Ljósmyndasýning í Bjarmanesi

Ljósmyndasýningin ,,Leyst úr læðingi" verður í Kaffihúsinu Bjarmanesi á Skagaströnd júni-júli 2016 Vigdís H Viggósdóttir sýnir myndir sem hún tileinkar vorkomunni. Tileinkun: Veturinn kveður með kalda fætur, en vorið með varma í lófum sínum vaknar af vetrarblundi. Lífið er ýmist í burðarlið eða fætt og farið á stjá. Blátt ljósið leitar að gulum fleti til að gera veröldina græna.

Vinnuskóli Skagastrandar 2016

Vinnuskóli Skagastrandar er fyrir nemendur sem hafa nýlokið 8., 9. og 10. bekk Höfðaskóla. Markmið vinnuskóla er að gefa unglingum kost á samspili vinnu, þjálfunar og fræðslu í sumarleyfi sínu. Vinnuskóli Skagastrandar er starfræktur í 10 vikur: Hann hefst 1. júní og lýkur 5. ágúst. Skráning í vinnuskólann er á skrifstofu sveitarfélagsins Daglegur vinnutími 10. bekkjar er frá 09:00-12 og 13-16 mánudaga til fimmtudaga en á föstudögum til 12:00. Daglegur vinnutími 8. og 9.bekkja er frá 09-12 og 13-16 mánudaga til fimmtudaga ekki er unnið á föstudögum. Símar: Áhaldahús: 4522607 Árni Geir: 8614267 Netfang Vinnuskólans er ahaldahus@skagastrond.is

Skólaslit Höfðaskóla.

Skólaslit Höfðaskóla fara fram þriðjudaginn 31. maí n.k. og hefjast kl 18:00. Meðan á skólaslitum stendur eru nemendur beðnir um að sitja hjá forráðamönnum. Nemendur verða kallaðir upp á svið ásamt sínum umsjónarkennara þar sem þeir fá afhentan vitnisburð, byrjað á 1. og 2. bekk og svo koll af kolli. Að skólaslitum loknum verður kaffihlaðborð fyrir 10.bekkinga, aðstandendur þeirra og starfsfólk skólans. Við þökkum fyrir gott samstarf á liðnum vetri og hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru í samvinnu við nemendur, aðstandendur og samfélagið allt :-) Hafið það sem best í sumar :-)

Mynd vikunnar

Körfuboltamaraþon Veturinn 1995 héldu krakkarnir í 8. - 10. bekk Höfðaskóla körfuboltamaraþon. Þá voru íþróttir kenndar í Fellsborg því ekki var búið að byggja íþróttahúsið og því fór maraþonið fram þar. Með maraþoninu voru krakkarnir að safna fé til kaupa á ýmsum íþróttaáhöldum. Á myndinni eru krjúpandi frá vinstri: Finnbogi Guðmundsson, Jóhannes Grétarsson, Gunnar Dór Karlsson, Smári Gunnarsson, Guðjón Hall Sigurbjörnsson, Birna Ágústsdóttir og Sigrún Líndal. Standandi frá vinstri: Geirþrúður Guðmundsdóttir, Bjarney Katrín Gunnarsdóttir, Guðrún Elsa Helgadóttir, Erla María Lárusdóttir, Linda Hafdal, Auður Eva Guðmundsdóttir, Þóra Lísebet Gestsdóttir?, Bæring Skarphéðinsson, Karen Peta Karlsdóttir, Hallbera Gunnarsdóttir?, Valrún Eva Vilhelmsdóttir, Bjarni Þórmundssson íþróttakennari og Heiðrún Ósk Níelsdóttir

Nes listamiðstöð opið hús 26. maí kl.17:00-19:00

Að þessu sinni bjóðum við upp á: Tónlist Egg Hesta Salt Skáldskap Málverk Ljósmyndir o.fl. Sum verkanna eru til sölu. Verið velkomin!

Starf fræðslustjóra í Austur Húnavatnssýslu er laust til umsóknar.

