Opnun Spákonuhofs

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði í gær Spákonuhof sitt sem hefur verið í uppbyggingu frá því á síðasta ári. Fjölmenni var við opnunina og var gerður góður rómur að glæsilegri aðstöðu og sýningunni sem þar hefur verið sett upp.  Spákonuhofið hýsir sýningu sem tileinkuð er Þórdísi spákonu en hún var fyrsti nafngreindi landnámsmaðurinn á Skagaströnd. Hennar er minnst m.a. með afsteypu af sögupersónunni sem stendur við hús sitt, refli sem segir sögu Þórdísar auk annara leikmuna sem tengjast sögu hennar. Með leikmunum og texta er einnig reynt að varpa ljósi á ýmsar spáaðferðir. Börn geta átt góðar stundir með sögupúsluspilum og fleiru.  Á tjaldi má m.a. sjá upptöku af leiksýningunni Þórdís spákona sem Spákonuarfur setti á svið árið 2008. Síðast en ekki síst eru fjórir spáklefar sem hver og einn er innréttaður á sinn hátt. Þar má fá spár,hvort sem um er að ræða hefðbundna spilaspá, tarrotspilaspá, bollaspá, lófalestur eða að láta kasta rúnum fyrir sig. Í fremra rýminu er sögu hússins sýndur sómi m.a. með gömlum ljósmyndum en húsið var samkomuhús bæjarbúa á árunum 1946-1969. Þar er einnig  sölusýning á teikningum Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar sem allar tengjast sögu Þórdísar spákonu. Margs konar handverk er einnig  til sölu. Spákonuhofið er opið alla daga nema mánudag frá kl. 11-17.

Dulúð, spádómar og saga - Spákonuhof opnað á Skagaströnd

Í gær var opnað við hátíðlega athöfn Spákonuhof á Skagaströnd. Hofið er sýning um Þórdísi spákonu sem er fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar en einnig geta gestir látið spá fyrir sér með lófalestri, í kaffibolla og í rúnir. Sjá fréttina alla á timinn.is: http://timinn.is/nordurvestur/spakonuhof-11-07-01.aspx

Fundur vegna Unglingalandsmóts UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina, 29. júlí - 31. júlí. Mótið er fyrir börn á aldrinum 11-18 ára og eru keppnisgreinarnar mjög fjölbreyttar.  Inga María Baldursdóttir, framkvæmdastjóri USAH og Heimir Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hvatar munu halda fund fyrir foreldra þeirra barna sem hafa það í hyggju að fara á mótið, mánudagskvöldið 4. júlí kl. 20:00 á skrifstofu USAH og Hvatar sem er í sama húsi og Samkaup á Blönduósi, en á annarri hæð. Á fundinum verður mótið kynnt og farið yfir keppnisgreinar á mótinu. Við hvetjum alla foreldra sem hafa áhuga á þessum skemmtilega viðburði að mæta á fundinn.

Kántrýdagar 2011

Kántrýdagar verða haldnir 12. til 14. ágúst  2011 og dagskrá með nokkuð hefðbundnu sniði. Tómstunda og menningarmálanefnd hefur ákveðið að auglýsa eftir hvort íbúar, félagasamtök eða fyrirtæki hafi hugmyndir að dagskráratriðum eða viðburðum sem þeir vilji standa fyrir og verði hluti af hátíð og dagskrá Kántrýdaganna. Góðum hugmyndum má koma á framfæri fyrir 15. júlí nk. við: Jón Ólaf formann nefndarinnar; montecarlo@simnet.is Magnús sveitarstjóra; magnus@skagastrond.is Skagaströnd, 29. júní 2011 Tómstunda og menningarmálanefnd.

Auglýsing um gæsluvöll 2011

Gæsluvöllur verður starfræktur á leikvelli Barnabóls 11. – 29. júlí 2011 Gæsluvöllurinn verður opinn virka daga kl 13 - 16. Börn á aldrinum tveggja til sex ára geta sótt völlinn gegn 400 kr greiðslu fyrir hvert skipti. Í leikskólanum verður opin salernisaðstaða fyrir börnin en að öðru leyti verður fyrst og fremst um gæslu utandyra að ræða. Æskilegt er að börnin taki með sér nesti og sérstaklega bent á að öll leikföng sem þau kunna að taka með sér eru á eigin ábyrgð. Þrátt fyrir áætlaðan opnunartíma er allur réttur áskilinn til að leggja þetta þjónustutilboð niður ef aðsókn að gæsluvellinum verður lítil eða engin. Sveitarstjóri

Skógræktarfélag Skagastrandar

Aðalfundur Skógræktarfélags Skagastrandar verður haldinn miðvikudaginn 29.06.2011, kl.20:00 í Skíðaskálanum Jón Ásgeir skógræktarfræðingur mætir á fundinn Venjuleg aðalfundarstörf nýir félagar velkomnir, Stjórnin.

