Dagskrá Kántrýdaga

Kántrýdagar verða 17.-19. ágúst nk. Dagskrá þeirra er nokkuð hefðbundin. Kántrýsúpan er á sínum stað í tjaldinu. Þar verða líka tónleikar föstudags og laugardagskvöld. Í Kántrýbæ verða böll og sýning kvikmyndarinnar Kúrekar norðursins. Hljómsveitirnar Gildran, Klaufar, Illgresi, 1860 og Sefjun eru kallaðar til leiks. Ljósmynda- og listsýningar ásamt handverkssölu eru einnig í boði ásamt spádómum og gönguferðum. Drög að dagskrá hátíðarinnar má finna hér: http://www.skagastrond.is/kantrydagskra2012.pdf

Frá Nes listamiðstöð

Það verður opið hús fimmtudaginn 26. júlí. Það verður skemmtilega öðruvísi og vonandi verður veðrið gott. Byrjað verður á slaginu 16:00 með gjörningi, á efstu hæð gamla frystihússins að Einbúastíg, sem stendur til 16:30. Á eftir mun verða hægt að sjá eftirstöðvar gjörningsins sem lista innsetningu. Kl. 16:30 verður lítil myndbands innsetning sýnd á leynistað í gamla frystihúsinu.. lítið eftir merkingum! Síðan er hægt að ganga til baka fyrir víkina að kaffihúsinu þar sem hljóðlistamaðurinn Askel Strimm mun flytja tónlist með vindinum. Að því loknu er haldið áfram að listamiðstöðinni þar sem hægt verður að skoða það sem listamenn eru að starfa við. Boðið er upp á kaffi, te og kex. Vonumst til að sjá ykkur þar, þar og þar! Melody

Uppistand á Skagaströnd

Kaffi Bjarmanes föstudag 27. júlí kl. 21:30 FRÍTT INN Rökkvi Vésteinsson verður með um 30 mínútna uppistand þar sem allt fær að flakka, enda þekktur fyrir að vera sérstaklega hömlulaus grínisti. Rökkvi hefur verið með uppistönd í 7 löndum á 4 tungumálum og hefur komið fram í öllum landshlutum Íslands. Árið 2006 sigraði hann í fyrstu umferð af Great Canadian Laugh Off keppninni í Kanada. Rökkvi er ekki síst þekktur fyrir video á netinu, meðal annars þar sem hann hleypur niður Laugaveginn í Borat sundskýlu, auk uppistandsmyndbanda og grínlaga.

Gæsluvöllur er lokaður

Þar sem lítil sem engin aðsókn hefur verið að gæsluvellinum sem auglýstur var fyrr í sumar hefur verið ákveðið að loka honum það sem eftir er af sumarleyfi leikskólans. Sveitarstjóri

Útboð á stækkun urðunarstaðar

Mánudaginn 23. júlí 2012 voru opnuð tilboð í verkið „Urðunarstaður Stekkjarvík Blönduósbæ – stækkun“ Tvö tilboð bárust í verkið. Lægstbjóðandi var Ingileifur Jónsson ehf. sem bauð 36.615 þús. en Skagfirskir verktakar ehf. buðu 36.800 þús. Kostnaðaráætlun var 25.829 þús. Tilboð í verkið voru því 142% miðað við kostnaðaráætlun. Verkið er fólgið í stækkun urðunarhólfs í Stekkjarvík til að gera mögulegt að taka við sláturúrgangi og öðrum lífrænum úrgangi til urðunar. Um er að ræða gröft og tilfærslu 35.000 rúmmetra jarðefna og mótun á sérstöku urðunarhólfi ásamt frágangi siturlagna. Verklok eru 31. ágúst 2012 og gert ráð fyrir að hægt verði að taka á móti úrgangi frá sláturhúsum í haust. Byggðasamlagið Norðurá bs. rekur urðunarstaðinn Stekkjarvík og stendur að framkvæmdunum.

