Árshátíð Höfðaskóla

Árshátíð Höfðaskóla verður haldin í Fellsborg föstudaginn 31. mars 2017 og hefst kl. 19:30. Húsið opnar kl. 19:00 Dagskrá: - Skemmtiatriði frá öllum bekkjum - Diskótek 1. – 6. bekkur - til kl. 22:30 7. – 10. bekkur - til kl. 23:30 Aðgangseyrir: 1500 kr. Grunnskólanemar og yngri : aðgangur ókeypis Allir hjartanlega velkomnir Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla

Mynd vikunnar

Golfarar 1991 Golfarar sem tóku þátt í golfmóti á Hágerðisvelli 1991 raða sér upp við nýreistan golfskálann á vellinum. Frá vinstri: Karl Berndsen (d. 12.2.1995), Dagný Sigmarsdóttir, Adolf H. Berndsen, Soffía Pétursdóttir, óþekktur, Hjördís Sigurðardóttir, Kristín Mogesen, (krýpur), Ingibjörg Fríða Hafsteinsdóttir, Fanney Zophaníasdóttir, Ingibergur Guðmundsson, óþekktur, Jón Sigurðsson, Árni Jónsson (með svarta húfu) , óþekktur, Guðmundur Kristinsson, þrír óþekktir og Vilhelm Jónsson. Ef þú þekkir óþekkta fólkið vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Bjarmanes – Fellsborg – Tjaldstæðið Höfðahólum

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur ákveðið að auglýsa Fellsborg og Tjaldstæðið Höfðahólum til leigu auk Bjarmaness sem áður hefur verið auglýst. Mögulegt er að óska eftir leigu á öllum þessum einingum, tveimur saman eða hverri fyrir sig. Sveitarstjórn mun meta umsóknir með tilliti til þess hvaða nýir möguleikar kunni að liggja í samningum um einstakar einingar eða allar saman. Kaffi-og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd er fallegt steinhús, byggt 1913 en var allt endurbyggt 2004,og hefur þann einstaka anda sem einkennir mörg gömul hús. Það stendur miðsvæðis með góðu útsýni yfir höfnina og Húnaflóann. Félagsheimilið Fellsborg var byggt árið 1965. Í húsinu eru 2 misstórir salir, sem nýttir hafa verið til skemmtanahalds, leiksýninga, ættarmóta, fatamarkaða og fl. Bókasafn Sveitarfélagsins er á neðri hæð sem og félagsstarf eldri borgara. Kvenfélagið Eining og UMF Fram hafa þar einnig aðstöðu. Við húsið er íþróttavöllur staðarins og einnig ágæt aðstaða fyrir tjöld og tjaldvagna sem hefur einkum verið nýtt í tengslum við ættarmót sem haldin eru í húsinu. Tjaldsvæðið í Höfðahólum er á skjólsælum og rólegum stað efst í byggðinni og horfir á móti sólu. Í miðju svæðisins er gamall bæjarhóll þar sem bærinn Höfðahólar stóðu. Svæðið er í fallegu umhverfi og nýtur skjóls til norðurs og austurs af lágum klettahólum sem kallaðir eru Hólaberg.  Runnar skipta svæðinu upp í nokkra reiti sem skapa þægileg umhverfi fyrir tjöld, húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Rafmagnstenglar eru á nokkrum stöðum. Á svæðinu er góð aðstaða fyrir börn í spennandi náttúrlegu umhverfi. Í þjónustuhúsinu eru sturta, vatnssalerni, þvottavél og aðstaða til uppþvotta.   Umsóknum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar fyrir 20. apríl 2017 þar sem m.a. komi fram hugmyndir umsækjanda um rekstur hverrar einingar eða allra saman. Áður auglýstur umsóknarfestur um Bjarmanes er framlengdur til 20. apríl. Umsóknum má einnig skila rafrænt á netfangið magnus@skagastrond.is   Fyrir hönd sveitarstjórnar,   Í mars 2017. Sveitarstjóri  

Mynd vikunnar

Kvenfélagið Eining 27. febrúar 1927 var kvenfélagið Eining á Skagaströnd stofnað. Félagið er því 90 ára um þessar mundir. Á þessum 90 árum hefur félagið staðið fyrir fjölmörgum framfaramálum í okkar samfélagi eins og lesa má um í bók Lárusar Ægis Guðmundssonar: " Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927 - 2013". Á myndinni eru konur í félaginu að loknum aðalfundi. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en það hefur verið kringum 1970. Sitjandi frá vinstri: Helga Berndsen, Margrét Konráðsdóttir (d.17.9.1974), Guðrún Helgadóttir (d. 15.4.1987), Karla Helgadóttir (d.25.9.1986), Guðrún Teitsdóttir (d.17.6.1978), Soffía Sigurðardóttir (d.24.10.2002), Halldóra Pétursdóttir (d.23.12.1987), Soffía Lárusdóttir (d.31.3.2010) og Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir (d.13.7.2003). Standandi frá vinstri: Elísabet Bjarnason (d.10.1.2009), Guðbjörg Guðjónsdóttir (d.3.7.1981), Birna Blöndal, Elísabet Árnadóttir, María Konráðsdóttir (d.9.8.2003), Anna H. Aspar (d.1.9.1999), Guðmunda Sigurbrandsdóttir (d.15.8.2015), Hjördís Sigurðardóttir og Friðbjörg Oddsdóttir

