Sumarstörf hjá Höfðahreppi

Höfðahreppur auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2007. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Höfðahrepps og er umsóknarfrestur til 18. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895 eða á netfangi agust@skagastrond.is

Upplestrarkeppnin 2007

Fimmtudaginn 22. mars var lokahátíð Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi. Keppnin er hluti af Stóru upplestrarkeppninni sem haldin er um allt land og á sér nokkuð langa sögu eða frá árinu 1996. Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi hefur hins vegar verið haldin frá árinu 2004 og er tilorðin vegna sjóðsstofnunnar nokkurra ættingja og vina Gríms Gíslasonar í tilefni af 90 ára afmæli hans. Sjóðurinn gaf verðlaunagrip sem afhentur er sigurvegara keppninnar hverju sinni til varðveislu. Allir keppendur fengu bókagjöf frá Eddu útgáfu, þrír bestu lesararnir fengu að auki gjafabréf frá Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn. Forkeppnir höfðu farið fram í öllum 7. bekkjum skólanna og þrír fulltrúar valdir frá hverjum skóla. Keppendur stóðu sig allir með sóma og geta allir skólarnir verið stoltir af sínum fulltrúum. Sigurvegarar að þessu sinni voru: 1. Daníel Ingi Sigþórsson Grunnskóla Húnaþings vestra 2. Stefán Logi Grímsson Húnavallaskóla 3. Sandra Haraldsdóttir Húnavallaskóla Dómarar keppninnar voru þeir Þórður Helgason, Sigrún Grímsdóttir, Jófríður Jónsdóttir og Valgarður Hilmarsson.

Orlofsferð húsmæðra

Helgina 9.-11. mars fóru 39 húnvetnskar húsmæður í skemmti og menningarferð til Reykjavíkur. Lagt var af stað frá Skagaströnd klukkan 17:30 og voru konur teknar uppí á leiðinni við hina ýmsu afleggjara. Komið var í bæinn um klukkan 23:00, það var hinn knái bílstjóri, Ágúst Sigurðsson frá Geitaskarði sem keyrði þennann káta hóp þessa ferð. Einhverjar fóru á Sálarball á Players en aðrar höfðu það notalegt upp á hóteli það sem eftir lifði kvölds. Snemma á laugardagsmorgun var farið í nudd, heita potta, sauna og gufu í Mecca SPA ásamt því að gæða sér á góðum ávöxtum og samlokum. Því næst var frjáls tími til klukkan 15:30 þá hittumst við allar í sal fengum okkur pitsu í “miðdegishressingu”. Heiðar Jónsson snyrtir mætti svo “óvænt” og sagði okkur hvernig við áttum að láta taka eftir okkur, daðra, klæðast og snyrta okkur. Einnig las hann í rithönd og augnhimnur nokkurra kvenna. Eftir það streymdi svo hópurinn á Broadway í sínu fínasta pússi og hlýddi á magnaða Tinu Turner sýningu og var svo mikið stuð á hópnum að hann var dansandi upp á stólunum og borðum. Einhverjar skruppu síðan á diskótek á Hressó á eftir. Daginn eftir var síðan skundað upp í Smáralind, verslað og kíkt á kaffihús áður en haldið var heim á leið. Þetta var alveg með eindæmum skemmtileg ferð og alveg víst að Húnvetnskar húsmæður kunna að gera sér glaðan dag! Orlofsnefnd A-Hún Linda Björk og Vígdís Elva

