Flóamarkaður í Djásnum og dúlleríum á laugardaginn

Flóamarkaður verður í Djásnum og dúlleríi laugardaginn 4. sept. frá kl. 14.00. – 18.00. Er ekki kjörið að drífa sig í að taka aðeins til í geymslum og skápum og gefa gömlum munum og fötum nýtt líf  hjá nýjum eigendum? Þáttökugjald er 2.000 kr. Söluborð eru á staðnum. Vinsamlegast pantið pláss fyrir föstudag í síma 866 8102. Tónlistafólk er hvatt til að koma og taka lagið.  Saman getum við myndað skemmtilega stemningu á flóamarkaði Djásna og dúllerís. DJÁSN OG DÚLLERÍ er á Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd S: 866 8102. Húsið opnar kl. 13.00. fyrir þá sem verða með vörur til sölu. Ath. að gott gæti verið  fyrir söluaðila að grípa með stól eða koll til hvíldar.

Hverjir eru á myndunum?

Á Hólanesi stóðu tveir spariklæddir drengir með hjólin sín, báðir í hvítri skyrtu, annar með bindi, hinn með slaufu. Þetta var líklega að vori til og atvikið væri líklega löngu gleymt ef  Guðmundur Guðnason hefði ekki fest það á filmu. En hverjir eru þessir drengir sem standa þarna í hlýjunni á nesinu undir gráum vorhimni og í fjarska sér inn til fjalla og dala? Nú leitar Hjalti Reynisson, verkefnisstjóri, Ljósmyndasafns Skagastrandar að þeim sem svarað geta spurningunni. Og Hjalti leggur fram aðra mynd. Þá hefur Guðmundur líka tekið og í þetta sinn er hann inni í gamla Hólanesfrystihúsinu þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Hverjir skyldu þessir fjórir karlmenn vera sem vönum höndum flaka fisk? Í síðustu viku var birt mynd og leitað eftir nöfnum karla sem stóðu í fullum sjóklæðum. Myndin er tekin á sjómannadagin 1943 eða 44, eftir boðhlaupskeppni, stakkahlaup.Frá vinstri: Ólafur Ásgeirsson, Ingvar Jónsson, Hákon Magnússon, Björgvin Jónsson, Guðmundur Jóhannesson, Þorbjörn Jónsson, Hartmann Jóhannesson, Hallgrímur Kristinsson, Snorri Gíslason, óþekktur maður ,Sigurjón Magnússon og Pálmi Sigurðsson. Einnig var leitað eftir nöfnum kvenna í Hólanesfrystihúsinu. Þar er verið að vinna í 5 punda pakkningar í gamla Hólanesfrystihúsinu. Önnur konan frá vinstri er Teitný Guðmundsdóttir. Sigurður Magnússon verkstjóri er fyrir innan. 

