Ný endurvinnslustöð tekin í notkun

Ný endurvinnslustöð var opnuð við Vallarbraut á Skagströnd fimmtudaginn 29. júlí 2010. Rekstur stöðvarinnar byggist á samningi sem rekstraraðili hennar, Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar ehf., hefur gert við Sveitarfélagið Skagaströnd um byggingu og rekstur gámastæðisins. Með opnun gámastöðvarinnar verður boðið upp á móttöku og flokkun á úrgangi sem fer til endurvinnslu. Jafnframt batnar aðstaðan til losunar úrgangs, bæði flokkaðs og óflokkaðs. Þangað verður einnig hægt að koma færa stærri hluti til flokkunar og endurvinnslu við bestu aðstæður. Íbúar þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu endurvinnslustöðvarinnar en fyrirtæki og stofnanir greiða samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Flokkað efni til endurvinnslu er þó í flestum tilvikum gjaldfrjálst. Opnunartími verður sem hér segir: Þriðjudaga, kl. 16:00 - 18:00 Fimmtudaga, kl. 16:00 - 18:00  Laugardaga, kl. 13:00 - 17:00 Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígslu endurvinnslustöðvarinnar.

Undirbúningur í Stekkjarvík gengur vel

Framkvæmdir við gerð nýs urðunarstaðar í landi Sölvabakka ganga vel. Héraðsverk hefur að undanförnu unnið að efnisflutningum úr fyrirhuguðu urðunarhólfi með stórum beltagröfum og svokölluðum „búkollum“.  Grafið hefur verið niður á um 7 m dýpi en fullnaðardýpi í hólfinu verður um 20 m frá landyfirborði. Afköst í verkinu hafa verið með ágætum og hafa efnisflutningar verið á bilinu 8 – 12.000 m3 á dag. Efnisflutningar í heild eru um 390 þús. m3.  Á fundi stjórnar Norðurár bs 28. júlí var ákveðið að taka upp nafnið Stekkjarvík í stað þess að kenna urðunarstaðinn við bæinn Sölvabakka. Stekkjarvík er örnefni á víkinni rétt vestan við urðunarhólfið. 

Mynd komin á dagskrá Kántrýdaga

Skagstrendinga ætla að skemmta sér saman helgina 13. til 15. ágúst. Um leið er öðru góðu fólki heimilt að koma í bæinn og njóta helgarinnar. Þó er eitt skilyrði sett, aðeins skemmtilegt fólk fær aðgang. Nokkur mynd er farin að færast á dagskrá Kántrýdaga og er líklegt að flestir geti þá fundið sér eitthvað til skemmtunar og ánægju.  Sem fyrr er gert ráð fyrir að íbúar skreyti götur bæjarins en skreytingarnar hafa sett mikinn svip á hann síðustu árin. Yfirleitt er skreytt á fimmtudeginum og um kvöldið verður hressilegt upphitunarball í Kántrýbæ. Föstudagur 13. ágúst Formlega hefjast Kántrýdagar föstudaginn 13. ágúst kl. 18 með fallbyssuskoti. Þennan dag verður margt í boði. Nefna má húsasmíðar yngstu kynslóðarinnar á Kofavöllum. Þá verður haldið námskeið í töfrabrögðum fyrir börn og unglinga, listsýning verður í Nes listamiðstöðinni og spákonurnar bjóða þeim sem vilja að skyggnast í framtíð sína. Síðar um kvöldið verða tónleikar í hátíðartjaldi þar sem 59’ers og Janus leika. Varðeldur verður kveiktur á Hólanesi og sungið við undirleik þar til tími er kominn til að fara á tónleika í Bjarmanesi eða á ball í Kántrýbæ en þar heldur hljómsveitin Janus uppi miklu fjöri. Laugardagur 24. ágúst Hin síðustu á hefur Spákonuarfur staðið fyrir gönguferð upp á Spákonufell um kl. 10 á laugardagsmorgni og alltaf hefur fjöldi manns lagt á sig að ganga upp á þetta fallega fjall. Fjölmargt annað er á dagskránni á laugardeginum. Nefna má dorgveiðikeppni, galleríið Djásn og dúllerí í Gamla kaupfélagshúsinu verður að sjálfsögðu opið, markaður verður í Miðnesi, tónleikar í Bjarmanesi og spákonurnar munu ekki láta sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn. Barna- og fjölskylduskemmtun verður í hátíðartjaldi. Börn munu sýna töfrabrögð, börn munu taka þátt í söngkvakeppni og fleira mætti nefna. Um kvöldið verður dagskrá í hátíðartjaldi þar sem fram koma heimamenn og auk þeirra Bjartmar og bergrisarnir, hljómsveitin Spottarnir og fleiri. Nokkru síðar verða tónleikar í Bjarmanesi. Um leið hefst ball í Kántrýbæ þar sem Bjartmar Guðlaugsson og bergrisarnir leika fyrir dansi. Sunndagur 15. ágúst Sunnudagurinn er ekki síður góður á Kántrýdögum. Sem fyrr er galleríið með fallega nafninu Djásn og dúllerí opið og listsýning er í Nes listamiðstöðinni. Að venju verður gospelmessa í hátíðartjaldinu og þar mun kirkjukór Hólaneskirkju syngja undir stjórn Óskars Einarssonar. Loks má nefna að kaffihlaðborð í Bjarmanesi þar sem Húnabandið og Rúna munu leika og syngja gestum til ánægju.

