverkefni um hækkað menntunarstig á Norðurlandi vestra Kynningarfundirnir eru öllum opnir og verða haldnir á eftirfarandi dögum: Miðvikudaginn 5. mars kl. 20:00 í húsnæði Rannsóknaseturs HÍ á Skagaströnd Fimmtudaginn 6. mars kl. 20:00 í Kvennaskólanum á Blönduósi Fulltrúar Farskólans verða á fundinum til að kynna nám og námskeið og svara fyrirspurnum í tengslum við niðurstöður þarfagreininganna. Rannsóknirnar eru liður í eflingu menntunar og atvinnulífs á svæðinu og því er mikilvægt að sem flestir sjái sér fært að mæta. Gert er ráð fyrir að kynningin taki u.þ.b. 45 mín. og síðan verða umræður á eftir. Heitt á könnunni – allir velkomnir!

Lýðræði og mannréttindi

Ný aðalnámskrá grunnskóla nýjar áherslur Í starfi skólanna í vetur hefur miklum tíma verið varið til að skoða hvað verið er að gera og hvað gera þarf frekar til að vinna í anda nýrrar aðalnámskrár og efla áherslur grunnþáttanna sex í skólastarfinu. Grunnþættirnir sex eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Ný aðalnámskrá og grunnþættirnir sex eiga að vera okkur leiðarvísir og fyrirmynd um áherslur, vinnulag og framsetningu í skólastarfinu. Einn grunnþáttanna, Lýðræði og mannréttindi, var til umfjöllunar á fræðslufundi 27. febrúar s.l. Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum- Save the Children á Íslandi, Kom til okkar til að fræða okkur um helstu áherslur og verkefni til að efla áherslur lýðræðis og mannréttindi í skólum sýslnanna. Á námskeiðinu var unnið með eftirfarandi verkþætti: Af hverju að kenna um mannréttindi og lýðræði í grunnskóla? -alþjóðlegir samningar, lög, aðalnámskrá og samfélagslegir þættir. Grunnþættir menntunar, hvernig þeir samþættast og eiga að vera samofnir öllu skólastarfi. Grunnþátturinn mannréttindi og lýðræði. Mannréttindi barna og réttur barna til að taka þátt og hafa áhrif. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna- mannréttindasamningur sem á við um öll börn. Hvernig geta skólar innleitt grunnþáttinn mannréttindi og lýðræði í daglegt skólastarf, námsgreinar, með námshópum og í samvinnu við grenndarsamfélagið? Þátttakendur voru níutíu og þrír og létu mjög vel af fræðsludeginum. „Það eru gömul sannindi og ný að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfinema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. Lengi má lagfæra menntastefnu, skipulag, námsgögn og skólabyggingar en ef breytingum er ekki fylgt eftir í skólunum skila þær ekki árangri. Innleiðing nýrrar hugsunar í skólastarfi byggist á góðri samvinnu menntayfirvalda við þá sem bera hitann og þungann af skólastarfinu.“ Katrín Jakobsdóttir fyrrum ráðherra mennta-og menningarmála Myndir: Þátttakendur og leiðbeinandi.

Mynd vikunnar

Ræktunarátak í Spákonufelli Á þessari mynd, sem Guðrún Guðbjörnsdóttir tók, er Sigfús Jónsson sveitarstjóri á Skagaströnd að gera fólki grein fyrir skipulagi áburðar- og frædreifingar í Spákonufelli af verönd skíðaskálans áður en verkið er hafið. Eins og sjá má mætti fjöldi fólks til að taka þátt í þessu ræktunarátaki þar sem grasfræi og áburði var dreift á melinn norðan og ofan við skíðaskálann. Fullorðna fólkið sem þekkja má á myndinni, sem var tekin snemma á níunda áratugnum, er talið frá vinstri: Jökulrós Grímsdóttir, Bjarney Valdimarsdóttir, Sigfús Jónsson (snýr baki í myndavélina), Elínborg Jónsdóttir (d. 7.1.2007), Elísabet Kristjánsdóttir (d. 21.3.1991) (í rauðum stakk), Gylfi Sigurðsson, Jón Ingi Ingvarsson (með húfu), Ólafur Bernódusson og síðan grillir í Svein Ingólfsson og Lárus Ægi Guðmundsson. Sigfús stjórnaði dreifingunni eins og herforingi. Skipaði fólki í raðir og skammaðist ef einhver fór svo fram úr öðrum við dreifinguna. Því miður varð árangur dreifingarinnar fremur lítill en seinna var plantað Alaska lúpínu í melinn og hefur hún rækilega fest rætur og gjörbreytt ásýnd Spákonufellsins með sínum bláu blómum á sumrin.