Tónleikar Brother grass í Kántrýbæ í kvöld

Hljómsveitin Brother grass verður með tónleika í Kántrýbæ í kvöld, 23. júlí, og hefjast þeir kl 21. Hljómsveitin Brother Grass varð til síðla sumars 2010 þegar Hildur, Sandra, Soffía og Ösp ákváðu að halda saman bluegrass tónleika. Þær fengu til liðs við sig gítarleikarann Örn Eldjárn, bróður Aspar, til að spila með sér á litlum tónleikum 25. ágúst 2010 og þá var ekki aftur snúið! Hafa þau tínt til ýmis bluegrass og suðurríkjalög og útsett í eigin stíl, þar sem þvottabali, gyðingaharpa og víbraslappi koma meðal annars við sögu. Tónlist þeirra er bræðingur af Bluegrass, Blues, Folk, Gospel og Old Time Mountain Hillbilly Music.

"Ekki skamma mig séra Tumi" í Hólaneskirkju

Leik- og söngdagskráin „Ekki skamma mig séra Tumi“ verður sýnd í Hólaneskirkju á Skagaströnd föstudaginn 27. júlí næstkomandi klukkan 20. Dagskráin er um vinina Jónas Hallgrímsson, rithöfund og ljóðskáld og vin hans og Tómas Sæmundsson. Guðrún Ásmundsdóttir rekur sögu þeirra sem hefur verið hulin íslenskum áhorfendum fram að þessu. Guðrún hefur langa og mikla reynslu í því að flytja sögu sem þessi á lifandi og skemmtilegan hátt. Inn í verkið fléttast síðan ýmiskonar lög frá ýmsum tímum, sum eftir Jónas Hallgrímsson - t.d. Jeg elsker dig, önnur sem tengjast lífi hans og störfum á annan hátt. Alexandra Chernyshova sópran söngkona syngur. Leik- og söngdagskráin fjallar um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar og tengsl hans og vinar Tómasar Sæmundssonar á mismunandi tímum ævi þeirra. Verkið tekur einnig á þeim erlendum áhrifum sem Jónas var fyrir og koma þau vel fram í söngdagskránni en lögin eru sungin á fimm tungumálum alls. Inn í dagskránna fléttast síðan vídeóverk sem Arna Valsdóttir vídeólistamaður hefur gert um Hraundragana í Öxnadal og er tileinkað ljóði Jónasar "Ferðalok". þrír hljóðfæraleikarar koma að verkinu en leikið er undir lögin á píanó, fiðlu og selló. Markmið er að kynna fyrir íslenskum áhorfendum ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar og vináttutengsl hans við Tómas Sæmundsson á léttan og skemmtilegan hátt með leik- og söngdagkrá. Guðrún Ásmundsdóttir er í hlutverki sögumanns og fléttar inn í söguna leik og söng eins og við á hverju sinni. Ýmislegt kemur fram í verkinu sem íslenskir áhorfendur vissu ekki um Jónas og Tómas og á það því fullt erindi til þeirra. Guðrún Ásmundsdóttir, leikstjóri, sögumaður og leikkona. Hefur unnið sem fastráðin leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur síðan árið 1967. Eru það rúm 100 hlutverk sem hún hefur leikið hjá L.R. og hjá Þjóðleikhúsinu. Leikstjórn bæði á Akureyri L.R sömuleiðis í sjónvarpi. Sem leikritahöfundur hefur hún skrifað: Kaj Munk (Leikið í Hallgrímskirkju 1987, sömuleiðis í Vartov kirkju í Kaupmannahöfn og veittu Danir höfundi Kaj Munk verðlaunin 1989. En þau verðlaun eru veitt höfundum sem hafa skrifað verk í tengslum eflingar friðar í heiminum ) Heilagir Syndarar (Leikið í Grafarvogskirkju 1999) Ólafia. Leikverk byggt á æfi og starfi Ólafíu Jóhannsdóttur f.1863 – d. 1924. Var það verk sýnt í Mosfellskirkju, Fríkirkjunni í Reykjavík, Skálholtskirkju og einnig í Jakobskirken í Oslo en þar var leikritið sýnt í noskri þýðingu. Guðrún hefur leikstýrt hjá Óperu Skagafjarðar, La Traviata 2007/2008 og Rigoletto 2009. Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og leikkona Alexandra er fædd í Kiev, Úkraínu. Hún lauk tónlistarskóla, píanónámi, árið 1993. Þaðan fór hún í söngnám í tónlistarháskólanum Glier í Kíev, hún útskrifaðist með heiðri árið 1998. Sama ár var gerð heimildarmynd “Alexandra” sem var sýnd í ríkissjónvarpinu. Alexandra söng fyrst í óperunni í Kiev þegar hún var 19 ára gömul, aðalhlutverkið, Ivasik í óperunni "Ivasik-Telesik" eftir O.Zerbakov. Frá árinu 1998 til 2000 söng hún sem einsöngvari með Úkraínsku sinfóníuhljómsveitinni í útvarpi í Kiev. Í apríl, árið 2002, var Alexandra valin besta nýja óperuröddin í keppninni “Nýtt nafn í Úkraínu”. Síðar það ár tók hún þátt í alþjóðlegri keppni óperusöngvara í Grikklandi, Rhodes og hafnaði þar í fjórða sæti, yngst keppenda. Frá árinu 1999 til 2003 stundaði Alexandra söngnám í Músík Akademíunni Nezdanova, Odessu / Úkraínu, kennari hennar þar og um leið yfirkennari söngdeildar var prófessor Galina Polivanova. Alexandra útskrifaðist þar einnig með heiðri. Á þessum árum hefur hún sungið m.a. í óperustúdíóinu í Odessa með sinfóníuhljómsveit, hlutverk eins og Gilda úr óperunni “Rigoletto” eftir G. Verdi, Natalka úr óperunni “Natalka-Poltavka” eftir L. Lisenko o.fl. Alexandra stundaði framhaldsnám hjá Katju Riccarelli, Ítalíu og Hanno Blascke, Þýskalandi. Frá ágúst 2002 var Alexandra fastráðin sem einsöngvari í óperunni í Kiev. Alexandra fluttist til Íslands haustið 2003 og hefur frá þeim tíma haldið fjölmarga einsöngstónleika. Alexandra gaf út sinn fyrsta geisladisk árið 2006 og síðan annan í fyrra, lög eftir S. Rachmaninov. Alexandra stofanaði Óperu Skagafjarðar árið 2006 sem setti upp La Traviata 2007/2008, Rigoletto 2009 og Óperudrauginn 2011. Alexandra á og rekur eigin söngskóla, Söngskóla Alexöndru í Skagafirði. Alexandra lauk M.Ed. námi í vor frá háskóli í Kiev - lokaritgerðin var um endurmenntun tónlistarkennara. Alexandra hóf meistaranám í haust við LHÍ í nýsköpun í tónlist. Arna Valsdóttir, vídeólistamaður og leikkona í sýningunni Arna stundaði nám við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1996 og síðan Jan Van Eyck Akademi-video og audiodeild, Maastricht árið 1989. Arna hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar hérlendis sem erlendis. Arna hefur einnig kennt við HA og listnámsbraut VMA. Ragnar Kjartansson, leikari í sýningunni Ragnar tilheyrir kynslóð íslenskra listamanna sem fæst við tilraunkennda listsköpun sem einkennist öðru fremur af ljóðrænni framsetningu og blöndun miðla. Hann hefur notið velgengni hérlendis sem og erlendis og tekið þátt í fjölda sýninga. Verk hans The End var t.a.m. framlag Íslands á hinum alþjóðlega Feneyjartvíæringi árið 2009. Ragnar hefur lagt mikla áherslu á leiklist í verkum sínum og hefur gert mörg vídeó þar sem hann blandar saman miðlum eins og tónlist, gjörningi og málverki en leiklistin er jafnan í forgrunni í verkum hans. Davíð Þór Jónsson, leikari og undirleikari í sýningunni Davíð Þór Jónsson lærði á píanó og saxafón frá 10 ára aldri við Tónlistarskólann á Akranesi og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla F.Í.H. vorið 2001 með ágætiseinkunn. Davíð dvaldist sem skiptinemi við Musikkonservatoríið í Þrándheimi veturinn 1999-2000 og sótti þá meðal annars námskeið hjá Michael Formaneck, Jim Black og Gary Peacock. Hann hefur leikið með fjölmörgum sveitum, og má þar nefna tríóið FLÍS, tríóið HOD, kvintettinn MOTIF (Young Nordic Jazz Comets), Trio Grande, kvartettinn Adanak, Kaos kvartett, Súper Repús dúó og Hrafn Ásgeirsson-Davíð Þór Jónsson dúó. Hann vann ásamt Daníel Bjarnasyni tónskáldi spunahugmyndir fyrir tvo flygla sem urðu síðar kveikjan að verki Daníels, Compromisations. Þá samdi hann, útsetti og tók upp tónlist fyrir leiksýninguna CommonNonsense í Borgarleikhúsinu, fyrir stuttmyndina Konur-skapavandræði sem og fyrir stuttmyndina Njóttu lífsins, þá í samstarfi við Helga Sv. Helgasyni. Davíð Þór hefur gefið út einn geisladisk undir eigin nafni; rask. Hann sá um tónlistarflutning í Þetta er allt að koma Hlutverkaskipan: Tómas Sæmundsson leikur Davíð þór Jónsson Jónas Hallgrímsson leikur Ragnar Kjartansson Sögumaður og höfundur handrits er Guðrún Ásmundsdóttir. Söngkona og leikandi er Alexandra Chernyshova. Myndlistarkonur og leikendur eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Arna Guðný Valsdóttir Heiðursgestur og leikandi í sýningunni er Þráinn Karlsson. Sýningar verða: Í Hólaneskirkju á Skagaströnd, föstudaginn 27. júlí klukkan 20. Í Bifröst á Sauðárkróki Laugardaginn 28. júlí klukkan 20. Í Ketilhúsinu á Akureyri Sunnudaginn 29. júlí klukkan 16.

Landsbankinn Skagaströnd 30 ára.

Föstudaginn 20. júlí 2012 verða liðin 30 ár frá því að Landsbankinn opnaði útibú á Skagaströnd. Í tilefni tímamótanna bjóðum við gestum og gangandi í afmæliskaffi og ís í útibúinu, föstudaginn 20. júlí. Gamlar myndir verða til sýnis frá starfseminni. Það er von starfsmanna útibúsins að þú eigir kost á að líta við og þiggja veitingar í tilefni afmælisins.

Ljósmyndasýning í Kaffi Bjarmanesi

Vigdís Heiðrún Viggósdóttir er með ljósmyndasýningu í kaffihúsinu Bjarmanesi, Skagaströnd, sem stendur fram í ágúst. Opið er kl: 11:30-22 alla daga. Vertu hjartanlega velkomin og sjáðu sýninguna, „MEÐ EIGIN AUGUM‘‘

Flugdrekamyndir frá Skagaströnd

Það eru ýmsar leiðir til að taka skemmtilegar myndir og ljósmynaáhugi mikill og vaxandi með aukinni tækni og allskonar áhugaverðum ljósmyndabúnaði. Ljósmynaáhugafólk sækist eftir ýmsum og mismunandi myndefnum til úrvinnslu: Fólk, atburðir, birta, litir, fjöll og form eru þekkt viðfangsefni. Tæknin og möguleikarnir til áhugverðrar myndatöku eru allt að því óþrjótandi. Ein leiðin til að taka skemmtilegar myndir er að senda myndavélina upp í flugdreka og láta hana grípa sjónhorn fuglsins og færa það til eigandans og þeirra sem hann deilir myndefni sínu með. Einn af þeim sem stundar slíka flugdrekaljósmyndun er Árni Geirsson ráðgjafi hjá Alta ehf. Hann var á ferð um Skagaströnd fyrir nokkru og tók mjög skemmtilegar myndir með hjálp flugdrekans sem hann birtir á heimasíðu sinni: http://www.flickr.com/photos/arnigeirsson/sets/72157630503619218/