Málþing á Skagaströnd um Jón Sigurðsson

Á næsta ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, forseta Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags. Í tilefni af þessum tímamótum skipaði Alþingi nefnd sem hefur undirbúið afmælisdagskrá með hátíðum, ráðstefnum, sýningum, frímerkjaútgáfu, minjagripahönnun og ritgerðasamkeppni grunnskólabarna, svo fátt eitt sé nefnt. Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tekur forskot á sæluna og stendur fyrir málþingi 12. september í Bjarmanesi á Skagaströnd. Það mun beina sjónum að því með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans. Málþingið ætti að vera sérstaklega áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á menningartengdri ferðaþjónustu og ímyndarmálum. Á málþinginu veltir Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur fyrir sér samhengi samfélagsþróunar og þess hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína. Þá talar Páll Björnsson sagnfræðingur, sem sendir frá sér rit um arfleifð Jóns Sigurðssonar á afmælisárinu, um sameiningartáknið Jón Sigurðsson sem menn gera gjarnan að samherja sínum í pólitískum hitamálum. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur fjallar næst um það hvernig hugmyndin um hetjuna hefur bæði verið notuð til að réttlæta tilvist Háskóla Íslands og til að gagnrýna starfsemi hans. Síðast, en ekki síst, ræðir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur um þjóðardýrlinginn og spyr hver framtíð Jóns Sigurðssonar sé í því hlutverki á næstu árum og áratugum. Í lokin verður góður tími til umræðna. Í tilefni væntanlegs stórafmælis boðar Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra til málþings í Bjarmanesi á Skagaströnd, sunnudaginn 12. september 2010 kl. 13:00-16:30. Framtíð Jóns Sigurðssonar – Karlar á stalli og ímyndasköpun Þeir sem hafa áhuga á gistingu á Skagaströnd vinsamlega hafi samband við Ólafíu Lárusdóttur  í síma 898 7877. Þeim sem vilja samnýta bílferðir til og frá Skagaströnd er bent á samferda.is Kántrýbær er opinn á laugardagskvöldinu og á sunnudag í hádeginu og eftir ráðstefnu. Dagskrá kl. 13:00 Sigurður Gylfi Magnússon:  Fortíð á réttu verði! Minningarframleiðsla samtímans kl. 13:35 Páll Björnsson:  „... hinn ókrýndi konungur Íslands.” Endurfæðingar Jóns Sigurðssonar forseta kl. 14:10 Kaffihlé kl. 14:30 Guðmundur Hálfdanarson:  Hetjan og Háskólinn. Jón Sigurðsson og stofnun Háskóla Íslands kl. 15:05 Jón Karl Helgason:  Uppi á stórum stalli Jón. Hrókeringar á íslenskum þjóðardýrlingum kl. 15:40 Umræður og fyrirspurnir kl. 16:30 Lok  Lýsing á fyrirlestrum  Sigurður Gylfi Magnússon:  Fortíð á réttu verði! Minningarframleiðsla samtímans  Spurt verður hvort eitthvað sé á minnið að treysta og hvernig einstaklingar og samfélög varðveita minningar sínar. Kynnt verða til sögunnar þrjú hugtök sem eru líkleg til að hjálpa fólki að átta sig á tengslum sínum við fortíðina og hvernig hún er numin. Hugtökin sem um ræðir eru "sameiginlegt minni" (e. collective memory), "sögulegt minni" (e. historical memory) og einstaklingsminni (e. individual memory). Þau verða síðan notuð til að greina samfélagsþróun á Íslandi á 19. og 20. öld og hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína.  Loks verða þær hugmyndir tengdar við fyrirbærið "menningarlegt auðmagn" (e. cultural capital), það er hvernig samfélög, hópar og einstaklingar kjósa að nýta sér fortíðina með framleiðslu minninga af ýmsu tagi. Rætt verður um þýðingu þessarar starfsemi og hvaða hugmyndir hún gefur um virkni samfélagsins.     Páll Björnsson: „... hinn ókrýndi konungur Íslands.”  Endurfæðingar Jóns Sigurðssonar forseta Frá því snemma á 20. öld hefur minningin um Jón Sigurðsson forseta (1811-1879) verið sterkmeðal Íslendinga. Til hans hefur oft verið vitnað og minningu hans verið haldið á lofti af slíkum móð að óhætt er að fullyrða að Jón forseti hafi verið ― og sé jafnvel enn ― eitt mikilvægasta sameiningartáknið hérlendis. Minningarnar hafa birst með fjölbreyttum hætti, til að mynda í bókum, minningarritum, tímarits- og blaðagreinum, kveðskap, hátíðahöldum, minnismerkjum, minjagripum, myndum, málverkum, sögusýningum og uppbyggingu sögustaða. Og margsinnis hafa menn reynt að gera Jón að samherja sínum í pólitískum hitamálum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa minningarvæðingu í heild sinni með því að taka dæmi um ólíka minningarhætti. Einnig verður rætt um hverjir hafi einkum staðið fyrir því að helga sér það táknræna auðmagn sem fólst í minningunni um Jón forseta og hvaða hlutverki þessi minningarvæðing gegndi í myndun og viðhaldi íslenska þjóðríkisins á 20. öld.    Guðmundur Hálfdanarson:  Hetjan og Háskólinn.  Jón Sigurðsson og stofnun Háskóla Íslands  Háskóli Íslands var vígður 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Var þetta gert til að minnast þjóðhetjunnar ástsælu en um leið var ætlast til þess að minningin um hetjuna yrði Háskólanum til framdráttar. Í vígsluræðum skólans var hugmyndin um háskóla á Íslandi rakin til Jóns sem átti um leið að réttlæta tilvist slíkrar stofnunar í samtímanum. Síðar nýttu stjórnmálamenn á borð við Jónas Jónsson frá Hriflu sér Jón Sigurðsson og hugmyndir hans um þjóðskólann til að gagnrýna Háskóla Íslands fyrir að hann starfaði ekki í anda hetjunnar. Í  fyrirlestrinum verður dæmið um hetjuna og háskólann notað til skýra hvernig „minningar“ um þjóðhetjur verða til og hvaða tilgangi þær þjóna í samtímanum. Hvernig „munum“ við Jón Sigurðsson og hvernig er „minningin“ um hann notuð í pólitískum deilum?    Jón Karl Helgason: Uppi á stórum stalli Jón. Hrókanir á íslenskum þjóðardýrlingum  Í miðbæ Reykjavíkur voru á árunum 1875 til 1931 sett upp líkneski af Bertel Thorvaldsen, Jónasi Hallgrímssyni, Jóni Sigurðssyni, Kristjáni IX og Hannesi Hafstein. Í vissum tilvikum voru uppi ólíkar hugmyndir um staðsetningu á einstökum styttum og nokkur dæmi eru um það að þær væru færðar frá einum stað til annars. Í fyrirlestri sínum rekur Jón Karl Helgason sögu þessara hrókana og setur þær í samband við hugmyndir sínar um stöðu og hlutverk evrópskra  þjóðardýrlinga. 