Vetrarfrí í tónlistarskólanum

Dagana 3.,4. og 5.mars verður vetrarfrí í tónlistarskólanum. Kennsla hefst aftur fimmtudaginn 6.mars samkvæmt stundarskrá. Kennarar

Mynd vikunnar

Á ferðalagi. Þetta fólk var saman á ferðalagi í rútu þegar áð var og myndin tekin. Líklega var myndin tekin í Giljareitum á Öxnadalsheiði og einnig er líklegt að hér sé um að ræða ferðalag kirkjukórsins á Skagaströnd en Páll Jónsson var organisti í Hólaneskirkju í einhver ár og margt af fólkinu á myndinni voru kórfélagar. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin. Á henni eru frá vinstri: fremst: óþekktur bílstjóri, Elísabet Frímannsdóttir (d. 1.9.1990) Jaðri, Guðmundur Guðnason (d. 12.11.1988) Ægissíðu, séra Pétur Þ. Ingjaldsson (d. 1.6.1996), Páll Jónsson (d. 19. 7.1979) Breiðabliki, óþekkt barn, Sigríður Guðnadóttir (d. 4.3.1964). Miðröð: Björn Haraldsson (d. 21.9.1988) Iðavöllum, Vilborg Jónsdóttir (d. ?) Bergi, Guðfinna Pálsdóttir Breiðabliki, Finnur Frímannsson (d. 18.3.1969) frá Jaðri, tvær óþekktar konur, Edda Pálsdóttir Breiðabliki, Ingibjörg Sæmundsdóttir en lengst til hægri er Hörður Ragnarsson (Dengsi). Aftasta röð: Elínborg Jónsdóttir (d. 7.1.2007) Röðulfelli, Sigríður Helgadóttir Skálholti, Sigurlaug Björnsdóttir (d. 7.9.1982) Iðavöllum, tveir óþekktir og Axel Helgason (d. ?) Læk. Ef þú þekkir óþekkta fólkið vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Kvikmyndahátíð á Skagaströnd

Kvikmyndahátíðin “The Weight of Mountains” er fyrsta kvikmyndahátíðin sem haldin er á Skagaströnd. Dagana 21.-23. febrúar nk. verður bíó í bænum þar sem ekkert bíó er lengur. Þema hátíðarinnar, sem er í umsjón Melody Woodnutt og Tim Marshall frá Nes listamiðstöð, er „Maðurinn og umhverfi hans“. Allar myndirnar, sem sýndar verða á hátíðinni, fjalla um það hvernig umhverfið hefur áhrif á okkur og hvernig við höfum áhrif á umhverfið. Tíu erlendir kvikmyndagerðarmenn hafa dvalið í Nes listamiðstöð á Skagaströnd í þrjá mánuði og unnið að undirbúningi þessarar kvikmyndahátíðar. Meðal annars áttu listamennirnir að gera stuttmynd á Skagaströnd um reynslu sína af gagnvirkum áhrifum íbúanna og umhverfisins.Aðgangur að hátíðinni er ókeypis. Nánari lýsing á kvikmyndahátíðinni er hér: https://www.dropbox.com/sh/t6bfjkc47mkb2zj/-AjIxmQfh8/TWOM%20Film%20Festival%20Program%202013.pdf

Hafnarframkvæmdir

Framkvæmdir eru nú hafnar við lengingu Miðgarðs í Skagastrandarhöfn. Verkið er fólgið í gerð trébryggju sem gerð úr Azobé harðvið og verður 40 m á lengd og 320m2 að flatarmáli. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður rúmar 40 milljónir og verklok eru áætluð í lok maí nk. Fyrsti hluti verksins sem nú er hafinn er rekstur staura í framlínu bryggjunnar. Þar sem botn hafnarinnar er úr mjög hörðum efnum þarf að bora og sprengja fyrir staurunum áður en þeir eru reknir niður. Dynkur sem heyrðis víða um Skagaströnd um kl 20.10 í gærkvöldi var vegna slíkrar sprengingar. Um er að ræða 28 staura og má því reikna með að dynkir af sprengingum heyrist og jafnvel finnist í nágrenni hafnarinnar næstu daga eða vikur. Íbúar á Skagaströnd eru beðnir að sýna þolinmæði gagnvart því ónæði sem framkvæmdirnar kunna að valda. Í öryggisskini er mikilvægt að allir virði þau fjarlægðarmörk sem verktaki setur á meðan sprengingar fara fram og að um vinnusvæði er að ræða. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Gamla útibúið. Þetta hús þjónaði sem útibú kaupfélagsins í mörg ár. Það var staðsett vestan við Holt eiginlega í suðvestur horni skólalóðarinnar sem nú er og út á götuna sem þar er (Oddagötu). Húsið komst svo í eigu Hestamannafélagsins Snarfara á Skagaströnd og ætluðu félagar í félaginu að fara með húsið upp að skeiðvelli sínum, sem er á melunum ofan og norðan við bæinn. Húsið var dregið af stað á símastaurum sem virkuðu eins og meiðar undir því. Þegar komið var með húsið að Snorrabergjunum og átti að fara þar upp voru staurarnir hins vegar uppeyddir og húsið komst aldrei lengra. Það var seinna rifið þarna sem það stendur á myndinni og aldrei reist við skeiðvöllinn.