Fulltrúar Félagsmiðstöðvarinnar Undirheima standa sig vel

  Félagsmiðstöðin Undirheimar sendi fulltrúa 3 fulltrúa á Stíl sem er hönnunarkeppni Samfés (Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi). Þær Dagný Dís Bessadóttir, Hallbjörg Jónsdóttir og Snæfríður Dögg Guðmundsdóttir  lentu í 3. sæti í keppninni og fengu að auki verðlaun fyrir bestu förðunina.   Einnig má geta þess að Laufey Lind Ingibergsdóttir, Snæfríður DÖgg Guðmundsdóttir og Ólafur Halldórsson tóku þátt í Norðurorgi sem er undankeppni fyrir stóru söngvakeppni Samfés og voru ein af fimm atriðum sem komust áfram.  Aðalkeppnin fer fram þann 25.mars.

Starfsmaður óskast á heilsugæslustöðina

  Móttaka og símavarsla Heilbrigðisstofnun Norðurlands óskar eftir almennum starfsmanni á heilsugæsluna á Skagaströnd. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem allra fyrst. Helstu verkefni og ábyrgð - Móttaka, tímabókun, afgreiðsla og uppgjör - Símsvörun - Skjalafrágangur - Afgreiðsla lyfja frá Lyfju - Ræsting á húsnæði heilsugæslunnar - Önnur tilfallandi störf Hæfnikröfur - Æskilegt að hafa reynslu af afgreiðslustörfum og dagsöluuppgjörum - Reynsla og góð undirstaða í almennri tölvuvinnslu er æskileg - Almenn enskukunnátta - Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum - Gott viðmót, þolinmæði og hæfni í mannlegum samskiptum Frekari upplýsingar um starfið Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármálaráðherra og Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannþjónustu hafa gert. Öllum umsóknum verður svarað. Áskilinn er réttur til að hafna umsóknum ef einstaklingar uppfylla ekki framangreind skilyrði.  Tóbaksnotkun er ekki heimil á vinnutíma innan HSN.  Ekki er unnt að ráða fólk yngra en 18 ára. Starfshlutfall er 70 - 80% Umsóknarfrestur er til og með 27.03.2017 Nánari upplýsingar veitir Ásdís H Arinbjörnsdóttir - asdis.arinbjarnardottir@hsn.is - 455 4100 HSN Blönduós Heilsugæsla Skagaströnd Flúðabakka 2 540 Blönduós

Starfsfólk í sumarafleysingu

Starfsfólk í sumarafleysingu Við leitum eftir sumarafleysingafólki í liðsheild okkar hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Í boði eru fjölbreytt verkefni með jákvæðum og uppbyggilegum samstarfshópi. Hvetjum alla sem hafa áhuga að sækja um – öllum umsóknum verður svarað Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi stofnunarinnar á heimasíðu hennar www.vinnumalastofnun.is. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Jensínu Lýðsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar Norðurlandi vestra - Greiðslustofu, Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd eða á netfangið jensina.lydsdottir@vmst.is fyrir 30. mars næstkomandi. Nánari upplýsingar hjá Jensínu í síma 515 4800.

Mynd vikunnar

Síldarþrærnar Myndin var tekin 1962 og sýnir síldarþrærnar við verksmiðjuna. Þrærnar voru í tveimur átta þróa röðum með vegg á milli. Í botninum, á milli þeirra, var færiband sem flutti síldina úr þrónum inn í verksmiðjuna sjálfa sem er fyrir endanum á myndinni. Til vinstri á myndinni er svo færibandið sem flutti síldina frá löndunarkrananum og í þrærnar. Til vinstri og hægri við þrærnar voru skúrar eða lítil hús sem notaðir voru sem geymslur undir t.d. salt, rotvarnarefni og annað sem verksmiðjan notaði. Syðsti skúrinn hægra megin var þó notaður fyrir síldarradíóið en þar var alltaf maður á vakt yfir síldveiðitímann og voru skipin í sambandi við hann með aflatölur, löndunartíma og annað þess háttar. Þrærnar hafa nú verið brotnar niður til að skapa gámapláss á höfninni en ef einhvern langar að púsla þeim saman aftur þá er grjótmulningurinn úr þeim í haug í grifjunni fyrir ofan Spákonufellsrétt :-). Senda upplýsingar um myndina