Skagstrendingar komnir heim af Hornströndum

Vikulangri Hornstrandaferð Skagstrendinga lauk í gær „... og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.“ Sautján manns tóku þátt og þar af tvö börn. Hópurinn gekk á fjöll, um björg og á jökul og naut einstakrar veðurblíðu svo að segja allan tímann. Ferðin hófst í Norðurfirði á Ströndum miðvikudaginn 21. júlí. Þaðan var siglt í glampandi sólskini og norðaustan andvara í Hornvík, verður sem hélt sér nokuð óbreytt alla ferðina. Í Hornvík var komið rétt fyrir hádegi og því um fátt annað að ræða en að koma upp tjaldbúðum og halda síðan í göngu. Hornbjarg freistar allra og var því fyrst gengið út með víkinni og upp á Hnúkinn, fremsta hluta bjargsins. Síðan var gengið því sem næst með bjargbrún inn að tindunum Jörundi og Kálfatindu og aftur inn að tjaldbúðunum við Höfn. Daginn eftir var gengið inn í Hvanndal við Hælavíkurbjarg. Þar er hinn frægi Langikambur, mjór berggangur sem gengur langt út í sjó rétt eins og bryggja.  Reykjarfjörður er stórkostlegur staður, ekki aðeins fallegur frá náttúrunnar hendi, heldur hefur þar lengi verið rekin ferðaþjónusta. Árið 1931 var byggð sundlaug í Reykjarfirði því eins og nafnið bendir til er jarðhiti í firðinum. Síðar var hún endurnýjuð og nú er þarna fyrirtaks aðstaða fyrir ferðamenn sem gönguglaðir Skagtrendingar nýttu sér óspart. Í Reykjarfirði var dvalið í fjóra daga. Gengið var á Geirhólma, Þaralátursnes, farið á Drangajökul og gengið á Hljóðabungu og Hrolleifsborg. Sólbrenndir og kátir komu ferðafélagarnir til baka í Norðurfjörð mánudaginn 26. júlí. Flestur hefðu getað hugsað sér að vera lengur á Hornströndum en hlökkuðu þó til að aka suður Strandasýslu enda landslaga óvíða fegurra og tilkomumeira. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni. Smella þarf tivsvar á mynd til að fá hana stærri. Efsta myndin er tekin á Geirhólma (Geirólfsgnúpi) og eru Drangaskörð í baksýn.  Frá vinstri talið: Guðrún Pálsdóttir, Ólafur Bernódusson, Halldór Gunnar Ólafsson, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson, Lárus Ægir Guðmundssonn, Amy Ósk Ómarsdóttir, Steindór R. Haraldsson, Guðbjörg Gylfadóttir, Gylfi Sigurðsson, Jóney Gylfadóttir, Sigurjón Atli Sigurðsson, Haraldur Max og Sigurður Sigurðarson. Önnur myndin er tekin síðla kvölds á Drangajökli. Jöklafararnir eru frá vinstri: Jóney Gylfadóttir, Amy Ósk Ómarsdóttir, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson og Halldór Gunnar Ólafsson er lengst til hægri. Á þriðju myndinni brýtur stjórnandi ferðrinnar Lárus Ægir Guðmundsson strauminn í Reykjafjarðarósnum og á eftir fylgja Guðbjörg og Jóney Gylfadætur og greina má garpinn Gylfa Sigurðsson með skýluklút á höfði. Fjórða myndin er tekin í Atlaskarði.Þar matast Haraldur Max og handan Hornvíkur er tilkomumikið landslagið á Hornbjargi, Miðfell, Jörundur og Kálfatindar. Neðsta myndin er tekin neðst á Langakambi við Hvanndal. 

