Björgunarskip Strandar

Björgnarskip Björgunarsveitarinnar Strandar og Björgunarbátasjóðs Húnaflóa kom til landsins á sunnudaginn var. Samskip flutti skipið frá á Englandi og skipaði því upp í Reykjavík. Verið er að undirbúa skipið til siglingar í heimahöfn á Skagaströnd og verður greint nánar frá komu þess þegar nær dregur. Um er að ræða fullbúið björgunarskip en Landsbjörg hefur á undanförum árum staðið fyrir átaki í að kaupa hingað skip frá Bretlandi og staðsetja víðsvegar um landið. Á meðfylgjandi korti sem fengið er frá Landsbjörgu má sjá staðsetningu björgunarskipanna og viðbragðstíma þeirra.

Flokksstjórar í Vinnuskóla

Höfðahreppur auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2005. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Höfðahrepps og er umsóknarfrestur til 4. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895.

Að muna eftir fuglunum

Við þekkjum öll viðkvæðið að muna eftir að gefa fuglunum í harðindum á vetrum. Það að gefa Fálka æti er þó óvananlegra en hann hefur verið í fæði á Hólanesinu um hríð. Ekki gerir hann sér allt að góðu en hefur verið sólginn í lambshjörtu og hefur fengið allt upp í 5 hjörtu á dag. Hefur hann fest ástfóstri við íbúana á Hólanesinu og hefur Inga í Straumnesi verið honum betri en enginn og fætt hann reglulega. Myndirnar tók Gunnlaugur Sigmarsson.

Sálmabókagjöf til Hólaneskirkju

Þann 21. mars s.l. færði kvenfélagið Eining á Skagaströnd Hólaneskirkju 30 sálmabækur að gjöf. Stjórn Einingar færði kirkjunni gjöfina fyrir hönd kvenfélagsins en sr. Magnús Magnússon sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli veitti bókunum viðtöku fyrir hönd safnaðarins og þakkaði við það tækifæri fyrir þessa góðu gjöf með von um að hún kæmi í góðar þarfir í helgihaldi framtíðarinnar. Á meðfylgjandi mynd má sr. Magnús taka við einni bók úr hendi Jóhönnu Sigurjónsdóttur formanns kvenfélagsins en baki henni eru aðrir stjórnarmeðlimir, Guðrún Soffía Pétursdóttir varaformaður, Ragnheiður Sandra Ómarsdóttir meðstjórnandi og Erla Hauksdóttir meðstjórnandi.

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps mánudaginn 21. mars 2005 á skrifstofu hreppsins kl 1600. Dagskrá: 1. Starfsleyfi fyrir sorpurðun. 2. Byggðakvóti. 3. Bréf: a) Byggðastofnunar, 8. mars 2005. b) Sambands ísl. sveitarf., 4. mars 2005. c) Forstöðumanns Löngumýrar, 8. mars 2005. d) Menntamálaráðuneytisins, 8. mars 2005 e) Skipulagsstofnunar, 11. mars 2005. 4. Fundargerðir: a) Ársfundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 2. nóv. 2004. b) Stjórnar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 17. nóv. 2004. c) Stjórnar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 18. jan. 2005. d) Stjórnar SSNV, 18. janúar 2005. e) Stjórnar SSNV, 21. febrúar 2005. f) Stjórnar SSNV, 2. febrúar 2005. g) Stjórnar SSNV, 14. mars 2005. 5. Önnur mál. Sveitarstjóri

Keppendur frá Umf. Fram á Íslandsmóti unglinga í badminton

Helgina 11.-13. mars var Íslandsmót unglinga í badminton haldið í TBR-húsunum í Reykjavík. Níu keppendur frá Umf. Fram tóku þátt í mótinu og kepptu öll í einliðaleik, fimm piltar í flokki Hnokkar C og D og 4 stúlkur í flokki Tátur C og D. Öll voru þau að keppa í fyrsta skipti á Íslandsmóti. Ekki var stefnt á önnur verðlaun en að vera valin prúðasta liðið. Þann titil hrepptu unglingar úr Hamri í Hveragerði en Umf. Fram varð í öðru sæti og fékk 10 box af fjaðraboltum í verðlaun, Í mótslok var fastmælum bundið að á næsta Íslandsmóti skyldu þau hampa bikarnum fyrir prúðasta liðið. Öll stóðu þau sig vel bæði sem keppendur og dómarar. Einn keppandinn, Stefán Velemir, komst í fjögurra manna úrslit í flokki Hnokkar D. Myndirnar eru teknar við setningu mótsins. Tómstunda- og íþróttafulltrúi.

Hafísmoli á reki

Í morgun blasti við einn hafísmoli utan við höfnina á Skagaströnd. Miklar stillur og fallegt veður skapaði skemmtilega stemmingu í morgunsárið þegar Alda HU sigldi út úr höfninni.

Nöfnur í slipp

Að undanförnu hefur verið unnið að því að gera Auðbjörgu SK 6, klára til sjósóknar. Norðurfar ehf keypti nýlega skipið og er það skráð á Hofsós. Skipið ber nafn nöfnu sinnar Auðbjargar HU 6 sem staðið hefur uppi í slippnum í nokkur ár. Auðbjörg HU 6 var keypt til Skagastrandar 1977 og var að mestu gerð út á rækju og skelveiðar. Þeim er ætlað ólíkt hlutverk í framtíðinni þar sem Auðbjörg SK 6 mun ætla að sækja áfram sjóinn en hugmyndir eru uppi um að Auðbjörg HU 6 verði varðveitt á Akureyri til minnis um fyrsta frambyggða bátinn en hann var byggður árið 1960 í Slippstöðinni á Akureyri.

Fréttabréf Barnabóls 2005

Vek athygli á 2. fréttabréfi Barnabóls 2005 og mánaðarskipulagi fyrir mars og apríl.

Félagsmiðstöðin í dorgveiði á Langavatni

Laugardaginn 26. febrúar fór “Útivistarklúbbur” félagsmiðstöðvarinnar “Undirheima” á Skagaströnd að Langavatni í dorgveiði undir styrkri stjórn klúbbstjórans Patriks Snæs Bjarnasonar. Engum öðrum sögum fer af veiði en að ekki náðist að veiða allan kvótann. Veðrið lék við veiðimennina sem reyndu fyrir sér á nokkrum stöðum í vatninu. Ætlunin er að fara í aðra veiðiferð seinna í vetur. Tómstunda- og íþróttafulltrúi.