18. ársþing SSNV haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi 27-28. ágúst 2010.

18. ársþing SSNV verður haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi dagana 27.-28. ágúst n.k. Ársþing SSNV er opið til áheyrnar kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum, framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum sveitarfélaga og starfsmönnum SSNV og tengdra verkefna á Norðurlandi vestra. Dagskrá þingsins má nálgast á neðangreindi vefslóð. http://www.ssnv.is/LinkClick.aspx?fileticket=g%2bo7nO561pE%3d&tabid=1391

Síðasta opnunarhelgi hjá Djásn og dúllerí

Nú fer að líða að lokum sumar-opnunar handverks- og hönnunarmarkaðar Djásna og dúllerís.  Síðasta opnunarhelgin er 28. og 29. ágúst og er því um að gera að nota nú tækifærið og verða sér úti um hlýja vetlinga, sokka, húfur, eyrnabönd og lopapeysur fyrir veturinn. Gera má ráð fyrir að a.m.k. 1500 manns hafi lagt leið sína í kjallarann á gamla kaupfélagshúsinu þennan rúmlega mánuð sem það hefur verið opið. Frekari frétta af Djásnum og dúlleríi má vænta innan skamms.  Signý, Björk og Birna 

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 26. ágúst 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kosning í nefndir og ráð: a) Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd b) Gróður- og náttúrverndarnefnd 2. Aðalskipulag Skagastrandar 3. Svæðisskipulag Austur Húnavatnssýslu 4. Bréf: a) Djásn og dúllerí, dags. 7. júlí 2010 b) Stjórnar Heimilisiðnaðarsafnsins, dags. 13. júlí 2010 c) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. júlí 2010 5. Fundargerðir: a) Skipulags- og byggingarnefndar, 23.08.2010 b) Tómstunda- og menningarmálanefndar 24.06.2010 c) Tómstunda- og menningarmálanefndar 1.07.2010 d) Tómstunda- og menningarmálanefndar 8.07 2010 e) Tómstunda- og menningarmálanefndar 29.07.2010 f) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 11.06.2010 g) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 22.07.2010 h) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 26.07.2010 i) Stjórn Byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún, dags. 29. júní 2010 j) Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 5.07.2010 k) Búfjáreftirlits og fjallskilanefndar A-Hún, 5.07.2010 l) Stjórna Byggðasafnsins að Reykjatanga, 18.06.2010 m) Stjórnar Norðurár bs. 21.06.2010 n) Stjórnar Norðurár bs. 24.06.2010 o) Stjórnar Norðurár bs. 6.07.2010 p) Stjórnar Norðurár bs. 28.07.2010 q) Stjórnar Norðurár bs. 16.08.2010 r) Stjórnar Norðurár bs. 18.08.2010 s) Stjórnar SSNV, 21.06.2010 t) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25.06.2010 6. Önnur mál Sveitarstjóri

