Þórdísarganga á Spákonufell á laugardaginn

Spákonuarfur, menningarfélag á Skagaströnd, stendur fyrir gönguferð á Spákonufell á laugardaginn 5. júlí. Lagt verður af stað klukkan 11 frá Golfvellinum og er gangan er til minningar um Þórdísi spákonu sem bjó á 10. öld á bænum Felli og nefnist Þórdísarganga. Fararstjóri í ferðinni er Ólafur Bernódusson, en hann þekki Spákonufell afar vel og ekki síður sögur af Þórdísi. Ólafur hefur um árabil stundað rannsóknir á fjallinu og er sagt að hann geti nú staðfært ýmsa atburði sem gerðust í lífi Þórdísar, bæði sannar og lognar. Hann hefur til dæmis fundið bjargið sem kerlingin henti ofan af Borginni og drap rolluskjátuna sem gert hafði henni gramt í geði í langan tíma. Sagan segir ennfremur frá því að Þórdís hafi gengið daglega upp í Spákonufell og greitt þar lokka sína. Mun Ólafur hafi fundið hárgreiðslustaðinn og gott ef ekki líka einhverja lokka kerlingar. Síðast en ekki síst er hugsanlegt að Ólafur hafi fundið þann stað er Þórdís fól kistuna sem full er af gersemum. Gönguleiðin á fjallið var nýlega stikuð. Gengið er fyrst í stað upp aflíðandi brekkur fyrst í stað en síðan verða þær aðeins brattari. Hverig er leiðin snarbrött. Uppi er stórkostlegt útsýni, sér yfir í Skagafjörð allt í Fljótin. Gangan tekur 3-4 tíma og ekki spillir fyrir að spáð er fínu veðri á laugardaginn. Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm helst með stífum sóla. Börn og unglingar geta þó verið í strigaskóm. Munum að oftast er nokkru kaldara uppi á fjalli en niðri á láglendi. Mikilvægt er að hafa með sér nesti. Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar í golfskálanum. Allir sem ganga á fjallið fá viðurkenningu. Þátttökugjald er 1000 kr. Ókeypis er fyrir yngri en 16 ára. Nauðsynlegt er að fólk skrái sig í gönguna og er skráningarsíminn 861 5089.

Ljósmyndasamkeppi

Sveitarfélagið Skagaströnd efnir til ljósmyndasamkeppni í tengslum við formlega opnun gönguleiðar um Spákonufellshöfða. Markmiðið með ljósmyndasamkeppninni er öðrum þræði að hvetja til þess að fólk gefa gaum að náttúru og umhverfi. Hitt skiptir ekki síður máli að fólk taki myndir af umhverfi sínu enda eru fjölmargir miklu betri myndasmiðir en þeir halda. Keppnin er tímabundin en allir sem um Höfðann fara geta tekið þátt. Reglur keppninnar eru þessar. Myndir skulu teknar á tímabilinu 17. júní til og með 30. júní 2008. Skilafrestur á myndum er til 1. júlí 2008. Myndir skal senda á netfang sveitarfélagsins, skagastrond@skagastrond.is eða koma á diski á skrifstofu sveitarfélagsins. Nafn og símanúmer ljósmyndara þarf að koma skýrt fram. Hver þátttakandi getur sent allt að 5 myndir í keppnina. Myndefnið skal vera eftirfarandi: Náttúrulíf á Höfðanum, fuglar, dýr, gróður og landslag. Fólk á ferð um Höfðann, fullorðnir, unglingar eða börn. Veitt verða þrenn verðlaun: Fyrstu verðlaun er starfræn myndavél Önnur og þriðju verðlaun verða veglegar bækur með náttúrulífsmyndum. Dómnefnd velur bestu myndirnar. Umsjónarmaður keppninnar er Sigurður Sigurðarson, markaðsrágjafi sveitarfélagsins.

17. júní á Spákonufellshöfða

Ertu með út á Spákonufellshöfða á morgun klukkan tvö? Þá verður gönguleiðin um Höfðann formlega opnuð en með henni hafa nú verið sett tólf fræðsluskilti. Á þjóðhátíðardaginn er tilvalið að njóta útiverunnar, taka þátt í ratleiknum og jafnvel munda myndavélina í ljósmyndasamkeppninni. Dagskráin hefst við bílastæðið uppi á Höfðanum. Þar verður sagt frá gönguleiðinni og fræðsluskiltunum. Og þeim sem vilja ganga um Höfðann gefst þarna kostur á að taka þátt í skemmtilegum ratleik og ljósmyndasamkeppni. Auðvitað verður skotið úr fallbyssunni til að leggja áherslu á að gönguleiðin hafi nú formlega verið opnuð. Er svo ekki við hæfi að ganga með íslenska fánann í tilefni dagsins? Sveitarfélagið Skagaströnd hefur gefið út bækling um Spákonufellshöfða. Í honum er ýmiskonar fróðleikur um Skagaströnd, Höfðann, gróðurfar hans, jarðfræði og fuglalíf. Aftast er svo gott kort af gönguleiðinni.

Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands ses

Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands ses. á Blönduósi Textílsetur Íslands óskar eftir að ráða framkvæmdastjóra til starfa. Gert er ráð fyrir að viðkomandi verði með aðsetur á Blönduósi. Helstu verkefni og skyldur: • Annast daglegan rekstur • Mótun stefnu og starfstilhögunar • Mótun og framkvæmd markmiða í samvinnu við stjórn og fagaðila • Fjáröflun • Gerð fjárhagsáætlunar • Umsjón með ráðstefnum, námskeiðum ofl. • Önnur þau verkefni sem stjórn felur framkvæmdastjóra Kröfur um menntun og reynslu: • Háskólamenntun eða sambærileg menntun • Góð íslensku- og enskukunnátta • Góð tölvukunnátta • Hæfni í mannlegum samskiptum • Frumkvæði og metnaður í starfi Skriflegar umsóknir, sem tilgreina m.a. menntun og fyrri störf, skulu sendar á skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduósi, og merktar „Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands“. Umsóknir skulu jafnframt sendar rafrænt á arnar@blonduos.is Umsóknarfrestur er til 4. júlí n.k. Nánari upplýsingar um starfið veitir Arnar Þór Sævarsson, Netfang: arnar@blonduos.is