Mynd vikunnar

Hreppsnefnd. Hreppsnefnd Höfðahrepps (nú Sveitarfélagið Skagaströnd) sennilega í einhverri spurningakeppni á sviðinu í Fellsborg eða á framboðsfundi. Frá vinstri: Kristinn Jóhannsson (d. 9.11.2002) sem var fulltrúi Alþýðubandalags í nefndinni, Jón Jónsson (d. 9.7.1991) sem var kosinn af lista Framsóknarflokksins, Bernódus Ólafsson (d. 18.9.1996) frá Alþýðuflokknum, Adolf J. Berndsen og Gylfi Sigurðsson sem báðir voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hreppsnefnd. Lengst til hægri situr Georg Hjartarson (13.9.2001) en hann var ekki í hreppsnefnd og hefur sennilega verið stigavörður eða tímavörður ef um framboðsfund var að ræða.

BioPol og HA undirrita samstarfssamning

Nýsköpunar- og sprotafyrirtækið BioPol ehf. á Skagaströnd og Háskólinn á Akureyri hafa með góðum árangri starfað saman í sex ár við rannsóknir í sjávarlíftækni. Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri heimsótti sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd 6. febrúar til að endurnýja samstarfssamning stofnananna tveggja. Fyrri samningur var gerður 2007 og var til fimm ára. Því var ástæða til að skrifa undir nýjan samning í ljósi mikillar ánægju beggja aðila með samstarfið Sjávarlíftæknisetrið BioPol sem stofnað var á Skagaströnd í september 2007 hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem meðal annars hafa miðað að því að kortleggja vannýtt tækifæri, til verðmætasköpunar, innan íslensks sjávarútvegs. Í dag starfa hjá félaginu átta vel menntaðir starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn. Á starfstíma félagsins hefur verið byggð upp fullkomin rannsóknaaðstaða. Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á meistaranám í sjávarútvegs og auðlindafræðum. Kennsla í sjávarútvegsfræði hefur frá upphafi farið fram í samstarfi við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum og þeirra á meðal er BioPol á Skagaströnd. Mikil ánægja hefur verið meðal forráðamanna og starfsmanna BioPol ehf. með samstarfið við Háskólann og sú ánægja er gagnkvæm. Í ljósi hefur nú verið gerður nýr samningur um áframhaldandi samstarf og fjallar hann einkum um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknaverkefni en helsti styrkleiki samstarfsins byggir á samlegð mismunandi sérfræðiþekkingar og meiri líkum á árangri með stærri rannsókna- og þróunarverkefnum. Sameiginlega markmið beggja er að að nýta sem best sérþekkingu þá sem samningsaðilar búa yfir auk þess sem samningnum er ætlað að bæta aðgengi vísindamanna og nemenda HA að sérfræðiþekkingu og aðstöðu BioPol og aðgengi sérfræðinga BioPol að sérfræðingum HA og aðstöðu. Í stjórn BioPol sitja fimm stjórnarmenn og þar af einn frá HA. Með þeim hætti leggur HA til verkefnisstjóra með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpun og atvinnuþróun. Starfsstöð hans er við Háskólann á Akureyri en verkefnið er fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og utanumhald rannsóknarverkefna. Allt frá stofnun BioPol hefur Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við HA sinnt þessu hlutverki. Samningurinn tilgreinir jafnframt að HA. heldur úti stöðu sérfræðings sem staðsettur er hjá BioPol á Skagaströnd en staðan er tilkomin vegna vinnu svokallaðar NV nefndar sem starfaði fyrir Forsætisráðuneytið árið 2008. Í dag er það Dr. Magnús Örn Stefánsson sem starfar undir merkjum háskólans hjá BioPol. Meginviðfangsefni Magnúsar hafa verið rannsóknir á frumverur með hagnýtingu og frekari atvinnuuppbyggingu í huga. Ný rannsóknaaðstaða Í tengslum við heimsókn háskólarektors var jafnframt tekin í notkun, með formlegum hætti, glæsileg viðbót við rannsóknaaðstöðu BioPol ehf. Við það tækifæri klipptu Stefán B. Sigurðsson háskólarektor og Adolf H. Berndsen stjórnarformaður BioPol á borða við inngang nýju rannsóknastofunnar. Um er að ræða aðstöðu sem sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að geta unnið með frumuræktir við „sterilar“ aðstæður. Frekari upplýsingar veita: Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol ehf. Sími 896-7977 Dr. Hjörleifur Einarsson Prófessor við Háskólann á Akureyri Sími: 460-8502