Höfðaskóli í 3. sæti í Skólahreysti

Fimmtudaginn 8. mars s.l. fór fríður hópur frá Skagaströnd til Akureyrar. Voru þar á ferð nemendur úr 8.-10. bekk Höfðaskóla sem voru á leið í Höllina á Skólahreysti 2007. Skólahreysti er keppni milli grunnskóla landsins og fer þannig fram að 4 keppendur koma frá hverjum skóla og etja kappi í 5 greinum sem tengjast þoli, styrk og snerpu. Í hverri viku er haldin undankeppni þar sem nokkrir skólar etja kappi saman og kemst sigurvegari í úrslitakeppnina sem fram fer í Laugardalshöll í apríl. Hver undankeppni er svo sýnd á Skjá einum á þriðjudagskvöldum kl. 20:00. Í undankeppninni s.l. fimmtudag tóku alls 9 skólar víðsvegar að frá Norðurlandi þátt. Keppnin var æsispennandi allan tímann, ekki bara inni á vellinum heldur líka í áhorfendastúkunni og létu nemendur Höfðaskóla ekki sitt eftir liggja þar, frekar en í keppninni sjálfri. Keppendur Höfðaskóla, þau Ingimar Vignisson, Patrik Snær Bjarnason, Silfá Sjöfn Árnadóttir og Sólrún Ágústa stóðu sig mjög vel og hafnaði liðið í 3. sæti, á eftir Borgarhólsskóla frá Húsavík sem varð í 2. sæti og Grunnskóla Siglufjarðar sem sigraði þessa umferð. Glæsilegur árangur hjá keppendum Höfðaskóla og eiga þau og þjálfari þeirra, Helena Bjarndís Bjarnadóttir íþróttakennari hrós skilið. Liðið lagði mikið á sig og æfði vel fyrir keppnina, fór m.a. í æfingaferð í Voga á Vatnsleysuströnd þar sem finna má útihreystibraut sem hentaði vel til æfinga fyrir Skólahreystina. Að keppni lokinni var síðan haldið á pizzahlaðborð á Greifanum og tóku unglingarnir vel til matar síns enda örþreyttir og svangir eftir öll átökin og köllin í stúkunni. Heimferðin gekk vel og var vel tekið undir fm957- slögurunum í útvarpinu rútubílstjóranum, Ágústi frá Geitaskarði, til mikillar ánægju. Það voru sælir en þreyttir nemendur sem komu aftur til Skagastrandar um tíuleytið, með 3. sætið í Skólahreysti upp á vasann. Ekki síður voru kennararnir sem fóru með í ferðina ánægðir við heimkomuna enda stóðu nemendurnir sig mjög vel í einu og öllu og voru skólanum sínum til mikils sóma. Fyrir þá sem vilja kynna sér Skólahreysti nánar má benda á heimasíðuna www.skolahreysti.is og svo sjónvarpsþættina á þriðjudagskvöldum. Með kærri kveðju, Heiðrún Tryggvadóttir og Ágúst Ingi Ágústsson.

ÁRSHÁTÍÐ HÖFÐASKÓLA

ÁRSHÁTÍÐ Árshátíð Höfðaskóla verður haldin í Fellsborg föstudaginn 16. mars 2007 og hefst kl. 19:30. Dagskrá : - Skemmtiatriði - Diskótek Aðgangseyrir: Fyrir 17 ára og eldri - 1.000.- kr. Fyrir 6 - 16 ára - 600.- kr. Fyrir 5 ára og yngri - frítt Frítt fyrir 3ja barn og fleiri frá heimili. Tertuhappdrætti – aðgöngumiðarnir eru númeraðir. Boðið verður upp á gæslu fyrir yngstu börnin meðan skemmtiatriðin eru. Mætum öll og styðjum ferðasjóð nemenda. Verið velkomin. Skólafélagið Rán.

Wilson Mango í Skagastandarhöfn

Wilson Mango landar í Skagastrandarhöfn rykbindiefni fyrir Vegagerðina. Skipið er á hringferð um landið og kom hingað frá Hólmavík. Landað verður um 750 tonnum. Á myndinni má sjá starfsmenn á vegum hafnarinnar sem tóku á móti skipinu og aðstoðuðu við að binda það. Skipið er skráð á Bahamas og er 89 metra langt.

Málstofa/vinnustofa um tónlist í skólastarfi

Miðvikudaginn 7. mars var haldin, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, málstofa um tónlist í skólastarfi. Leiðbeinandi og umsjónarmaður var Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, tónmenntakennari. Áhersla var lögð á að leiðbeina kennurum um ýmsar leiðir til að brjóta upp kennslu og gera hana líflegri og skemmtilegri með tónlist. Mikil ánægja var með námskeiðið og sagði einn þátttakandinn að þetta hefði verið skemmtilegasta námskeiðið “ever”. Myndir: þátttakendur að störfum og uppstilltir

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í hreppsnefnd Höfðahrepps fimmtudaginn 8. mars 2007 á skrifstofu hreppsins kl 1600.. Dagskrá: Þriggja ára áætlun 2008-2010. (síðari umræða) Umsögn um tillögu til þingsályktunar um Samgönguáætlanir 2007-2010 og 2007-2018. Bréf: a) Héraðsráðs, dags. 18. febrúar 2007. b) Sambands íslenskra sveitarfélaga, 8. febrúar 2007. c) Växjö kommun, 9. og 12. febrúar 2007. d) Forx, 9. febrúar 2007. Fundargerðir: a) Héraðsnefndar A-Hún, 13.12.2007 b) Héraðsráðs, 4.01.2007 c) Héraðsráðs, 10.01.2007 d) Hérðasráðs, 15.01.2007 e) Héraðsráðs, 18.01.2007 f) Héraðsráðs, 14.02.2007 g) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 14.02.2007 Önnur mál Sveitarstjóri