Listaverkið Laupur og álagasteinninn

Nýlega afhenti Erlendur Magnússon, listamaður á Blönduósi, Sveitarfélaginu Skagaströnd fagurt listaverk sem komið var upp við Bjarmanes, ofan við fjöru. Listaverkið nefnist Laupur og er á fögrum stuðlabergsdrangi sem ættaður er úr Spákonufellshöfða. Þó listaverkið sjálft sé afskaplega mikilfenglegt mátti heyrast á listamanninum að ekki hafi allt gengið eins og á var kosið við gerð þess. Erlendur var fáanlegur til að létta á hjarta sínu við tíðindamann skagstrond.is. „Sjáðu nú til,“ segir Erlendur, alvarlegur í bragði. „Fyrir meira en þúsund árum bannaði Þórdís spákona öllum mönnum að flytja steina úr Höfðanum á Skagaströnd annars hefðu þeir og þeirra fólk verra af. Þessi álög hafa oft komið fram síðan. Til dæmis var grjót tekið þar í byggingu á hafnar á Skagaströnd og hvarf þá öll síld frá Norðurlandi ...!“ Listamaðurinn lítur nú upp úr kaffibolla sínum á fölan viðmælanda sinn sem má vart mæla. Og hann heldur áfram: „Fyrir tveimur árum var fluttur steindrangur úr Höfðanum til Gamla bæjarins við Blöndu og sá hefur reynst hinn mesti álagasteinn. Nýr eigandi steinsins, nefnilega ég, hafði fengið hann í skiptum fyrir gamlan kolaofn úr elsta íbúðarhúsinu við Blöndu og var ofninn fluttur í Árnes, elsta íbúðarhúsið á Skagaströnd.  Fljótlega eftir komu steinsins í Gamla bæinn við Blöndu fór að bera þar á allskonar óáran. Þessi þrjátíu húsa og friðsami bæjarkjarni hefur síðan verið að breytast í lítið Las’t Vegas norðursins með þremur til fjórum börum, hóteli og fjórum gistihúsum, áfengisútsölu, félagsheimili AA og fleira. Meira að segja gamla kirkja bæjarins sem stendur í þessum bæjarhluta,var afhelguð og bekkirnir notaðir sem barstólar. Þó tók steininn úr þegar fjórar konur voru kosnar í bæjarstjórn á Blönduósi í vor en þar höfðu karlar einir ráðið ríkjum áður.“ Tíðindamaður kyngdi og mátti vart mæla. Hversu hrikalegt er nú ólán Gamla bæjarins við Blöndu, allt út af Þórdísi spákonu og grjóts úr Höfðanum hennar. En Erlendur var ekki hættur: „Eftir að steinninn var fluttur á nýjan stað við ósa Blöndu gengu álögin svo nærri nýja eigandanum, sem sagt mér, að áður en hann gat snúið sér við var búið að stela af honum bæði bíl og konum.  Og hvað gat ég gert nema krefjast þess að Sveitarfélagið Skagaströnd tæki steininn til baka með öllu sem honum fylgdi og mér væri bættur skaðinn með nýrri konu sem þó mætti vera gölluð á eins og kolaofninn hafði verið.“ Nú mildaðist svipur Erlends, listamanns, enda hér komið í sögunni að hann fengi nýja konu, eða það hélt tíðindamaður. „Nú, Sveitarfélagið skipaði þarna sátta-, sannleiks- og matsnefnd sem komst einfaldlega að því að ekki væri til gölluð kona á Skagaströnd. Hins vegar samþykkti hún af náungakærlega sínum að taka steininn til baka með aukahlutum, en greiða aðeins fyrir þá þar sem þeir ættu ekki verðlista yfir gallaðar konur. Vonast aðilar svo til þess að Þórdís spákona og dætur hennar verði sáttar við þessi málalok og létti álögunum.“ Og nú hallaði Erlendur Magnússon, stórlistamaður, sér aftur í stólnum, og auðséð var að honum var létt yfir lyktum mála, þó kvenmannslaus væri, eftir sem áður. Á meðfylgjandi mynd er sátta-, sannleiks- og matsnefnd og fyrrverandi eigandi, Erlendur Magnússon, við umræddan álagastein og fylgihluti hans.  Á steininum er mannvistarhreiður með eggi frá 2009 og fuglinn Fönix sem hefur sig til flugs sem tákn um betri tíma bæði fyrir Skagaströnd og Gamla bæinn við Blöndu.  Þess ber að geta að það sem listamaðurinn kallar fylgihluti er einfaldlega mikilfenglegt listaverk sem unnið hefur verið úr mannvistarleifum ýmiskonar.

Hverjir eru á myndunum?