Breyting á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu samþykkti þann 9. júní sl. tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016. a) Breyting á svæðisskipulagi við Húnavelli sem felst í að gera ráð fyrir þéttbýli í Húnavatnshreppi. Í núverandi svæðisskipulagi eru Húnavellir skilgreindir sem þjónstumiðstöð – B flokkur, sem býður upp á talsverða þjónustu. b) Breyting á svæðisskipulagi á gagnaverslóð við Blönduós og færslu Svínvetningabrautar. Tillagan felst í að stækka lóðina úr 250 ha. í 272 ha. fyrir iðnaðar- og athafnasvæðis í landi Hnjúka. Breytingin felur í sér að samfeld lóð næst ef Svínvetningabraut er færð á um 3,0 km kafla og að sveitarfélagamörkum við Húnavatnshrepp. Núverandi landnotkunn er landbúnaðarnotkun og er svæðið í útjaðri Blönduóss og að hluta framræst beitarhólf. c) Leiðrétting á legu háspennulínu frá Geithömrum að Hurðabaki í Húnavatnshreppi. Í ljós kom að línan var rangt staðsett í núverandi svæðisskipulagi. Tillagan var auglýst þann 10. apríl og lá frammi til kynningar til 5. maí sl. Frestur til að skila athugasemdum rann út þann 20. maí og bárust 4 athugasemdir. Samvinnunefnd hefur afgreitt athugasemdirnar og sent þeim sem þær gerðu umsögn sína. Tillagan hefur verið send sveitarstjórnum Austur-Húnavatnssýslu til samþykktar og hafa þær 6 vikur til að fjalla um niðurstöðu samvinnunefndar. Samþykkt tillaga mun síðan send Skipulagsstofnun sem gerir tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu. Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillöguna og niðurstöðu samvinnunefndar geta snúið sér til Blönduósbæjar. Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu

Þórdísargangan á laugardaginn fellur niður

Vegna óviðráðanlegra ástæðna fellur niður áður auglýst Þórdísarganga þann 25. júlí. Þórdísarganga er næst á dagskránni laugardaginn 14. ágúst næstkomandi.

Raggi Bjarna og Þorgeir með tónleika í Kántrýbæ

Auðvitað verður ALLT Í RUGLI þegar Raggi Rjarna og Þorgeir Ástvaldsson halda tónleika í Kántrýbæ á laugardaginn næsta, 24. júlí kl. 22. Hvernig getur annað verið þegar þessir tveir unglingar koma saman og æra þjóðina. Þeir eru á ferð um landið og að sjálfsögðu koma þeir við á Skagaströnd. Aðgangseyrir er 2.000 kr.

Hársnyrtistofan Viva á nýjum stað

Þriðjudaginn 20. júlí opnar hársnyrtistofan Viva að Bogabraut 7. Jóhanna Lilja Hólm snyrtifræðingur flytur einnig sína starfsemi á sama stað svo og ljósabekkurinn. Sami opnunartími og símanúmer og áður (lokað á mánudögum). Á meðan ég er í sumarfríi mun Halla María hársnyrtir leysa mig af. 15% afsláttur af hársnyrtivörum á þriðjudag og miðvikudag. Hlakka til að sjá ykkur, Hafdís Hrund Ásgeirsdóttir

Eitthundrað manns í Djásni og Dúlleríi

„Við erum stoltar stelpur á Ströndinni,“ söng Signý Ósk Richter, þegar hún bauð Skagstrendinga velkomna á opnun gallerísins Djásn og dúllerí. Með henni að framtakinu standa Björk Sveinsdóttir og Birna Sveinsdóttir. Um eitt hundrað manns mættu á opnunina og má telja nokkuð víst að þeir hafi skemmt sér vel.  Í galleríinu er margt í boði. Þar er fjölbreytt úrval handverks og eiga um tuttugu og fimm heimamenn þar hönnun sína.  Þar er líka að finna efni í ströngum sem selt er í kólóvís - ekki metravís eins og vaninn er. Eingrinið er selt í mörgum litum og gerðum á 500 krónur kílóið, en þess má geta að 50 gr. af eingirni í dokkum er vanalega selt í búðum á sömu fjárhæð. Í galleríinu er málverkasýningu Dadda, sem sýnir 25 málverk. Galleríið Djás og dúllerí er opið alla daga frá kl. 14-18 og það er staðsett í kjallara Gamla kaupfélagsins skammt frá höfninni.

Kaffihlaðborð í Bjarmanesi á sunnudaginn

Kaffihlaðborð verður í Bjarmanesi sunnudaginn 18. júlí frá kl. 14 til 17. Á sama tíma mun Sigrún Lár rifjar upp minningabrot frá árdögum kaffihússins. Aðgangseyrir er 1.500 krónur fyrir fullorðna og 750 krónur fyrir börn.