Fræðslustjóri. Starf fræðslustjóra í Austur Húnavatnssýslu er laust til umsóknar. Um er að ræða 80% starf hjá Félags og skólaþjónustu A-Hún sem er byggðasamlag sveitarfélaganna, Blönduósbæjar, Skagastrandar, Húnavatnshrepps og Skagabyggðar. Undir starfið heyra leikskólar og grunnskólar í viðkomandi sveitarfélögum. Helstu verkefni: Ráðgjöf og stuðningur við skólastarf, þar á meðal kennsluráðgjöf. Ráðgjöf og stuðningur við stjórnendur skóla í ýmsum þáttum sem snúa að starfi skólanna. Skipulag og eftirlit með sérfræðiþjónustu við skóla. Umsjón með endurmenntun og þróunarstarfi. Eftirlit með skólastarfi í fræðsluumdæminu. Þverfagleg vinna að málefnum skólabarna ásamt starfsmönnum félagsþjónustu. Stefnumótun í málaflokkum sem falla undir starfssvið fræðslustjóra. Samskipti við aðila utan sveitarfélagsins í fræðslumálum. Hæfniskröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Framhaldsmenntun í uppeldis- og menntunarfræðum. Leik- eða grunnskólakennararéttindi æskileg og góð þekking á báðum skólastigum. Þekking og reynsla af helstu skimunar- og greiningartækjum sem notuð eru innan leik- og grunnskóla. Reynsla af störfum innan skólakerfisins nauðsynleg. Skipulagshæfileikar, ríkulegur þjónustuvilji og lipurð í mannlegum samskiptum. Góð íslenskukunnátta. Reynsla af stjórnun æskileg. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Nánari upplýsingar um starfið veitir: Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, 455 2700 netfang magnus@skagastrond.is Umsóknarfrestur er til 3. júní 2016 og skal stíla umsókn á Félags og skólaþjónustu A-Hún, Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd, merkt fræðslustjóri eða senda umsókn á framangreint netfang.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Erlingur Hugi Kristvinsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi fimmtudaginn 26. maí 2016. Tímapantanir í síma 455-4100 milli kl 08:00 og 16:00.

Mynd vikunnar

Ásdís Hu 10. Ásdís Hu 10 sjósett í fyrsta sinn. Um þennan bát er ritað í bókinni: Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010, eftir Lárus Ægi Guðmundsson : " Ásdís HU 10 1183. Báturinn var smíðaður úr eik á Skagaströnd árið 1971. Hann var 21 brl. með 185 ha. Kelvin Dorman vél. Eigendur voru Elvar Valdimarsson, Skagaströnd og Guðbjörn Hallgrímsson, Hafnarfirði. Báturinn sökk út af Þorlákshöfn 3. desember 1971. Fjórir menn voru á bátnum og björguðust allir um borð í Jón Vídalín ÁR 1 frá Þorlákshöfn. Þetta var fyrsti báturinn sem smíðaður var hjá Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf á Skagaströnd".

Götusópun

Götur á Skagaströnd verða sópaðar um helgina og hefst sópunin upp úr hádegi í dag, föstudaginn 13.05.2016. Íbúar eru vinsamlega beðnir að færa bíla og annað frá ef þörf krefur, þannig að verkið gangi sem best fyrir sig.

Mynd vikunnar

Bjarnhildur Sigurðardóttir. Hún er sterk sú taug dregur fólk til heimahaganna eftir að hafa flutt í burt og búið annars staðar um tíma, einhverra hluta vegna. Þá er gott að eiga sér vísa síðustu hvílu við rætur fallega fjallsins sem umfaðmar byggðina og er okkur svo kær. Þann kost valdi Bjarnhildur Sigurðardóttir þannig að segja má að hún sé nú komin heim aftur. Bjarnhildur vann marga sigra á leiksviði lífsins ekki síður en á leiksviðinu í Fellsborg þar sem hún lék í mörgum uppsetningum Leikklúbbs Skagastrandar á sinni tíð. Við sem þekktum Bjarnhildi þökkum henni góða samfylgd í lífinu. Bjarnhildur Sigurðardóttir lést 22. apríl síðastliðinn og verður jarðsungin frá Hólaneskirkju föstudaginn 13. maí klukkan 14:00.