Hirðing brotamálma

Ágætu Skagstrendingar. Nú stendur yfir átak í hreinsun brotamálma. Mjög víða er að finna ýmsa málmhluti sem hafa lokið hlutverki sínu og nýtast best sem endurunnin málmur í nýja hluti. Til þess að svo megi verða þarf að koma þeim í endurvinnslu. Héraðsnefnd hefur gert samning við Hringrás ehf. um brottflutning allra brotamálma af svæðinu til endurvinnslu. Sérstakt átak er gert til að mögulegt verði að ná sem bestri hagkvæmni út úr því verkefni. Við leitum því eftir samstarfi við ykkur um hreinsun á brotamálmum bæði stórum og smáum og biðjum ykkur að koma þeim á söfnunarsvæðið í gryfjunum á Fellsmelum. Sérstök ástæða er til að minna á ónýta bíla sem finna má nokkuð víða um bæinn. Talning á númerslausum bílum innan þéttbýlismarka hefur gefið vísbendingu um allt að 50 óskráða bíla á staðnum. Mögulegt er að fá 15 þús. króna endurgreiðslu ef bílar eru skráðir ónýtir og þeim skilað til endurvinnslu. Skrifstofa Höfðahrepps gefur út kvittun fyrir afskráningu slíkra bíla gegn framvísun skráningarskírteina eftir að þeim hefur verið komið í brotajárn í samráði við starfsmenn sveitarfélagsins. Þá er ástæða til að minna á að heilbrigðisfulltrúi getur látið fjarlægja slíkar bifreiðar á kostnað eigenda ef þær eru orðnar ónýtar og taldar til óþrifnaðar. Skagaströnd, 29. nóvember 2006. Sveitarstjóri

Góður árangur unglinga úr Húnaþingi á frjálsíþróttamóti

Unglingar úr Húnaþingi náðu góðum árangri á frjálsíþróttamóti sem haldið var í Boganum á Akureyri um síðustu helgi. Alls tóku 25 unglingar þátt í mótinu og er óhætt að segja að þeir hafi staðið sig með miklum sóma enda stigu þeir alls 20 sinnum á verðlaunapall og þar af sjö sinnum sem sigurvegarar. Má þar nefna að þeir Stefán Velemer, Sæþór Bragi og Magnús Örn fögnuðu þreföldum sigri í kúluvarpi 11-12 ára. Torfi Friðriksson fagnaði sigri í 60 metra hlaupi á glæsilegum tíma í sinnu fyrstu keppni í hlaupi á ævinni. Hilmar Þór Kárason sigraði bæði í 60 metra og 800 metra hlaupi. Sigmar Guðni Valberg sigraði bæði hástökk og kúluvarp. Fyrir utan þennan góða árangur voru margir að bæta sinn persónulega árangur. Húnvetnsku unglingarnir komu svo sannarlega á óvart á mótinu og var umtalað hversu öflugan hóp þjálfari liðsins, Guðmundur Þór Elíasson væri með og hversu gott starf væri unnið í Húnaþingi á sviði frjálsíþrótta. Það vekur þó athygli að aðeins eru tvær frjálsíþróttaæfingar í sýslunni á viku en flestir þeir sem tóku þátt í mótinu á Akureyri æfa frjálsar íþróttir 4-5 sinnum í viku. Óhætt að segja að Húnvetningar eigi mikið af mjög efnilegu frjálsíþrótta fólki sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni ef rétt verður haldið á málum. Frekari úrslit úr mótinu má finna á www.fri.is. Heimild og myndir frá Húnahorninu.

Strákar/stelpur: Mismunandi áherslur í kennslu og uppeldi?

Þann 8. nóv. s.l. var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar námskeið um áherslur Hjallastefnunnar í skóla og uppeldisstarfi. Námskeiðið byggði á fyrirlestri Margrétar Pálu Ólafsdóttur, skólastjóra og frumkvöðli, um mögulegt tap stúlkna og drengja í kynjablönduðum hópum í leik og starfi. Einnig fjallaði hún um hvernig byggja megi upp mismunandi áherslur og leiðir í kennslu stúlkna og drengja til hagsbóta fyrir alla. Margrét Pála kynnti kynjanámskrá Hjallastefnunnar sem leið að jafnréttiskennslu. Sjötíu starfsmenn skólanna í Húnavatnssýslum mættu til að læra af Margréti Pálu. Allir virtust mjög ánægðir með námskeiðið, sem sagt var bæði lærdósmríkt og skemmtilegt. Fundað var í félagsheimilinu Ásbyrgi, Laugarbakka. Mynd: Allir þátttakendur, Leiðbeinandi fyrir miðju fremst.

2+2=4?

Þann 2. nóv. s.l. var haldin á vegum Fræðsluskrifstofunnar málstofa um Kennslu í stærðfræði. Tuttugu og einn kennari grunnskólanna í Húnavatnssýslum mættu til að bera saman bækur sínar. Farið var yfir nýjustu áherslur, aðferðir, námsefni, námsmat og verkefni tengt kennslu greinarinnar. Málstofan byggðist á verkefnaskiptum og umræðum um mismunandi leiðir í kennslu námsefnisins. Umsjónarmaður málstofunnar var Sigríður Adnegaard, aðstoðarskólastjóri. Málstofan var haldin í Grunnskólanum á Blönduósi. Kennararnir voru mjög ánægðir með fundinn og ákváðu að halda samstarfi áfram, með því að hittast og hafa samskipti á netinu. Mynd Allir þátttakendur, Leiðbeinandi og fræðslustjóri standandi

Byggingarlóðir án gatnagerðagjalda

Hreppsnefnd Höfðahrepps hefur ákveðið að auglýsa sérstaklega byggingarlóðir við þegar tilbúnar götur þannig að veittur verði afsláttur allra gatnagerðagjalda vegna bygginga á lóðunum. Hreppsnefnd samþykkir jafnframt að eftirfarandi ákvæði gildi um úthlutun allt að fjögurra íbúðarhúsalóða sem afslátturinn muni ná til: · Lóðirnar sem um ræðir verða skilgreindar á lista sem hreppsnefnd samþykkir. · Umsóknir um lóðirnar skulu berast eigi síðar en 31. desember 2006 en umsóknir sem berast á umsóknarfresti verða afgreiddar af skipulags- og byggingarnefnd eftir því sem efni standa til og gildir röð umsókna um nýtingu fyrrgreinds afsláttar. · Við úthlutun lóðanna skulu gilda ákvæði um að byggingarframkvæmdir skuli vera hafnar innan árs frá úthlutun og að byggingar skuli hafa hlotið fokheldisvottorð innan tveggja ára, að öðrum kosti fellur niður ákvæði um afslátt gatnagerðagjalda Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu Höfðahrepps. Skagaströnd, 2. nóvember 2006. Sveitarstjóri