Heimsókn breska sendiherrans

Breski sendiherrann á Íslandi Ian Witting kom í heimsókn til Skagastrandar fimmtudaginn 23. júní sl. í boði sveitarstjórnar.  Í heimsókninni fór sendiherrann á nokkra staði og skoðaði atvinnulíf og menningu á Skagaströnd. Eftir ágætan morgunverð með fulltrúum sveitarstjórnar í Kaffi Bjarmanes var litið inn í þekkingarsetrið þar sem starfsemi BioPol var kynnt, heilsað upp á menningarfulltrúann og skoðað tilvonandi fræðibókasafn undir leiðsögn forstöðumanns Fræðaseturs Háskóla Íslands.  Sendiherrann leit einnig við á höfninni og fékk útlistun á starfsemi Fiskmarkaðar Íslands.  Í Spákonuhofi tóku á móti honum hinar forvitru spákonur og sýndu honum hvernig hof Þórdísar spákonu mun taka á móti gestum.  Í Árnesi fékk hann svo örlitla innsýn í húsakynni og búshöld liðinna kynslóða. Hádegisverður í Kántrýbæ var einstakur og setti nýtt viðmið um gæði íslensks lambakjöts. Ekki spillti að skoða uppstillingu á sýningu um æfi og starf kántrýkóngsins sjálfs á eftir.  Í Nes listamiðstöð sýndu 11 listamenn verk sín þar sem sköpunarkrafturinn hefur greinilega verið góður í kulda júnímánaðar því sýning þeirra á opnu húsi er með þeim betri sem boðið hefur verið upp á.  Sendiherrann heimsótti svo kirkjuna þar sem hann fékk að njóta tónlistar fram borinni af Hugrúnu Sif og Jóni Ólafi sem fluttu íslensk vöggulög.  Þrátt fyrir mikið annríki á greiðslustofu Vinnumálastofnunar, svona rétt fyrir mánaðarmót, voru viðtökur þar góðar og vakti sendiherranum nokkra undrun hve öflugur hópur þar var greinilega að störfum.  Í lok dags var sest yfir kaffihlaðborð í Kaffi Bjarmanes þar sem þeir komu saman sem áttu mestan þátt í dagskránni og fóru yfir stöðuna á Skagaströnd jafnt og heimsmálin yfirleitt.  Sendiherrann sem hafði verið hrókur alls fagnaðar allan daginn var síðan kvaddur með dúndrandi fallbyssuskoti.

Rafmagnsnotendur Austur Húnavatnssýslu. (Skagaströnd og dreifbýli)

Búast má við straumleysi aðfaranótt fimmtudagsins 23.júní n.k. frá miðnætti og fram eftir nóttu vegna vinnu í aðveitustöð. RARIK Norðurlandi.

Vatnlaust á Hólabraut, Bogabraut og á Hólanesinu

Lokað verður fyrir vatnið á Hólabraut, Bogabraut og á Hólanesinu miðvikudaginn 22. júní 2011 frá hádegi og fram eftir degi. Sveitarstjóri.

Úrslit í opna Fiskmarkaðsmótinu í golfi

Opna Fiskmarkaðsmótið í golfi var haldið á Háagerðisvelli, Skagaströnd, föstudaginn 17. júní  sl. Mótið er fyrsti hluti svokallaðar Norðvesturþrennu golfklúbbanna á Skagaströnd, Blönduósi og Sauðárkróki.  Alls tóku 36 keppendur þátt í mótinu. Sterkur austlægur vindur var meðan á keppninni stóð og setti hann sitt mark á árangur keppenda. Úrslit urðu sem hér segir: Kvennaflokkur án forgjafar 1. Árný Árnadóttir GSS 93 högg 2. Sigríður Elín Þórðardóttir GSS 93 högg 3. Guðrún Ásgerður Jónsdóttir GÓS 95 högg Karlaflokkur án forgjafar 1. Brynjar Bjarkason GÓS 83 högg 2. Einar Einarsson GSS 85 högg 3. Jón Jóhannsson GÓS 87 högg Punktakeppni með forgjöf 1. Kristján Blöndal Jónsson GÓS 33 punktar 2. Einar Einarsson GSS 32 punktar 3. Sigríður Elín Þórðardóttir GSS 30 punktar