Laufey Lind vann til verðlauna í smásagnasamkeppni FEKÍ

Laufey Lind Ingibergsdóttir, nemandi í 10. bekk Höfðaskóla, sigraði í sínum flokki í smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi (FEKÍ). Í vetur tók Höfðaskóli tók í fyrsta sinn þátt í samkeppninni sem hefur undanfarin sjö ár verið haldin í tengslum við Evrópska tungumáladaginn.   Fyrirkomulag keppninnar er þannig að nemendur í 3.-10. bekk í grunnskólum, sem og nemendur framhaldsskóla geta tekið þátt í keppninni. Verðlaunasæti eru alls ellefu, 1.-3. sæti í þremur flokkum; 7.-8. bekkur, 9.-10. bekkur og framhaldsskóli og svo 1.-2. sæti í flokknum 3.-6. bekkur. Nemendur eiga að skrifa sögurnar sínar út frá fyrirfram gefnu þema. Þemað að þessu sinni var Roots (rætur). Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum síðastliðinn föstudag þar sem forsetafrú Íslands, Eliza Reid, setti athöfnina og veitti verðlaun ásamt stjórn FEKÍ. Laufey Lind lýsti þátttöku sinni í keppninni og verðlaunaafhendingunni þannig: „Snemma í nóvember kynnti enskukennarinn okkar, Helga Gunnarsdóttir, fyrir okkur smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi, FEKÍ. Hún sagði okkur að við ættum, sem verkefni í skólanum, að skrifa smásögu á ensku og skila inn fyrir 4. desember og að svo myndi hún og Vera skólastjóri velja eina sögu úr hvorum flokki (7. & 8. bekkur og 9. & 10. bekkur). Yfirheiti keppninnar það árið var “Roots”, eða á íslensku, rætur. Ég fékk strax hugmyndina að sögunni minni sem ég kalla The tree og byrjaði að skrifa hana í tíma, kláraði hana svo þegar ég kom heim sama dag, sendi til systur minnar, Maríu, til að fara yfir og skilaði svo sögunni daginn eftir til Helgu; ennþá með tæpan mánuð eftir. Þá byrjaði biðin. Helga greindi ekki frá úrslitum innan skólans fyrr en í byrjun desember og þá var aftur beðið. Um miðjan janúar fékk Helga tölvupóst þar sem hún fékk að vita að ég hefði unnið og að við myndum seinna fá að vita hvar og hvenær verðlaunaathöfnin yrði. Við fengum svo formlegt boðskort í febrúar þar sem okkur var boðið á Bessastaði. Þegar ég, mamma, pabbi og Helga komum á Bessastaði föstudaginn 3. mars þá voru margir komnir enda ég ekki eina manneskjan til að vinna til verðlauna í þessari keppni, því það eru fyrsta annað og þriðja sæti í efstu þremur hópunum, 7. & 8., 9. & 10. og framhaldsskólaaldur, og svo fyrsta og annað úr 3.- 6. bekk. Einnig voru flestir verðlaunahafar með foreldrum sínum og enskukennara. Eliza Reid, forsetafrúin, tók á móti okkur og við söfnuðumst saman í salinn þar sem fálkaorðurnar eru veittar. Eliza hélt stutta ræðu. Svo kom fulltrúi stjórnar FEKÍ og óskaði verðlaunahöfum til hamingju. Við fengum öll viðurkenningu, enska bók og hefti með öllum verðlaunasögunum. Eftir það var myndataka. Við Eliza spjölluðum svolítið en svo bauð hún öllum að skoða húsið og fá kleinur, kaffi og djús. Eftir skoðunarferð voru teknar nokkrar myndir því það er ekki á hverjum degi sem  ég er boðin á Bessastaði. Seinna frétti ég að forsetinn, Guðni Th. hefði verið á eineltisráðstefnu og þess vegna ekki verið þarna en þetta var engu að síður mjög skemmtileg reynsla.“ Við óskum Laufeyju Lind til hamingju með árangurinn.  

Mynd vikunnar

Heimilisfólk að Höfðahólum. Fólkið á myndinni var heimilisfólk að Höfðahólum á Skagaströnd. Mynd af bænum er fyrir miðju en hann stóð þar sem í dag er tjaldsvæðið á Skagaströnd. Guðríður Rafnsdóttir og Ásgeir Klemensson voru hjónin á bænum en Sigríður, Ólafur og Axel voru þeirra börn. Árni Sigurðsson var sonur Guðríðar, hálfbróðir systkininna og elstur þeirra. Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar.