Svið og súrmatur

Kvennfélagskonur hafa staðið í ströngu við undirbúning þorrablótsins sem fram fer á laugardaginn í Félagsheimlinu Fellsborg. Hefur þorrailmurinn smátt og smátt tekið völdin í sölum hússins auk þess sem hlátrasköll og skarkali sem berst ofan af sviðinu, frá þorrablótsskemmtinefndarfólki, gefur vísbendingar um að allt sé að verða klárt. Ekki hefur farið miklum sögum af þeim atriðum sem taka á fyrir enn víst má telja að stiklað verði á helstu viðburðum ársins. Kvennfélagskonur höfðu á orði að matarborðið ætti að verða í hefðbundnum stíl svo það er ekki hægt annað en að láta sér hlakka til.

Svipmyndir frá Skagaströnd

Áhugaljósmyndarar eiga oft í fórum sínum einstakt safn mynda sem segja sögu liðinna ára. Skagaströnd státar af mörgum slíkum og hefur einn þeirra, Árni Geir Ingvarsson nú komið sér upp heimasíðu með eigin ljósmyndum og myndum úr safni Herberts Ólafssonar. Það er ómetanlegt fyrir söguna að eiga aðgang að þessum myndum og gaman af þegar það er opnað öllum með aðgangi á netinu. Árni Geir hefur í gegnum tíðina tekið mikið af myndum og hafa þær mikið gildi þar sem þær segja sögu og þær breytingar sem skýrast koma fram þegar litið er um öxl. Hægt er að heimsækja myndasíðu Árna Geirs á slóðinni: http://www.123.is/arnigeir/default.aspx?page=albums

Hljómsveitin “SPOR” vann til verðlauna í Vestmannaeyjum

Laugardaginn 21. janúar keppti hljómsveitin “SPOR” frá Skagaströnd í árlegri hljómsveitarkeppni, “Allra veðra von”, í Vestmannaeyjum. Skemmst er frá því að segja að Skagstrendingarnir ungu stóðu sig frábærlega og urðu í öðru sæti af þrettán hljómsveitum í keppninni. Verðlaunin eru að spila á “Þjóðhátíð 2006”. Hljómsveitina “SPOR” skipa fjórir ungir menn, Almar söngvari, Ómar gítarleikari, Sævar trommuleikari og yngsti meðlimurinn er Kristján bassaleikari. Hljómsveitin spilar svokallað “Heavy Metal” rokk og hefur verið iðin við að semja lög. Umfjöllun um þessa keppni var í þættinum “Rokkland” á Rás 2 á sunnudaginn og verður þátturinn endurtekinn eftir 10 fréttir þriðjudaginn 24. janúar. Tómstunda- og íþróttafulltrúi.

Skákvika á Skagaströnd.

Vikuna 23.-27. janúar verður Skákvika í Höfðaskóla í samstarfi við skákfélagið Hrókinn. Róbert Harðarson alþjóðlegur skákmeistari verður á Skagaströnd þessa daga og mun hann kenna skólabörnum auk þess að vera með skákæfingar, fjöltefli og hraðskákmót. Hrókurinn hefur að undanförnu staðið fyrir öfluga skákstarfi á Íslandi svo og erlendis. Stuðningsaðilar skákvikunnar eru Fisk Seafood, Landsbanki Íslands og Marska ehf.

ÞORRABLÓT 2006

ÞORRABLÓT 2006 Þorrablótið verður haldið laugardaginn 28.janúar 2006 í Fellsborg. Dagsskrá: Húsið opnar kl:20:00. Borðhald hefst kl:20:30. Veislustjóri er Lárus Ægir. Skemmtatriði að hætti heimamanna. Hljómsveitin VON frá Sauðárkróki heldur uppi dúndurfjöri fram eftir nóttu. Miðar verða seldir sunnudaginn 22.janúar kl. 12:00 í andyri Fellsborgar. Miðaverð kr. 4.800.- Miðaverð eldriborgara og unglinga fæddir 1990 kr. 3.800.-

„Um áætlunarakstur milli Skagastrandar og Blönduóss.

Eins og Skagstrendingar og nærsveitamenn hafa væntanlega tekið eftir þá þurfa farþegar, sem eru að koma eða fara á leiðinni Skagaströnd – Blönduós, að hafa samband við sérleyfishafa leiðarinnar milli Reykjavíkur - Akureyrar með a.m.k. 6 tíma fyrirvara til að fá þjónustu. Þetta er í samræmi við útboð Vegagerðarinnar og samnings hennar og Hópferðamiðstöðvarinnar-TREX frá því í nóvember s.l.. Til að njóta þjónustunnar er hægt að hafa samband við umsjónarmann leiðarinnar, Óskar Stefánsson í GSM 699 3219 eða við Hópferðamiðstöðina – TREX í síma 587 6000.“ Jón Gunnar Borgþórsson, framkvæmdastjóri Hópferðamiðstöðin/TREX Hestháls 10, 110 - Reykjavík. Sími 587 6000, Fax 567 4969, www.trex.is - www.vesttravel.is

Úrslit í flugeldapotti 2005

Björgunarsveitin Strönd og UMF. Fram voru með árlega flugeldasölu sína fyrir áramótin og seldust allar flugeldabirgðir upp. Að venju var dregið úr potti en þeir sem versluðu fyrir 15.000 krónur eða meira komust í pottinn. Það var svo lokahnikurinn á flugeldasölu ársins að afhenda vinningshafanum verðlaunin sem var að sjálfsögðu vegleg flugeldaveisla. Vinningshafi árins 2005 var Jón Heiðar Jónsson, en hann hefur stutt duglega við flugeldasöluna í gegnum árin. Flugeldasalan er ein mikilvægasta fjáröflun félaganna og þakka þau veittan stuðning í gegnum árin.