Fjölmargar myndir eru komnar inn á vefsvæði Ljósmyndasafns Skagastrandar. Enn vantar góðar upplýsingar um margar þeirra, meðal annars þær sem hér eru birtar. Þess vegna er leitað til kunnugra í þeirri von að hægt sé úr að bæta. Slóð ljósmyndasafnsins er að finna vinstra megin á forsíðu skagastrond.is. Efri myndin er tekin á sjómannadaginn 1943 samkvæmt áritun aftan á myndinni. Myndin er úr safni Elísabetar Berndsen, en ekki er vitað um ljósmyndarann. Ekki er heldur vitað með óyggjandi hætti hverjir eru á myndinn, hvort það eru heimamenn eða aðkomumenn. Seinni myndin er líklega tekin á sjötta áratugnum í frystihúsinu Hólanes þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Á henni eru nokkrar konur við pakkningu en ekki er vitað hverjar þær eru. Allar upplýsingar um þessar myndir eru vel þegnar. Hægt er að færa þær inn á vef Ljósmyndasafnsins eða hringja í Hjalta Reynisson, verkefnisstjóra safnsins, en síminn hjá honum er 455 2700 og er hann við fyrir hádegi alla virka dag. Yfir eitt þúsund myndir eru nú komnar á vef Ljósmyndasafnsins. Ýmist er um að ræða myndir af þekktu fólki og aðstæður sem kunnar eru. Hins vegar vandast málið með margar aðrar og því er leitað til þeirra sem hugsanlega þekkja til. Fólk er hvatt til að skoða safnið færa inn réttan texta á þeim myndum sem það þekkir eða hafa samband við Hjalta.

Úrslitin í Opna Fiskmarkaðsmótinu í golfi

Opna Fiskmarkaðsmótið í golfi var haldið á laugardaginn á Háagerðisvelli. Mótið er jafnframt minningarmót um Karl Berndsen en aðalstyrktaraðli þess er Fiskmarkaður Íslands hf. Veður var þokkalegt og mættu 32 keppendur til leiks.  Úrslit urðu sem hér segir: Kvennaflokkur/ höggleikur Sigríður Elín Þórðardóttir GSS  Guðrún Ásgerður Jónsdóttir GÓS Dagný Marín Sigmarsdóttir GSK Karlaflokkur/höggleikur Jóhann Örn Bjarkason GSS Magnús G.Gunnarsson GSS Brynjar Bjarkason GSS Punktakeppni með forgjöf Magnús G.Gunnarsson GSS Dagný Marín Sigmarsdóttir GSK Sigurður Sigurðarson GSK Golfklúbbarnir á Blönduósi, Sauðárkróki og Skagaströnd hafa um árabil átt gott samstarf og hafa m.a. staðið fyrir sameiginlegu mótahaldi undir nafninu Norðvesturþrennunnan og var Opna Fiskmarkaðsmótið síðast þriggja móta í þeirri mótaröð.   Sigurvegarar í Norðvesturþrennunni í ár urðu Árný Lilja Árnadóttir GSS í kvennaflokki og Magnús G.Gunnarsson GSS í karlaflokki, en þau náðu bestu samanlögðum árangri á þeim þremur mótum sem tilheyrðu mótaröðinni.   

„Heim úr skólanum glöð“

Námskeið um húmor og gleði í stjórnun var haldið 18. ágúst að Húnavöllum. Námskeiðið hafði það meginmarkmið, eins og öll námskeið Fræðsluskrifstofunnar, að gera starfsfólk skólanna hæfara til að gera nemendur góða og fróða. Að hafa tök á að nota húmor og gleði í skólastarfi getur hjálpað til að ná því háleita markmiði. Sjötíu og sex kennarar grunnskólanna í Húnavatnsþingi sóttu námskeiðið. Kennari á námskeiðinu var Edda Björgvinsdóttir, listamaður sem segir: "Húmor í lífinu er á allan hátt uppbyggilegur og nærandi. Húmor er heilsubót og með húmor er hægt að auðvelda hvers kyns mannleg samskipti, leysa hin fjölbreyttustu vandamál og minnka streitu. Fjöldi rannsókna sýnir að það er mælanlegur ávinningur af því þegar stjórnendur nota húmor markvisst og meðvitað. Húmor eykur gleði á vinnustað, bætir líðan fólks, eykur starfsánægju og sköpunarkraft“. Þátttakendur skemmtu sér vel, eins og myndirnar sýna og lærðu mikið og eru væntanlega betur í stakk búnir að hefja krefjandi starf með gleði. Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri