Opnunartími íþróttahúss og sundlaugar um páska

Íþróttahús og sundlaug Skagastrandar Opnunartími um Páskana Sundlaug: Fimmtudaginn 29. mars, Skírdag 17-20 Föstudaginn langa 30. mars 17-20 Laugardaginn 31.mars 13-17 PÁSKADAG LOKAÐ Mánudaginn 2. apríl, annar í páskum 17-20 Íþróttahús: Fimmtudaginn 29. mars, Skírdagur 13-17 Föstudaginn langa 30. mars 13-17 Laugardaginn 31.mars LOKAÐ PÁSKADAGUR LOKAÐ Mánudaginn 2. apríl, annar í páskum 13-17

Mynd vikunnar

Hofskirkja Hofskirkja að lokinni endurbyggingu í desember 1989. Kirkjan er líklega elsta timburbygging í Húnavatnssýslum sem enn stendur. Hún var byggð 1870 en gerðar voru á henni lagfæringar um 1950 og síðan var hún endurbyggð 1989, eins og áður segir. Kirkjan var síðan friðuð 1. janúar 1990. Hofsprestakall var lagt niður og fært undir Höskuldsstaði árið 1907 en tilheyrir Skagastrandarprestakalli í dag eins og Höskuldsstaðakirkja. Í kirkjunni er ævagamall trénegldur predikunarstóll með myndum af guðspjallamönnunum. Altaristaflan, sem sýnir upprisuna, er líka gömul og er hún talin vera verk einhvers íslensks listamanns. Jón Árnason þjóðsagnasafnari fæddist á Hofi, sonur Árna Illugasonar prests þar. Senda upplýsingar um myndina

Mynd vikunnar

Vitinn Þessi viti stóð áratugum saman á enda hafskipabryggjunnar (Útgarði) í Skagastrandarhöfn og vísaði sjómönnum rétta leið til hafnar. Á myndinni, sem Ingibergur Guðmundsson tók í apríl 1987, er hann þakinn ís eftir mikla ágöf. Vitinn var gasknúinn og því var inni í honum hólf fyrir gaskút. Vitinn var rifinn þegar hann var farinn að láta verulega á sjá eftir endalausan ágang sjávar ekki síst vegna þess að bryggjan sem hann stóð á seig og hallaðist þannig að meira mæddi á honum en áður. Í dag er rör með ljósi á sama stað og vitinn stóð en hinum megin við innsiglinguna í höfnina, við skerið Brúnkollu, er ljósbauja með blikkandi ljósi. Senda upplýsingar um myndina

Námsstyrkir til nemenda á framhalds- og háskólastigi

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2018 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2017-2018 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 20. apríl 2018. Umsóknir sem berast eftir umsóknarfrest verða ekki teknar til greina. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Reglur um styrkina má finna hér. Umsókn um styrk má finna hér. Sveitarstjóri

Umhverfirssjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna auglýsir

Umhverfissjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna veitir styrki á tveggja ára fresti. Sjóðnum er ætlað að úthluta styrkjum til verkefna sem stuðla að verndun náttúru Íslands. Fyrirtæki, einstaklingar, eignarhaldsfélög, félagasamtök, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta fengið framlög frá sjóðnum. Umsóknaraðilar geta einnig verið samstarf nokkurra aðila. Umsóknafrestur rennur út 10. april 2018. Sjá nánar um reglur sjóðsins á heimasíðu félagsins; https://fjallaleidsogumenn.is/um-okkur/umhverfisstefna/umhverfissjodur/

Mynd vikunnar

Heimsókn í Blönduvirkjun Myndin var tekin í heimsókn yngri nemenda Höfðaskóla í Blönduvirkjun 29. apríl 1997. Allir verða að vera með hjálma í heimsókninni eins og sjá má. Nemendurnir eru frá vinstri: Aris Eva Vilhelmsdóttir, Fjóla Dögg Björnsdóttir, Alma Eik Sævarsdóttir, Maríanna Ástmarsdóttir, Brynja Ágústsdóttir og Ester Ösp Víðisdóttir. Senda upplýsingar um myndina

Mat á umhverfisáhrifum /Ákvörðun um matsskyldu

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur tekið ákvörðun um að smábátahöfn á Skagaströnd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Ákvörðunin liggur frammi hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd og á vefsíðu sveitarfélagsins www.skagastrond.is og www.skipulagsstofnun.is. Ákvörðunina má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til 14. apríl 2018. Fyrir hönd sveitarstjórnar Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Upplýsingavefur opnaður um sameiningu í A-Hún.

Opnaður hefur verið upplýsingavefur um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Á honum má finna fréttir og tilkynningar, fundargerðir, minnisblöð og aðrar upplýsingar sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra sem eru; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Vefslóðin er: sameining.huni.is. Upplýsingavefurinn er samstarfsverkefni Húnahornsins, sameiningarnefndar A-Hún. og Ráðrík ráðgjafa. Hann er í umsjón og á ábyrgð Húnahornsins – fréttavefs Húnvetninga í 17 ár. Upplýsingar sem á vefinn koma eru frá sameiningarnefndinni og Ráðrík ráðgjöfum. Aðra almenna textavinnslu sér Húnahornið um. Opnir fundir á sex stöðum eftir páska Svanfríður Jónasdóttir hjá Ráðrík ráðgjöf segir upplýsingavefinn mjög mikilvægan til þess að allir geti fylgst með og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi í tengslum við framtíðarskipan sveitarstjórnarmála í A-Hún. Hún segir mikilvægt að sem flestir hafi tök á að kynna sér sameiningarmálefnin, geti rætt málin og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Í undirbúningi er að halda opna fundi á sex stöðum í sýslunni strax eftir páska. „Þeir verða opnir öllum íbúum, þ.e.a.s. þú þarft ekki að mæta á fundinn sem er næstur þínu heimili, heldur getur sótt hvaða fund sem er til að taka þátt í umræðu um framtíðarskipan sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu,“ segir Svanfríður.

Líf og fjör í Vörusmiðjunni

Nemendur Farskóla Norðurlands vestra sem sækja námskeiðið Beint frá býli komu í heimsókn í Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd í síðustu viku. Ástæða heimsóknarinnar var að hluti af námskeiðinu fer fram í Vörusmiðjunni. Í þessari heimsókn var framkvæmd sýnikennsla þar sem leiðbeinandinn Páll Friðriksson fór í gegnum nokkra þætti matvælavinnslu t.d. fars- og pylsugerð. Útbúin voru sýnishorn af ýmsum spennandi vörum sem áhugavert verður að sjá hvort unnið verður með áfram. Þátttakendum námskeiðsins stendur síðan til boða að nýta heilan dag út af fyrir sig í Vörusmiðjunni án endurgjalds þar sem slíkt er innifalið í námskeiðinu. Fólk getur þannig nýtt kunnáttu sína til þróunarstarfs í eigin þágu sem við vonum að endingu mun skila sér í fjölbreyttara vöruúrvali fyrir okkur neytendur.