Verkefnisstjóri hjá Nesi listamiðstöð ehf.

Nes listamiðstöð ehf. auglýsir 50% starf verkefnisstjóra fyrir listamiðstöðina laust til umsóknar. Verkefnisstjóri annast daglegan rekstur listamiðstöðvarinnar, s.s. markaðs- og kynningarstarf, samskipti við listamenn og umsýslu með vinnustofum, gistirými, viðburðum og öðrum umsvifum. Verkefnisstjóri starfar jafnframt með stjórn félagsins að stefnumörkun til áframhaldandi uppbyggingar listamiðstöðvarinnar. Starfsstöð hans er á Skagaströnd. Hæfniskröfur: · Háskólamenntun á sviði lista og / eða menningar æskileg eða menntun sem nýtist til starfsins. · Góð enskukunnátta · Reynsla af verkefnum á sviði lista- og menningar. · Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum. · Sjálfstæð og skipuleg vinnubrögð. · Frumkvæði, áhugi og drifkraftur. Umsóknarfrestur er til og með 10. október nk. og gildir póststimpill/tölvupóstsending þann dag. Umsóknir með greinargóðum upplýsingum um menntun, starfsreynslu og umsagnaraðila, berist Nes listamiðstöð ehf., Túnbraut 1 – 3, 545 Skagaströnd eða sendist á eftirfarandi netfang: halldor@biopol.is Nes listamiðstöð ehf. var stofnuð árið 2008 og þar hafa að jafnaði dvalist um 100 listamenn árlega.. Nánari upplýsingar veitir Halldór G. Ólafsson, sími 452 2977, netfang: halldor@biopol.is

Opið hús hjá farskólanum

Opið hús í Bjarmanesi á Skagaströnd mánudaginn 26. september kl. 18:00 – 20:00. Farskólinn býður gesti velkomna kl. 18:00 – 20:00, til að kynna sér námskeið og námsleiðir, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, lesblindugreiningar og fleira. Stéttarfélögin Samstaða og Aldan kynna fræðslustyrki, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra kynnir nám við skólann og Vinnumálastofnun kynnir þjónustu sína. Farskólinn kynnir Ýmsa ráðgjöf og þjónustu Tómstunda- og matreiðslunámskeið Farskólinn býður upp á fjölbreytt úrval af tómstundanámskeiðum, s.s. þæfingu, teikningu, ostanámskeið og súpugerð. Tungumálanám Kynning á tungumálanámi. Enska fyrir byrjendur, danska og íslenska fyrir útlendinga. Norska? Lengri námsleiðir sem gefa einingar Kynning á lengri námsleiðum eins og Grunnmenntaskólanum, Skrifstofuskólanum, Námi og þjálfun í almennum bóklegum greinum og fl. Léttar veitingar Ásta Búadóttir, matreiðslumeistari og kennari hjá Farskólanum eldar dýrindis sjávarréttarsúpu fyrir gesti. Lifandi tónlist Ásdís Guðmundsdóttir syngur nokkur lög af nýjum diski Multi Musika.

Opið hús í Nes listamiðstöð

Nes listamiðstöð verður með opið hús í listamiðstöðinni í dag, fimmtudaginn 22. september kl 17 - 20. Listamenn mánaðarins verða á staðnum og sýna að hverju þau hafa verið að vinna að undanfarnar vikur. Meðal þess sem gefur að líta er vindharpa í smíðum, teikningar, innsetning um huldufólk og margt fleira. Það væri gaman að sjá sem flesta.

Byrjendanámskeið í gítarleik

Fyrirhugað er að halda byrjendanámskeið fyrir fullorðna í gítarleik ef næg þátttaka fæst. Námskeiðið stendur yfir í 5 vikur, tvö kvöld í viku klukkustund í senn. Nú er tilvalið fyrir þá sem hafa alltaf langað að kunna undirstöðuatriðin á gítar að skella sér á námskeið og láta drauminn rætast – markmiðið er að hafa gaman saman og læra í leiðinni. Kennt verður í hóp og farið verður yfir grunnhljóma og undirstöðuatriði. Námskeiðsgjald er 10.000 kr. og eru námskeiðsgögn innifalin í því. Nánari upplýsingar og skráning í síma 868-2842 og á netfanginu montecarlo@simnet.is Síðasti dagur til að skrá sig er 30. September. Jón Ólafur Sigurjónsson

Hrefna Jóhannesdóttir verður 100 ára

Hrefna Jóhannesdóttir verður 100 ára á morgun, laugardaginn 3. september 2011. Hrefna er fædd á Skagaströnd 3. september 1911, dóttir Jóhannesar Pálssonar og Helgu Þorbergsdóttur sem lengst af bjuggu í Garði á Skagaströnd. Jóhannes og Helga eignuðust 16 börn og af þeim eru 3 á lífi. Hrefna hefur dvalið allan sinn aldur á Skagaströnd. Hún er nú til heimilis á Dvalarheimilinu Sæborg á Skagaströnd. Hrefna tekur á móti vinum og vandamönnum í Félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd kl. 14 - 16 á afmælisdaginn.